Færsluflokkur: Menntun og skóli

Það er leikur að læra...5 ára

Nú hefur verið samþykkt í bæði leikskóla- og menntaráði að opna næsta haust fimm ára deildir/bekki við grunnskóla í öllum hverfum borgarinnar. Ég er í hjarta mínu sammála því að val og fjölbreytileiki er yfirleitt alltaf til góða og tel að ef einum tekst vel upp – í einu kerfi þá muni það efla þá til dáða sem vinna samkvæmt öðru kerfi og gengur síður vel. Því að við höfum sem betur fer tilhneigingu til að læra hvert af öðru. 

Ég er hins vegar ekki viss um að þetta sé það sem fimm ára börnin okkar þurfa mest á að halda. Í hröðu og kröfuhörðu samfélagi nútímans er ég t.d. ekki viss um að stærra og fjölmennara umhverfi grunnskólans þjóni best hagsmunum þeirra og ég velti fyrir mér hvernig þessi nýi valkostur verði fyrir börnin. 

Hvernig verður þetta umhverfi í grunnskólanum? Verða jafn mörg börn pr. kennara og í leikskólanum? Verður undirbúningstími þessara kennara sá sami og í leikskólanum eða verður þessi skipulagsumgjörð með einhverjum öðrum hætti? Og ég spyr: Hver verður ávinningurinn? Ekki fyrir mig sem kennara og ekki fyrir starfsumhverfi skólastiganna (það gefur augaleið að fækki fimm ára börnum í leikskólum og yngri börnum fjölgar mun það kalla á fleiri stöðugildi inn í leikskólana, fyrir sama hausafjölda, út frá svokölluðum barngildisútreikningum og því myndi trúlega álag í leikskólastarfinu minnka ef eitthvað er) Nei, ég spyr: Hver verður ávinningurinn fyrir börnin? 

Rannsóknir Jóhönnu Einarsdóttur prófessors við Kennaraháskóla Íslands hafa leitt í ljós að leikskólabörn gera sér ekki grein fyrir því námi sem á sér stað í leikskólanum – og greinilega ekki heldur hópur margra foreldra ef eitthvað er að marka skrif fólks hér á blogginu. Börnunum finnst svo gaman í leikskólanum að þau vita ekki að þar fer fram mjög markvisst nám. Þau hafa hins vegar mjög skýra mynd af því að í grunnskólanum muni þau læra ýmislegt nytsamlegt s.s. að lesa og skrifa og að þar þurfi þau að sitja kyrr en megi leika sér í fímínútunum. 

Í ágúst s.l. sat ég mjög áhugaverða námsstefnu á vegum Samtaka áhugafólks um skólaþróun þar sem til umfjöllunar var útikennsla af margvíslegum toga. Vissulega var þar ýmislegt nýtt sem maður kynntist en þar voru líka kynnt til sögunnar, sem mikil nýjung og uppgötvun, kennslufræði og bein verkefni sem við í leikskólunum höfum iðkað um margra ára skeið. Þarna voru t.d. dæmi um verkefni sem unnin voru með börnum í 5. og 6. bekk en nákvæmlega sömu verkefni höfðum unnið með mörgum árgöngum 5 ára barna í leikskólanum. 

Við brostum bara í kampinn, leikskólakennararnir og sögðum fátt – og kannski liggur einmitt hundurinn þar grafinn – þ.e. í því hvað við höfum verið alltof ódugleg við að setja orð á það nám sem fer fram í leikskólanum. 

Ég hef verið að lesa hér á síðum um að í leikskólanum fari ekki fram lestrarnám – ég bara á ekki til orð. Þar sem ég þekki til hafa börnin 4 og 5 ára aðgang að bókstöfum sem leikefni. Við spilum bingó með bókstöfum. Hver á A? – hver á B? – og jafnvel: Hér er litla a – hver á stóra A? Þannig að börnin para saman lítinn bókstaf og stóran. 

Þau hafa aðgang að nöfnunum sínum á spjöldum til að taka fram og styðjast við á meðan þau eru að læra að skrifa nafnið sitt og þegar færnin eykst bætast við spjöld með einföldum orðum s.s. mamma, afi. 

Við vinnum með samsett orð, margræð orð, atkvæði í orðum og rím. Ég hef t.d. oftar en einu sinni unnið rímverkefni með börnunum þar sem við byrjuðum á einu orði t.d. mús sem við skrifuðum á miða og festum á stóran trékubb. Börnin finna svo orð sem ríma við og hvert orð er skráð niður og fest á kubb og smám saman verður til súla með mörgum kubbum af orðum sem ríma. Svo byrjum við næstu súlu á öðru orði t.d. hestur og þar verður til önnur súla. Það er frábært að fylgjast með börnunum í svona verkefni – áhuginn er geysilegur og allir hafa eitthvað til málanna að leggja. Svo kemur að því að þau ”uppgötva” að orð sem ríma enda á sömu bókstöfum og að það er jafnvel bara fyrsti bókstafurinn sem greinir þau að – og þá er svo gaman að prófa sjálfur – skrifa miða með nýjum upphafsstaf og sjá hvað kemur út. 

Nú og svo breytist verkefnið í stærðfræði. Hvað eru mörg orð í músa stæðunni – en þeirri sem byrjar á hestur? Hvort er meira? Hvað þarf mörg orð í viðbót til að þau séu jafnmörg o.s.frv – o.s.frv..... 

Börnin hafa ekki hugmynd um að þau eru að læra – við erum nefnilega bara að leika okkur!!!!! 

Kær frænka mín færði sig úr leikskólanum og fór að kenna fimm ára börnum í grunnskóla. Ég spurði hana hvað væri ólíkt. Svarið var: Ég er að gera nákvæmlega það sama og ég var að gera í leikskólanum með fimm ára börnunum þar. En hún hefur lengri undirbúningstíma og hún er ekki með þeim nema hálfan daginn en námið er það sama. 

Og því spyr ég: Hver er ávinningurinn - fyrir börnin???


Umhyggja

Eins og þið vitið flest er ég mjög upptekin af umhyggju í skólastarfi þessa dagana og hef verið að skoða það á hvern hátt hún getur hreinlega skipt sköpum.  Í  þessum vangaveltum hef ég sem foreldri m.a. horft til baka. til allra kennaranna sem strákarnir mínir þrír hafa haft í gegnum tíðina. Nú er Björn að ljúka grunnskólanum í vor og Gunnar hóf sína grunnskólagöngu 1989 svo grunnskólagangan spannar 19 ár og áður voru þeir allir í leikskólum.

Það er auðvitað mikill fjöldi kennara sem hefur komið að menntun drengjanna þennan tíma en það eru aðeins örfáir sem hafa skarað fram úr og virkilega skipt máli í þessu ferli. Ég hef velt því fyrir mér hvað það er sem þessir einstaklingar hafa átt sameiginlegt og komist að því að það er umhyggja. Raunveruleg umhyggja fyrir nemendum. Þessir kennarar létu sig varða hvernig  krökkunum leið  í skólanum, hvernig  einstaklingar þeir voru og hver persónueinkenni þeirra voru.  Þessir kennarar fundu sterkar hliðar í öllum  börnum og náðu að  leyfa þeim að njóta þeirra og þroska.  Ég er ekkert viss um að þessir kennarar hafi kunnað námsefnið betur en hinir en þeir báru virðingu fyrir nemendum sínum og fannst vænt um þá og þess vegna gekk þeim mun betur en öðrum að glæða skilning og áhuga hjá börnunum.

Já, umhyggja það er málið!  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband