Færsluflokkur: Bloggar

Hverjum er barnið líkt?

Er þetta ekki spurning sem við erum alltaf að velta fyrir okkur?

Ég prófaði að gamni að gera svona líkinda próf á facebook til að sjá hvoru okkar hjóna synirnir líktust meira. Þetta eru niðurstöðurnar varðandi  þá Gunnar og Björn - en ég þarf að finna góða mynd af honum Snorra mínum til að geta gert þetta próf líka fyrir hann. 

Það ríkir greinilega mikið jafnræði á milli okkar hjóna í þessu eins og svo mörgu öðru Smile:

safe_imagea.php  safe_image.php (Small)


Ungarnir taka flugið

Jæja þá fer að koma að því að ábúendum hér á bæ fækki um þriðjung. Turdildúfurnar á heimilinu eru nefnilega að kaupa sér íbúð og fengu hana afhenta í hádeginu í dag. Þau voru svo heppin að festa kaup í afar góðri þriggja herbergja íbúð á sanngjörnu verði – Já, sanngjörnu verði, Eigandinn sá sem var að ásett verð var alltof, alltof hátt og sættist á viðráðanlegt verð. 

Okkur sem sagt fækkar nokkuð í heimili og ég held að allir séu bara afar sáttir við það þrátt fyrir að sambúðin hafi gengið mjög vel fram til þessa – það er jú gangur lífsins að ungarnir fljúgi úr hreiðrinu. Nú og ef söknuðurinn verður mjög mikill þá er nú ekki langt að fara á milli Grafarvogs og Breiðholts. 

Því er heldur ekki að neita að það er orðið ööörlítið þröngt um okkur og ég verð ekkert leið yfir því að flytja aftur í svefnherbergið mitt góða. Ég hef svo sem verið fyllilega sátt við að klöngrast yfir minn betri helming til að skríða í bælið mitt upp við vegginn í átta fermetrunum sem hafa verið okkar verelsi síðustu misseri. Enda var það  algerlega að mínu frumkvæði að við gengum úr herbergi fyrir unga fólkið – nú og svo er kallinn svo ansi mjúkur og tekur mínum klifurtilburðum af miklu æðruleysi Whistling

En gott verður það að geta bara gengið að rúmstokknum og smeygt sé uppí, nú eða risið úr rekkju án þess að þurfa , í orðsins fyllstu merkingu, að skríða fram úr. Svona geta einföldustu hlutir orðið mikils virði og hluti lífsgæða.


Ekki svo mikil dramadrottning

thorhildur_konnunÉg fékk þessa niðurstöðu í hinu trúveðuga dramadrottningarprófi sem ég fann á síðunni hennar Sillu kórsystur minnar:

Miðlungssteikt dramadrottning 

"Ef dramadrottningar væru hamborgarar sem fengjust „rare“, „medium rare“, „medium“ og „well done“ værir þú „medium“. Miðlungssteiktar dramadrottningar eru konur meðalhófs. Þær eru skynsemisverur miklar, hafa sterka réttlætiskennd og vilja öllum vel. Í raun myndu flestar miðlungssteiktar dramadrottningar frekar vilja vera baunabuff en hamborgari því þá hefðu engin saklaus dýr þurft að líða fyrir samlíkinguna.

Miðlungssteiktar dramadrottningar hafa algera stjórn á dramatíska hluta heilans. Í raun verður sjaldan vart dramatískrar hegðunar hjá hinni miðlungssteiktu. Ekki einu sinni slæmur hárdagur getur raskað ró hennar.

Miðlungssteiktar dramadrottningar eru hæglátar, yfirvegaðar en fylgispakar. Þær eru trúar leiðtoga sínum sem er gjarnan léttsteikta dramadrottningin og fylgja henni oft í blindni. Þegar á reynir er hún hins vegar ekki tilbúin til að hvika frá sannfæringu sinni og á það til að vera samviska þeirrar léttsteiktu og halda henni á jörðinni."

 

Ég túlka þetta svo að ég sé kannski bara ekki svo mikil dramadrottning - enda held ég stóískri ró minni yfir nýjustu leikfléttu í borgarmálunum.

Fyrstu merki haustsins

Já, fyrstu merki þess að haustið nálgast eru nú greinileg.

Fuglarnir eru komnir með skitu og berjabláar sletturnar skreyta stéttina hér allt í kringum hús hjá mér.


Hlýrra en allt sem hlýtt er

Ég átti erindi í Reynisholtið mitt í gær vegna undirbúnings námskeiðs sem fyrirhugað er að við Sigurlaug höldum ásamt Helenu í Náttúruskólanum fyrir starfsfólk Grænfánaleikskóla hjá Borginni.

Ég gekk auðvitað inn á deildir og fékk afar ljúfar móttökur frá ungum (og eldri reyndar líka) vinum mínu.

Ein 5 ára vinkona mín stökk á fætur, faðmaði mig og sagði: "HVAR VARSTU?"

Ég strauk henni um vangann og svaraði: "Ég var í hinni vinnunni minni, nýju vinnunni minni... (mér mætti augnarráð sem sagð - Og hvað?) Ég: ...en ég kem í heimsókn!"

Hún: "Ohhh, ég elska þig svooo mikið!"  


Tveir fyrir einn - eða...?

Ætli það hafi verið tveir-fyrir-einn-tilboð þarna á Skaganum?

Ég fylgist náttúrulega ekki mikið með íþróttum og þeim hefðum sem þar tíðkast en hélt að venjan væri að ráða einn þjálfara til hvers liðs. Nú hafa þeir hins vegar tekið þetta að sér, Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir.

Eða eru þeir ekki annars tveir - eru þeir kannski bara einn? 


Játning

Já, Særún hittir naglann á höfuðið í athugasemdum hér að neðan. Ég gafst auðvitað upp á tölvuvinnu fyrir hádegið.

Ætlaði bara aðeins að snyrta beðin mín... og svo halda árfam... úbbs, komið að hádegishléi... bara smá bita og svo... æ, kannski fyrst klippa nokkrar útvaxnar trjágreinar svona áður en hann fer að rigna og slaka svolítið á... ummm... mikið sem kallarnir mínir eru duglegir - kannski að ég skreppi í sjoppuna, kaupi ís og baki handa þeim vöfflur þessum elskum... ja hérna bara ekkert farið að rigna... kannski að ég sópi aðeins og spúli stéttina...hvað ertu að segja er klukkan orðin svona margt - skrambinn tekur því ekki að byrja á neinu núna... læt bara renna í pottinn Cool

Ég meina til hvers eru sumarfrí!


Ég gekk út fyrir

...með kaffibollann minn í morgun og leit yfir lendur mínar. Þær eru svo sem ekki nein ósköp en samt hlýlegur garður sem getur litið svo ansi vel út… GETUR þ.e. ef honum er sinnt. 

Þeir feðgar, Sveinn og Snorri, hafa reyndar verið ansi iðnir undanfarið við að klára ýmsan frágang sem við höfðum trassað s.s. að fullklára skjólgirðingu og frágang á bílskúrshurð. Þeir ætla að halda áfram í dag og þar sem ég stóð með kaffibollann minn hér úti á stétt var ég eitt augnablik við það að ákveða að eyða deginum úti við. Kraka í beðin mín og losa þau við arfa og annan gróður sem ekki þykir til prýði í fínum beðum; klippa svona eins og eina og eina grein sem farin er að skaga óþarflega út úr runnum og jafnvel fá mér rölt um grasflötina í félagsskap sláttuvélarinnar. 

En þar sem rigningartíðin undanfarið náði að blása mér sjálfsaga í brjóst tókst mér að snúa niður þessa skyndilegu löngun til líkamlegra verka. Nei, Ingibjörg, inn góða mín og að tölvunni. Verkefni dagsins er svo sem ekki leiðinlegt. Mín bíður það að vinna úr viðtölum sem ég tók við nokkur 4 og 5 ára börn nú í vor og koma mati þeirra á leikskólastarfinu í röklegt samhengi við önnur gögn.


Fyrr má ég hundur heita

...en að ég kaupi LU-kexpakka inn á þetta heimili - svo hörmuleg og niðurlægjandi er auglýsingin þeirra með hrínadi kvensniptum sem eiga sér þá ósk heitasta að vinna í LU-leiknum.

Brósi minn

Í dag, 24. júlí hefði Grettir bróðir minn orðið 63 ára. Nú eru liðin nærri sex ár frá því að hann lést af völdum heilaæxlis en enn þann dag í dag finnst mér að hann hljóti að vera til staðar; að ég geti hringt í hann og að hann haldi utan um okkur öll í fjölskyldunni eins og honum var einum lagið. 

 

Ég set hérna mynd sem tekin var af okkur systkinunum vorið 2002 í fermingu Snorra sonar míns. Þá var Grettir afar veikur en tók því af miklu æðruleysi, tók þátt í öllum uppákomum fjölskyldunnar og var hrókur alls fagnaðar eins og jafnan áður. Það er dýrmætt í dag að eiga svona myndir og minningar um góðar stundir.  

 

DSCF0011Það var t.d. mikils virði að við skyldum þetta sama sumar fara öll saman stórfjölskyldan til Benidorm en þar var þessi mynd tekin á góðri stundu af þeim Gretti og mágkonum mínum; Kristínu og Þuru, konunni hans en þau höfðu verið saman frá því að þau voru 16 ára.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband