Færsluflokkur: Ferðalög

11. september - Með rútu frá Wuhan til Yichang

Þess er fyrst að geta að það vakti athygli okkar á Holiday Inn hótelinu í Wuhan að allt starfsfólkið bar nafnspjöld með enskum heitum. Við ályktuðum auðvitað að það væri til að auðvelda okkur túristunum að nefna það með nafni. Æ, mér finnst það svolítið langt gengið í að þóknast kúnnanum. Hefði fundist mikið meira spennandi að sjá kínversku nöfnin – kannski þó ekki með kínversku letri því þá gæti maður auðvitað engan veginn vitað hvað þar stæði.

Einum munni fylgja tvær hendur
Og það er sannarlega nóg af starfsfólkinu alls staðar. Það hreinlega snýst í kringum okkur hvar sem við komum enda eru margir um störfin hér í þessu fjölmenni og þeir eru greinilega vinnusamir Kínverjarnir. Maó sagði líka að einum munni fylgdu tvær hendur. En þess er líka vel gætt af okkar manni, Bin, að við fáum viðhlítandi þjónustu. Ef hann verður þess var að kaffibolli tæmist eða að eitthvað vanti upp á þjónustuna hleypur hann til, hellir í bollana eða hóar í þjónustufólkið til að benda því á að eitthvað vanti.

Annars liggur leið leið okkar í dag frá Wuhan, um kínverskar sveitir, að Yichang við Yangtse-fljót, þar sem við munum í kvöld fara um borð í skipið sem verður næturstaður okkar næstu fjórar næturnar. Æ, ég hlakka til að slaka svolítið á. Fram til þessa hefur dagskráin verið ansi stíf og því verður gott að skipta svolítið um tempó. Þó hefði ég alls ekki viljað hafa síðustu daga öðruvísi – ó, nei – ég er nefnilega ekki komin hingað, alla þessa leið, til að liggja inni á hótelherbergi, ó nei, ó nei. Vil einmitt nýta tímann vel til að upplifa og sjá sem flest.

Wuhan er langt inni í landi en þó aðeins 40 metrum yfir sjávarmáli. Við keyrum um sveitir Hubei-héraðs. Hér er mikil hrísgrjónarækt en bændur ná tveimur hrísgrjónauppskerum á ári og geta auk þess nýtt akrana undir annars konar ræktun á haustin. Akrarnir gef því þrjár uppskerur á hverju ári. Bændurnir búa ekki á býlum með stórt land í kringum sig, eins og við þekkjum heldur búa þeir í þorpum og rækta svo skika einhvers staðar í nágrenninu.

Pissað í holu
Jæja, en nú er komið að pissustoppi. Viðkomustaðurinn er bensínstöð og að þessu sinni höfum við hinar vestrænu kvinnur ekkert val um salernisgerðina (en það er jafnan stóra spurningin á hverjum viðkomustað: Er klósett eða hola?). Hér er sem sagt bara hola og nú er að láta sig hafa það. Anna Maren tekur smá sýnikennslu fyrir myndavélina því auðvitað verður að eiga minningu um þennan merkisatburð. Mig hafði svo sem grunað að í svona langri rútuferð kæmi að því að maður yrði að brúka holuna og var því svo forsjál að klæðast pilsi þennan daginn. Sá það fyrir mér að geta átt í erfiðleikum með að forða niðurgirtum buxunum frá því að dragast eftir gólfinu og það er ekki laust við að samferðarkonurnar öfundi mig af klæðnaðinum. En hvort sem það var pilsinu að þakka eða einhverju öðru þá gekk þetta allt stórslysa laust. Minnti svolítið á að pissa úti í móa heima á Íslandi nema hvað hér þurfti að taka sér kirfilega stöðu og miða af vandvirkni auk þess sem ferska loftið og náttúruilmurinn er víðsfjarri (nema ef kalla má stæka hlandlyktina náttúruilm).

Eftir þetta sögulega pissustopp keyrum við áfram um sveitirnar og í gegnum litla bæi. Það er margt sem vekur athygli bæði í landslagi og mannlífi. Það er t.d. greinilegt hvers vegna talað er um vatnahéruð. Víða má sjá breiður af baðmull sem lögð hefur verið til þerris fyrir framan híbýli manna og ljóst er að fólkið hér býr ekki við sömu gæði og víða má sjá í borgunum.

Ómæld gestrisni
Við stoppuðum í einu þorpanna. Ætluðum að ganga þar aðeins um og líta í kringum okkur. Ég rak augun í að rétt við rútuna virtist vera einhvers konar verslun. Ég lagði leið mína þangað. Verslun er jú, staður þar sem vænta má að hver sem er sé velkominn og því auðveldara að snuðra þar svolítið heldur en við heimilin. Þegar ég kom að búðinni var ein samferðarkonan komin þar að, hefur sennilega hugsað á svipuðum nótum og ég, nema hvað húsráðendur, tvær fullorðnar konur, höfðu drifið hana inn og boðið henni sæti á lágum kolli rétt innan við gættina. Sjálfar húktu þær á eins kollum og unnu við að hreinsa baðmull . Það var eins og allt samferðafólkið hafi rambað í sömu átt því smám saman fjölgaði okkur þarna í gættinni og þessar fullorðnu, getstrisnu, brosmildu konur hlupu til, náðu í kolla og bekki til að allir gætu sest. Þær rifu jafnvel kollana undan sjálfum sér til að geta boðið öllum sæti. Og við stöldruðum við, ófær um að þakka fyrir okkur eða eiga einhver orðaskipti, fylgdumst með þeim vinna og gjóuðum augunum upp í hillurnar í þessari ótrúlegu búð. Já, maður leyfði sér ekki meira en að gjóa augunum á umhverfið því það var svo langt frá því sem gæti kallast verslun heima. Hér var einhver hræðileg ringulreið, öllu ægði saman en samt var þarna svo fátt að hafa og mér fannst að ef ég skoðaði þetta af gaumgæfni þá væri ég hreinlega dónaleg; gæti ekki dulið undrun mína og hugsanir um hvað allt var fátæklegt, óskipulagt og skítugt. Ég náði samt að taka nokkrar myndir og vonaði að þeim mislíkaði það ekki. Úff – þetta innlit orkaði mjög sterkt á mig.

Ullabjakk
Eftir smá stopp þarna röltum við um þorpið og niður að einu þessara fjölmörgu vatna. Þar á bakkanum var salernisaðstaða þorpsbúa – ÓMG – það bar með sér að vera ekki sérlega vistlegt. Ég gat ekki hugsað mér að líta þangað inn en hnippti í Svein og spurði hvort hann væri til í að taka mynd þangað inn. Jeminn, það sem þessi maður minn gerir ekki fyrir mig (Þegar ég sá svo myndirnar var ég ákaflega sátt við að hafa ekki álpast þangað inn – ullabjakk). Við forðuðum okkur aftur til baka, virtum fyrir okkur piparjurtir og breiður af fræhirslum sem okkur var sagt að geymi sesamfræ.

Í heimsókn
Við sáum svo að hluti hópsins var kominn inn í eitt húsanna og forvitnin rak okkur þangað. Þar hafði húsráðandinn boðið gestum að ganga í bæinn og skoða húsnæðið. Það var mjög snyrtilegt, en ekkert um sófa eða mjúk hægindi eins og við eigum að venjast. Þar var þó svefnherbergi með m.a. stóru hjónarúmi. Í miðju húsinu var svo eins konar flísalagt port eða garður og úr honum farið inn i aðrar vistarverur þar sem m.a. var að finna prívat salernisaðstöðu fyrir fjölskylduna. Mikið var ég fegin. Vonandi eru þá bara fáir sem búa við það að þurfa að nýta sér kamarinn við vatnið. Húsráðandinn þarna var hins vegar nokkuð vel stæður en hann stundar fiskeldi í vötnunum og gaf okkur nafnspjald þar sem fiskitegundirnar sem hann ræktar eru taldar upp. Við skiljum auðvitað ekkert sem þar stendur en Beta gaf honum á móti nafnspjald og sennilega hringir hann einn daginn ef hann vantar augnlæknaþjónustu, nú eða skemmtilegan kvennakór.

Kannski er sælla að gefa en þiggja
Eftir þessa skemmtilegu heimsókn fikruðum við okkur til baka í átt að rútunni og álpuðumst í leiðinni inn í búð sem var um margt lík hinni fyrri nema hvað hún var heldur stærri og þar var ekki verið að vinna baðmull.

Óreiðan virtist hins vegar hin sama. Mig langaði mikið að eiga einhver viðskipti við þetta gestrisna fólk. Fannst það einhvern veginn vera eina leiðin til að launa örlítið fyrir okkur. Ég fór því að rýna ofan í búðarborðið og rak þar augun í box með mörgum einskonar tréplötum eða tréhnöppum en á hverjum þeirra var kínverskt tákn. Ég hugsaði með mér að kannski gæti ég keypt einn svona tréhnapp til að eiga til minninga.

Ég skrafaði um þetta við Betu og benti ofan í borðið. Konan sem þarna var fyrir innan búðarborðið varð vör við áhuga minn og eftir einhver óskiljanleg orðaskipti dró hún allt boxið fram og stakk því ákveðin ofan í plastpoka. Ég jesúsaði mig í bak og fyrir, hafði ekki hugmynd um hvað þessi ósköp gætu kosta, hafði jú, bara ætlað að eiga smá viðskipti, vildi heldur ekki móðga hana með því að draga fram of litla upphæð. Fannst samt skrítið hvað konan otaði pokanum áköf að okkur Betu. Við streittumst við og náðum loks að kalla á Bin blessaðan sem kominn var fyrir utan búðina.

Við báðum hann að spyrja hvað þetta kostaði. Það kom þá í ljós að konan vildi að við ættum boxið. Allamalla, það kom ekki til greina, við vildum borga, en hvað mikið. Bin, skiptist á einhverjum orðum við konuna sem greinilega var treg að gefa upp verð. Að lokum gaf hún upp 5 yöan, við drógum í flýti fram þessa upphæð en Halló! Fimm yöan eru innan við 50 kr. Guð minn góður og við fórum út með allt boxið fyrir þessa aura!

Þegar við komum út í rútu og ég fór að skoða þetta betur kom í ljós að boxið var verðmerkt upp á 7 yöan, henni hefur fekki viljað selja okkur þetta á uppsettu verði. Það kom líka í ljós að auðvitað var ekki hægt að kaupa eitt stykki úr boxinu þar sem þetta er kínverskt tafl og hver tréplata er taflmaður, í botninum á boxinu, sem var afskorinn botn af plastbrúsa, var samanbrotinn plastdúkur sem gegnir hlutverki taflborðs. Vonandi hef ég einhvern tímann þolinmæði og burði til að læra þessa kínversku skák. Minna má það varla vera eftir ótrúlega gestrisni og gjafmildi þessa fólks sem hefur þó svo lítið.

Lyst og lystarleysi
Eftir þetta ótrúlega viðburðaríka stopp var haldið með okkur til hádegisverðar. Að þessu sinni var veitingastaðurinn í mjög fallegum garði sem m.a. skartaði fallegum bonsai-trjám. Mér fannst maturinn ágætur en Beta mín var alveg lystarlaus. Hún var svo sem ekki alveg ein um það að þessu sinni og hafði mannskapurinn á orði að maturinn hefði verið svo ljótur þ.e. grár og lítið lystugur á að líta.

Við þennan veitingastað lentum við svo í því að brúka holu í annað sinn og almáttugur minn ég hef sjaldan lent inn á hræðilegri vistarveru. Lyktin og óþrifnaðurinn var slíkur að ég kúgaðist og kúgaðist þegar ég hentist þaðan út, þakklát fyrir pilsið góða því annars hefði ég örugglega ekki gefið mér tíma til að hysja upp um mig svo mikið lá mér á að komast þaðan út.

2000 ára gamalt bros
Næst lá svo leið okkar í safn þar sem til sýnis var 2000 ára gamalt lík – frá því fyrir Krist. Líkið hefur varðveist ótrúlega vel og það var nánast eins og hann brosti framan í okkur undan glerinu þessi fornmaður. Honum fylgdu fjölmargir hlutir sem hafa ekki síður varðveist vel en eigandi þeirra. Í safninu var líka silki og útsaumur úr nokkuð yngri gröf, konu nokkurrar. Mannskapurinn hafði nú eitthvað mismikinn áhuga á að skoða þessar minjar, sérstaklega útsauminn og silkið sem fylgdu konunni, en ég er ákveðin í að skoða allt sem boðið er upp á í þessari ferð og finnst þetta eins og annað hafa verið þess virði. Mig grunar að þegar maður kemur heim og fer að vinna úr þessari ferð þá muni þetta allt skapa einhverja heildarmynd í kollinum á manni – eða ég vona það í það minnsta.

Mótmælendur á ferð?
Núna erum við stopp við einhverja skrifstofubyggingu þar sem bílstjórinn er að fá leyfi til að fara með okkur inn á virkjanasvæðið mikla við Yangtze-fljót. Hann skildi rútuna eftir nánast úti á götu og vegfarendur hér eru ekki allir paránægðir. Við höfum beðið hér nokkra stund en það síðasta sem við sáum af bílstjóranum var að hann vippaði sér aftan á mótorhjól hjá einhverjum manni hér og þeir brunuðu í burtu. Það er sennilega einhver skriffinnska og læti við að hleypa okur í gegn því eftir því sem okkur skilst er hann persónulega ábyrgur fyrir því hvers konar lið hann flytur inn á svæðið. Já, þeir hleypa sko ekki hverjum sem er inn á virkjanasvæðið, vilja sennilega forðast mótmælendur sem kannski myndu slá upp tjaldbúðum og vera með vesen eins og við höfum séð við Kárahnjúka. Ætli við reynum ekki að hemja okkur og vera prúð og stillt svona svo bílstjóraræfillinn verði ekki tekinn af...


Nokkrar glósur á langri rútuferð

Kínverjar eru nú 1,3 milljarðar og verða kannski 1,6 milljarðar um 2025.

Á Tan-tímabilinu, 609-1240 (víkingatíminn), þegar Mongólarnir taka yfir er staða Kína einna sterkust. Á þessum tíma var um helmingur heimsframleiðslunnar í Kína.

Gleggsta vitnið um það að kínversk menning hefur haldist um aldir er letrið. Uppruni menningarinnar var í gömlu höfuðborginni, Xian.

Í Kína var embættismannakerfi þar sem embættismennirnir voru valdir með prófi og því höfðu bæði ríkir og fátækir möguleika á að verða embættismenn.

Keisarinn hafði hins vegar umboð himinsins, hann varð að stjórna vel annars reiddust himinarnir, yfir gengu náttúruhamfarir og óánægja sem hafði kraumað undir í þjóðfélaginu komst uppá yfirborðið, keisaranum var ekki sætt lengur og skipta þurfti um keisaraætt.

Fyrstu keisarar hverrar ættar voru öflugastir en síðan vildu mál þróast til verri vegar. Þannig var málum háttað í yfir 2000 ára keisarasögu Kína og í raun má segja að kommúnistarnir séu ný keisaraætt – í það minnsta var Maó um margt líkur keisara. Fyrstu tíu árin eftir byltinguna var mikil uppbygging. Hlutur kvenna réttist t.d. töluvert og bannað var að reira fætur þeirra eins og tíðakast hafði um aldir; betlarar voru hreinsaðir af götunum; vændi var útrýmt en það hafði grasserað mjög og ópíumneysla var stöðvuð. Aðferðirnar við þessar framkvæmdir hafa þó sennilega ekki allar verið fallegar, fólki var t.d. sigað á landeigendur og þeir drepnir. Margir í efri stéttum misstu allt sitt. Þannig var t.d. um Sen fólkið heima á Fróni en Oddný Sen hefur skrifað sögu ömmu sinnar sem m.a. lýsir þessu.

Á árunum 1959-1961 létust ein milljón mana úr hugri vegna framkvæmda Maós. Stofnað var til samyrkju, stálframleiðsla var í öllum þorpum þar sem verkfærin voru brædd til framleiðslunnar. Það leiddi til þess að ræktunin skemmdist og fólkið svalt.

Menningar-byltingin 1966-1976 er tímabil í sögu Kína sem menn vilja helst gleyma. Kína átti að byrja á núlli og ótrúlegar menningarminjar voru eyðilagðar. Það sárasta er að þær voru ekki eyðilagaðar af erlendu innrásarliði heldur af þjóðinni sjálfri. Á þessum tíma var æðri skólum lokað og menntamenn voru settir út í sveit á akrana; í kolanámurnar eða í herinn og voru þar í tíu ár. Eftir að Maó andast 83 ára að aldir 1976 tók Deng Xiao Ping við. Hann hafði unniðá verkstæði úti í sveit eins og aðrir menntamenn í tíð Maós. Kína var þá með fátækustu þjóðum heims en honum tókst að lyfta 200 milljónum úr sárri fátækt.

Fleiri hörmungar hafa auðvitað gengið yfir Kínverja t.d. sýndu Japanir ótrúlega grimmd þeagar þeir réðust inn í Kína. Þeir drápu yfir 200 þúsund manns á nokkrum dögum og þyrmdu engum. Þeir gerðu tilraunir á fólki. Japanir hafa aldrei beðist almennilega fyrirgefningar og enn hefur ekki gróið alveg um heilt á milli þjóðanna.

Það er ótrúlegt að sitja hér í alsnægtum á leið í rútu og rifja upp þessa ótrúlegu sögu sem er svo nærri manni í tíma.


10. september frá Shanghai til Wuhan

IMG_4427Í dag tókum við daginn snemma, vöknuðum kl. 5 og vorum lögð af stað í rútunni kl. 7 enda á leið í flug sem mun bera okkur héðan frá Shanghai, “the prostitute of Asia” eins og Mao kallaði hana vegna vanþóknunar sinnar á vestrænum áhrifum og mikilli verslun hér. Bin hafði kennt okkur nokkur orð í kínversku og þegar ég kom í rútuna ákvað ég að slá svolítið um mig og bauð bílstjóranum góðan dag á kínversku. Alla malla – mannræfillinn hefur auðvitað haldið að ég talaði kínversku reiprennandi því það opnaðist hreinlega flóðgátt hjá blessuðum manninum sem hélt okkur ræðu um Shanghai-mállýsku – eða í það minnsta sagði Magnús að ræðan hefði fjalla um það. Sennilega er bara best að slá um sig með kínverskuna í lokuðum hópi Íslendinga sem hvort sem er geta engu svarað.

Þessi sami bílstjóri (sá með hvítu hanskana á myndinni - skrýtið, þeir keyrðu allir með svona hvíta hanska) hafði þegið morgunverð með hópnum og vakti þar athygli borðfélaganna fyrir ýmis búkhljóð á meðan hann mataðist en hann sötraði og smjattaði af mikilli innlifun. Magnús fræddi okkur um það þetta þættu góðir siðir hér, það væri kurteisi að láta í ljós ánægju með matinn með ýmsum hljóðum s.s. með því að smjatta, sötra, ropa og jafnvel reka við. U-humm, það er spurning hvernig manni tekst að aðlagast og tileinka sér þá menningarlegu hefð.

Í rútunni í Wuhan kl. 10:35

Flugferðin gekk vel og vélin var ágæt þótt Einari, 22 ára ferðafélaga og þeim yngsta í hópnum þætti þetta óttaleg rella. Skemmtilegur strákur sem lætur það ekki trufla sig að samferðafólkið gæti allt verið foreldrar hans eða afar og ömmur. Annars er hópurinn farinn að hristast örlítið saman og það var skemmtilegt að brjóta aðeins upp sætaskipan í fluginu en þá tékkaði Bin okkar, allan hópinn inn og eftirnöfn réðu sætaskipaninni. Fínt fyrirkomulag og gaman að spjalla við nýja sessunauta - þótt ég sé svo sem ekkert orðin leið á þeim Sveini, Betu og Gunnari.

Í fluginu, sem tók ekki nema einn og hálfan tíma, var boðið upp á drykki eins og gerist og gengur og síðan var kexpökkum útbýtt á línuna – hehe – frekar fyndið að fá nokkurs konar Frónpakka til að maula upp úr á leiðinni. Þeir eru ekkert að gera þetta flókið Kínverjarnir.

IMG_4439Við sitjum núna í rútunni nýkomin til Wuhan sem er í vatnahéruðunum í miðhluta Kína. Wuhan er í svokölluðu Hundrað vatna héraði eða – Hubei-héraði (veit ekki hvernig það er skrifað). Borgin skiptist í þrjá borgarhluta og er hótelið okkar staðsett í Han-co borgarhlutanum. Hér í Wuhan eru margir góðir háskólar og þar á meðal eru tveir af tíu bestu í öllu Kína enda er sagt að hér búi gáfaðasta fólkið. Fastir íbúar borgarinnar eru 7,6 milljónir en auk þeirra er hér mikill fjöldi nemenda og farandverkafólks. Úbbs, það væri sennilega auðvelt að láta sig hverfa hér fyrir fullt og allt í fjöldann ef maður skæri sig ekki svona augljóslega úr. Ekki er þó víst að maður myndi sætta sig við launakjörin sem hér tíðkast – myndi jafnvel ekki skipta á leikskólakennaralaununum – því hér þykir ekki slæmt að fá um 1000 yöan í mánaðarlaun en það er nokkuð undir 10.000 krónum.

Það vekur athygli okkar að nokkuð er um skreytta bíla á götunum og Magnús segir okkur að í dag sé 18. júlí samkvæmt tungldagatali og það sé sérlega góður dagur til giftinga. Ástæðan er að talan 9 er keisaraleg tala og sú staðreynd að 2x9 eru 18 gerir daginn ákjósanlegan.

IMG_4436Annars er umferðin hérna, eins og reyndar í Shanghai, hreint ótrúleg. Bílamergðin er í réttum hlutföllum við mannfjöldann og ég held að Sveinn hafi hitt naglann á höfuðið þega hann lýsti umferðarmenningunni þannig að þeir keyrðu eins og þeir væru enn allir á hjólum. Það er t.d. ekkert aðalatriði að halda sig við akreinar. Verði þrenging á akstursleiðinni þá hreinlega troðast þeir þangað til þeir rekast saman, hlið í hlið og allt situr fast. Við höfum þegar séð nokkra slíka árekstra og Magnús segir okkur þegar komi að því að gera upp tjónið þá sé það ævinlega sá sem er á dýrar og fínna farartækinu sem sé í rétti. Það er auðvitað mikið einfaldari regla en að taka tillit til flókinna umferðareglna – ekki satt?

IMG_4453Eftir stutt stopp á glæsilegu Holiday Inn hótelinu héldum við í alveg ágætan hádegisverð – ég er svei mér þá bara farin að kunna vel við kínamatinn og orðin býsna leikin með prjónana. Í þetta sinn voru réttirnir nokkuð framandi en sérlega góðir. Á borðum var m.a. lótusrót, steikt eggaldin og maískökur eða toppar með sætri sósu. Magnús segir okkur að maturinn muni verða meira og meira spennandi og bragðsterkari eftir því sem líður á ferðina – umm, ekki slæmt það.

 

IMG_4459Næst lá leið okkar í Gula trönuturninn. Á leiðinni þangað skoðuðum við mannlífið út um bílrúðurnar og meðal þess sem við sáum var hópur manna sem sat á götuhorni með pappaspjöld fyrir framan sig sem eitthvað hafði verið párað á, einn og einn var líka með einhver verkfæri. Magnús segir þetta vera iðnaðarmenn sem sitji þarna og bíði eftir verki að vinna. Svooolítið annað en ástandið hjá íslenskum iðnaðarmönnum!


IMG_4476Guli trönuturninn

Trönuturninn stendur á hæð við fyrstu brúna sem byggð var yfir Yangtse-fljót en við hann er tengd þjóðsaga um fátækan veitingamann sem veitti taoistapresti nokrum hrísgrjónavín í heilt ár án endurgjalds. Presturinn launaði velgjörðirnar með mynd af trönu sem síðan dansaði fyrir gesti kráarinnar og laðaði þannig að viðskiptavini. Við þetta jukust viðskiptin auðvitað til muna og veitingamaðurinn varð auðugur og naut mikillar velgengni. Turninn mun oft hafa verið brenndur og eyðilagður en alltaf endurreistur í upprunalegri mynd.


IMG_4482Hópurinn rölti auðvitað þessa leið upp að turninum sem var nokkuð á fótinn og hefur trúlega reynt svolítið á þá elstu í hópnum þó maður yrði ekki var við kvein eða kvartanir. Það var vel þess virði að rölta þennan spotta því turninn er mjög fallegur, og fellur vel að hugmyndum manns um klassíska kínverska byggingu. Fyrir framan turninn var svo heljarinnar stór bjalla sem áhugasamir gátu fengið að hringja ef þeir reiddu fram einhverja aura. Ekki var nú neinn sem nýtti sér það en hins vegar nýtti mannskapurinn sér það að fara upp í turninn til að njóta útsýnisins yfir borgina og skoða það sem turninn hafði að geyma – sem var t.d.ýmis spennandi varningur.

 

 

 

Dúfnamaðurinn

IMG_4443Eftir að hafa skoðað trönuturninn lá leið okkar á hótelið. Við Sveinn tylltum okkur við hótelgluggann, sötruðum bjór úr dós og horfðum yfir íbúðabyggð þar sem húsin eru einar sex, sjö hæðir en þó töluvert fyrir neðan okkur. Þetta eru hræðilega hrörleg hús og fyrr í dag tókum við eftir því að á efstu hæð í einu þeirra eru rimlar þar sem dúfur flugu inn og út. Núna virtust dúfurnar allar vera úti og fljúga hring eftir hring yfir húsinu. Uppi á þakinu sat hins vegar maður sem fylgdist með þeim og okkur þótti ljóst að þær væru á hans vegum og að hann væri að viðra þær.

Eftir að hafa fylgst með þessu stutta stund – og klárað úr dósunum – skruppum við út í stórt verslunarhús hér úti á horni þar sem við keyptum eitthvert lítilræði til að færa strákunum þegar heim kemur. Verðlagið er alveg ótrúlegt! Sem dæmi má nefna að ágætir stuttermabolir kosta 45-55 yöan eða um 400-500 kr. íslenskar. Eftir að hafa aðeins nýtt sér þessi kostakjör lá leið okkar í matvörudeildina til að ná í eitthvað svolítið af vatni og bjór því slíkt mun vera í dýrari kantinum um borðí skipinu sem við munum dvelja á næstu daga (við komumst nú að því í lok siglingarinnar að þetta var hálfgerður molbúaháttur og algjör óþarfi að vera að hala þetta með sér um borð því þó drykkirnir hafi kannski verið örlítið dýrari en hér þá munaði það nú ekki því).

Á leið okkar á milli hæða í vöruhúsinu var ég fyrir alveg nýrri og hollri reynslu. Ég stóð í rúllustiganum á leið niður og fyrir framan mig stóð gömul kona og drengur – sennilega barnabarn hennar. Þau eru eitthvað að ræða saman og síðan er henni litið aðeins aftur fyrir sig – á mig. Aumingja konan varð greinilega skelkuð við að standa svona nærri þessari hvítu jussu og hreinlega hörfaði neðar í stigann til að forða sér. Mig langaði auðvitað til að segja henni að ég væri nú ósköp góð og venjuleg kella ofan frá Íslandi en ...

Já, því skyldi maður halda að við séum öðrum kynstofnum ekki jafn (eða meira) framandi en þeir okkur.

Eftir verslunarleiðangurinn höfðum við smá stund áður en haldið yrði í kvöldverðinn og við byrjuðum auðvitað á því að huga að dúfnamanninum okkar (í gegnum kíkinn –uss, við erum hálfgerðir gluggagægjar – en ææ, þetta er eitthvað svo aumkunnarvert – nú sat hann, sennilega á einhverjum beddaræfli, fyrir innan rimlana, berleggjaður á hvítum slopp innan um dúfurnar sínar og lætur vel að þeim. Guð minn góður, það hálf þyrmir yfir mann. Ég vona að hann sé ekki sá einstæðingur sem hann virðist vera – vona að hann eigi einhvers staðar fjölskyldu og vini – kannski er hann einn af farandverkamönnunum sem dvelja í borginni. Allavega veður eitthvað svo augljóst hvað maður sjálfur hefur það gott – eiginlega óhugnanlega gott.

Klukkan hálf sjö hittist hópurinn í andyrinu til að fara í kvöldmatinn sem var ágætur – en þó ósköp líkur síðustu kvöld- og hádegisverðum :)

Í kvöld gekk svo hluti hópsins ásamt Magnúsi fararstjóra í göngugötuna hér í bæ. Þar var mannhaf og ósköp gott að vera ekki einn á ferð. Sérstaklega var traust af hópnum þegar við smokruðum okkur í gegnum markað sem var í einni af þröngu hliðargötunum. Úff, þar var hreinlega stappa – maður við mann og við útlendingarnir stungum ansi mikið í stúf og áttum einhvern veginn ekki alveg heima þarna.

Þegar heim á Holiday Inn hotelið var komið fórum við aðeins á netið en því miður var enginn póstur frá strákunum. Ég treysti því að engar fréttir séu góðar fréttir og að þeir séu bara að njóta þess að vera saman án okkar gamla settsins.

IMG_4448Jæja, núna er klukkan orðin hálf ellefu og dagurinn orðinn ansi langur. Það er því tímabært að halla sér. Rúmin eru reyndar ansi hörð þó allt annað hér sé hreinn lúxus – en vonandi sofum við vært þessa einu nótt sem við dveljum hér svo við verðum vel upplögð á morgun í langri rútuferð – næsti næturstaður verður svo skipið sem við munum sigla með upp Yangtse-fljót.


9. september í Shanghai


Í dag eru 30 ár síðan Mao formaður dó.

IMG_4348Í morgun rigndi og mannskapurinn dró upp regnhlífar. Við byrjuðum á að heimsækja Búddahof sem geymir marga fallega merkilega hluti en er sérstakt fyrir tvær búddastyttur úr hvítum jade, sem er mjög sjaldgæfur. Hofið hefur verið í þessari byggingu frá 1918 en þá voru stytturnar tvær fluttar þangað. Þær áttu reyndar að fara eitthvert annað en vegna stíðsástands var ekki hægt að koma þeim á áfangastað og þær höfnuðu hér.

Það var ansi fjölmennt í hofinu – eins og reyndar alls staðar hér – og við urðum vitni að ótrúlegu umburðarlyndi Kínverjanna sem iðkuðu bænir sínar innan um kallandi fararstjóra og háværa túristana sem bókstaflega klofuðu yfir þá þar sem þeir lágu á bæn í þrengslunum.

Ekki mátti mynda hvítu jadestytturnar tvær en eitt og annað merkilegt náðist þó á mynd. Þarna voru t.d. hreint ótrúleg útskorin listaverk sem bera handbragðinu hérna glöggt vitni. Ég féll svo auðvitað kylliflöt fyrir stórum búttuðum og sætum búdda sem hefði sómt sér vel á arninum heima en varð, vegna fyrirferðar sinnar og þyngdar, að sitja eftir í hofinu.

IMG_4351Magnús fræddi okkur auðvitað um það helsta í trúarbrögðunum og ljóst er að höfuðáttirnar fjórar skipta þar miklu máli enda voru í hofinu fjórir miklfenglegir kappar sem hver um sig varði eina höfuðáttina – kannski svolíðið líkt landvættunum okkar. Til að fara inn í vistarverur þurfti að klofa yfir háan þröskuld sem þjónar þeim tilgangi að halda draugum frá – því eins og allir vita komast draugar ekki yfir þröskulda!! Sama hlutverki þjóna hlykkjóttir gangar því draugar komast víst heldur ekki nema beint áfram. Þetta er auðvitað vitneskja sem allir þurfa að þekkja.

IMG_4375

 

 

Næst fórum við svo í silkiverksmiðju og sáum þessa ótrúlegu framleiðslu úr púpu silkiormsins. Eftir að hafa fylgst með handbragðinu við að ná fram silkiþráðinum lá auðvitað leiðin í verslun verksmiðjunnar. Þar mátti t.d. kaupa ekta silkirúmföt á um 12.000 kr. parið. Þau voru auðvitað freistandi en mig hefði þó enn frekar langað í silkisæng sem stúlkurnar voru að búa til þarna inni og var hreint dásamleg. IMG_4378Ég stóst þó þessar freistingar en keypti mér silkislopp sem ljúft verður að sveipa um sig á letimorgnum heima og einnig jakka úr svörtu hrásilki. Sloppurinn kostaði 580 yöan sem eru innan við 5800 kr. og jakkinn 500 yöan. Annars voru fæstar flíkurnar þarna hentugar fyrir mína íslensku búkonuhandleggi.

 

 

Í hádeginu var farið á matsölustað og sest að hinum kínverska mat sem verður eini kosturinn í þessari ferð. Úff, satt að segja hálf bauð mér allt í einu við þessum kínversku réttum og veit ekki hvernig verður að borða þetta í tvær vikur.

IMG_4404Eftir snæðinginn var ferðinni heitið í Mandarin Yu, sem er eini hefðbundni kínverski garðurinn í Shanghai frá Ming tímanum. Garðurinn hafði verið í eigu eins af embættismönnum keisarans. Embættimaðurinn dvaldi auðvitað langdvölum fjarri fjölskyldunni en lét útbúa þennan fallega garð svo fjölskyldan gæti notið þar náttúrunnar innan veggjanna sem umluktu hann. Garðurinn var sannarlega fallegur, með fallegum gróðri, sjaldgæfu bergi og gullfiskatjörnum. Ekki hefur þó alveg ríkt jafnræði með fjölskyldumeðlimum innan hans því þar voru sérstakir yfirbyggðir gangar, einn fyrir karla (með fögru útsýni) og annar baka til fyrir konurnar.

 

IMG_4417Þegar út úr garðinum kom fengum við að kíkja svolítið á kínverskan varning í verslunargötum þarna í nágrenninu og héldum síðan í stóru verslunargötuna Nanjing eða Pepsi Cola street eins og Kínverjarnir kalla hana vegna allra auglýsingaskiltanna. Ekki var nú gefinn langur tími í þessari stóru verslunargötu og við sáum það að ómögulegt væri að ætla sér eitthvert búðarráp svo við röltum þarna um ásamt Betu og Gunnari, aðallega til að horfa á fjölskrúðugt mannlífið og gjóa augunum í einstaka búðarglugga. IMG_4421Við stungum auðvitað í stúf þarna eins og annars staðar og vöktum greinilega athygli, enda augljóslega túristar á ferð. Þegar við vorum að fikra okkur til baka í átt að rútunni tókum við eftir ungum manni sem fylgdi okkur eftir og hafði augljóslega áhuga á myndavélinni sem hékk um hálsinn á Sveini. Ég veit ekki hvort hann sá að við höfðum orðið hans vör en hann gaf sig á tal við okkur til að vita hvaðan við værum – voða hress og kammó. Síðan tók hann upp símann og hringdi eitthvert. Stuttu seinna sáum við að annar var farinn að fylgja okkur eftir og þá leist okkur ekki alveg á blikuna og færðum okkur inn á mitt strætið – en áður höfðum við haldið okkur í skugganum af húsunum. Það var eins og við manninn mælt að þá hætti piltur að fylgja okkur en tók upp símann, sennilega til að tilkynna að fengurinn væri runnin þeim úr greipum. Já, það er eins gott að vera svolítið vakandi og var um sig.

Eftir þennan örverslunartúr var haldið upp á hótel þar sem hópurinn náði örlitlu stoppi – rétt fyrir sturtu og fataskipti áður en haldið var eina ferðina enn á matsölustað (svei mér þá maður er alltaf að borða hérna) en nú var maturinn þó mun betri og lystugri en í hádeginu.

MOV07391Kvöldinu lauk svo með því að við fórum á akróbat-sýningu í leikhúsi hér í borg þar sem sjá mátti mörg hreint ótrúleg atriði. Toppurinn var þó lokaatriðið þar sem fimm menn þeystust um á mótorhjólum innan í járnkúlu á sviðinu. Skrambinn, manni varð hálf illt því það var svo augljóst að hver minnstu mistök myndu kosta stórslys. Hreint ótrúlegt atriði!!

 

 

 

 

 

Að lokum listi yfir kínverskulærdóm dagsins skráð samviskusamlega eftir framburði:

Dá chang há = Góðan daginn

Cé cé = takk

í – a – can - ci – ú – leó – cúí – ba – tjó – cu = 1 –2 – 3 – 4 – 5 – 6 – 7 – 8 – 9 - 10

8. september kl. 22.10 á Shanghai hóteli:

Skrýtið að hér sé komið kvöld og við skriðin uppí en kl. bara 14.10 heima. Mér finnst hálf óþægilegt að vera svona á öðru tímaplani en strákarnir.

Annars hefur þessi fyrsti dagur á kínverskri grund verið góður. Ég svaf reyndar allt of lítið í vélinni og er því orðin ansi lúin núna. En allt gekk samt ferðalagið vel og fyrsta reynsla gefur vísbendingar um að allt skipulag sé til fyrirmyndar. Rútur mættar á réttum tíma og allt slíkt. Það vantar heldur ekki mannskapinn til að passa upp á okkur því hér tók á móti okkur kínverskur fararstjóri, Bin Wang, sem kemur til með að fylgja okkur alla ferðina en auk hans verður með okkur staðarfararstjóri á hverjum stað. Einn slíkur tók á móti okkur og var með okkur fyrri hluta dagsins. Hann mun áður hafa verið þeim félögum Magnúsi og Bin innan handar en tilkynnti okkur það að hann gæti ekki verið með okkur á morgun þar sem hann þyrfti að fylgja dóttur sinni í skólann þar sem þá væri fyrsti dagurinn hennar í háskólanum. Það var ekki laust við að mörlandinn glotti úti í annað við þessar fréttir enda venjan öll önnur heima á Fróni þar sem börnin valsa sjálf í skólann frá sex ára aldri. En hinn kínverski faðir brosti stolltur út í bæði og skildi örugglega brosviprurnar okkar svo að við samgleddumst honum innilega – sem við svo sem gerðum auðvitað.

En hvað um það. Fyrstu kynni af Kína gefa fyrirheit um margvíslega upplifun næstu dagana. Við byrjuðum á að ferðst með hraðlest frá flugvellinum inn í borgina. Það var ekki laust við að aðeins færi um mann þegar hraðamælirinn í farþegavagninum sýndi 431 km – úff maður verður bara að vona að þeir kunni til verka blessaðir þegar þeir ganga frá svona farartæki. Allavega komumst við heilu og höldnu alla leið.

IMG_4321Þar sem töskurnar okkar ferðuðust með mun hægfarnara farartæki inn til borgarinnar en við sjálf, höfðum við aðeins örstutta viðkomu á Shanghai hóteli. Við Sveinn gáfum okkur þó örlítinn tíma til að fylgjast með verkamönnum hátt uppi í stillönsum aftan við hótelið þar sem þeir unnu vinnuna sína á tágamottum sem lagðar höfðu verið yfir tvo búkka. Úpps, ekki víst að vinnueftirlitið heima myndi samþykkja þessa vinnuaðstöðu. En okkur var ekki til setunnar boðið að þessu sinni og héldum því út til að fá fyrstu upplifun af hinu kínverska þjóðfélagi.

 

IMG_4337Mannhafið er ótrúlegt, uppbyggingin nánast óhugnanleg og andstæðurnar blasa alls staðar við. Gömul fátækleg hverfi þar sem íbúarnir deila saman kamri á einhverju götuhorninu kallast á við blokkarhverfi, glæsileg háhýsi og glæsihótel. Heilu hverfin eru rifin niður og fólkið flutt í blokkir sem hver gæti rúmað alla Grafarvogsbúa án teljandi vandræða.

Við héldum niður að á sem rennur í gegnum Shanghai. Ekki get ég nú með nokkru móti munað hvað þessi á heitir en hún mun vera síðasta þverá Yangtse-fljóts sem við munum sigla á eftir nokkra daga. Við ána var mikill mannfjöldi en þarna mun vera vinsælt að koma við og rölta meðfram ánni. Sölufólkið þyrptist auðvitað eins og mý á mykjuskán utan um okkur, um leið og við stigum fæti út úr rútunni, bjóðandi forláta „Lolex” og „shjú–shjú”. Lolex stendur auðvitað fyrir Rolex og það rifjaðist upp frá íslenskunáminu að Kínverjar gera ekki greinarmun á hljóðunum L og R. Shjú-shjú voru hins vegar eins konar hjólaskautar, tvo hjól sem fest eru við hælinn á skónum manns. Við féllum nú hvorki fyrir Lolex né sjú-sjú, enda fælir svona ágengni mig nú frá viðskiptum frekar en hitt.

Það vakti hins vegar athygli mína að margir nöguðu maísstöngla sem þarna voru seldir eins og hver annar skyndibiti auk þess sem kaupa mátti tálgaðar kókoshnetur með röri. Pizzur og pylsur með öllu, voru hins vegar víðsfjarri enda ekki að sjá að kínverjarnir ættu í baráttu við aukakílóin eins og við þessir framandi gestir.

IMG_4326Fyrir utan það að mannlífið vakti mestan áhuga minn var gaman að sjá ótrúlegar byggingarnar handan við ána. Þarna mátti sjá skýjakljúfa, turna og margvíslegar byggingar en þarna hafa Kínverjarnir fengið arkitekta víðsvegar að úr heiminum til að láta ljós sitt skína.

Eftir þessa skoðunarferð var haldið aftur upp á hótel og eftir sturtu og smá “shæningu” var haldið á kínverskan matsölustað. Við fengum úrvals góðan mat og tókumst í fyrsta skipti á við matprjónana sem ég er ákveðin í að nota alla ferðina. Ég sleppti reyndar öllu því sterkasta við þetta borðhald þar sem “smugan” er enn að hrella mig.

Eftir kvöldmatinn var síðan keyrt um borgina og Shanghai skoðuð, nú skrýdd kvöldljósunum sem voru satt að segja mikilfengleg. Við fórum m.a. upp í fjórðu hæstu byggingu heims, sem Magnús kallaði hús verslunarinnar en heitir Jinmao tower (Háhýsið rétt hægra megin við Svein á myndinni hér að ofan). Við fórum upp á 88. hæð og horfðum yfir ljósin í borginni og ég sendi kort til Reynisholts sem spennandi verður að sjá hvort kemst alla leið.

Í þessari skoðunarferð kom í ljós að okkar verður gætt eins og kornabarna í þessari ferð. Við þurftum auðvitað ekki að standa sjálf í því að kaupa okkur miða inn í háhýsið, heldur sáu fararstjórarnir um það. Þeir fylgdust síðan vel með okkur og töldu okkur eins og fé í rétt til að tryggja að enginn yrði nú eftir einhvers staðar. Til að byrja með var ég alveg við það að verða svolítið stressuð með þeim og reyndi að hafa yfirsýn yfir það hvort allir væru nú ekki á sínum stað en ákvað síðan að það væri hreinlega ekki í mínum verkahring hér, heldur eingöngu það að hlýða þeim fyrirmælum sem þessir mætu menn gæfu okkur og vera sjálf á réttum tað á réttum tíma. Sem sagt fyrirmyndar túristi í lúxus fríi.

Á morgun er spennandi dagur framundan hér í borginni - en NÚNA bíður svefninn á þessu harða rúmi – iss það gerir ekkert til – ég svæfi á hverju sem er eftir þetta laaaanga ferðalag.

ZZZZZzzzzzzz

Kínaferð haustið 2006

Það var og....

Auðvitað fer það svo: Einu sinni bloggari alltaf bloggari.

Ég er því að hugsa um að taka upp fyrri iðju, nú í nýju umhverfi og birta ykkur til að byrja með  dagbókina mína frá Kínaferðinni góðu s.l. haust. Ég vona að hún gefi ykkur aðeins innsýn í það ævintýri sem þessi ferð var mér. Dagbókin var auðvitað páruð í rútum og á hótelherbergjum og ber þess merki en það er ágætt að færa hana inn í tölvuna í smá skömmtum næstu daga og leyfa ykkur um leið að upplifa þessa ævintýraför aðeins með mér.

DSC07266Til að setja ykkur aðeins inn í málin þá fórum við hjónin með Bændaferðum og fararstjóri var Magnús Björnsson. Við lögðum upp í þessa ferð með henni Betu minni og Gunnari en í hópnum voru líka Óli, tvíburabróðir Gunnars, ásamt Ingibjörgu konunni sinni og systir þeirra Anna Maren ásamt Jónasi, sínum manni. Hópurinn taldi annars alls 25 manns, mest hjón.

 

 

 

 

Svo hér leggjum við í hann og byrjum heima á Fróni kvöldið fyrir brottför:

6. september 2006  - Heima á Fróni

Nú er ég lögst upp í rúm klukkan hálf tíu. Ætla að reyna að koma mér í svefn snemma enda hefst hún á morgun, þessi ferð sem hefur sveiflast eins og gulrót fyrir framan nefið á mér í marga, marga mánuði.

Ótrúlegt!

Og þegar loksins er komið að einhverju svona sem maður hefur beðið eftir í langan tíma þá er eins og tilhlökkunin víki fyrir spennu og örlitlum kvíðahnút. Helstu áhyggjurnar eru af því að skilja strákana svona eftir og líka því að verða svona hræðilega langt frá þeim. Verð að viðurkenna að móðurhjartað finnur fyrir samviskubiti – sérstaklega vegna Björns.

Það er líka skolli óþægilegt að vera að leggja af stað eftir að hafa verið með þessa skollans magapest síðasta sólarhringinn. Ældi eins og múkki s.l. nótt og er með algera "steinsmugu" í dag. Veit ekki hvernig mér gengur að byrja að borða í framandi umhverfi en treysti á að þetta fari allt vel.

7. september 2006 - Um borð á leið til Frankfurt:

Jæja, þá er maginn örlítið skárri og ég farin að borða svolítið. Hér er full vél af Þjóðverjum og mikið sofið um borð. Viðvorum svo heppin að fá sæti við neyðarútgang og það er mikil stúdía að fylgjast með klósetttraffíkinni sem á leið framhjá J Skolli löng röð og flugfreyjan stelst til að kippa einum og einum fram á Saga Class pisserýið með þeim orðum að þetta megi nú auðvitað alls ekki – en gerir það samt blessunin og margar þvagblöðrur þakka henni í hljóði.

Skrifað um borð í breiðþotu þegar flugið frá Frankfurt til Shanghai er u.þ.b. hálfnað - klukkan er u.þ.b. 6 að kínverskum tíma - best að fara að stilla skrokkinn inn á það:

Ég get ekki sofið en flestir um borð sofa værum svefni og ein og ein hrota sker loftið. Freyjurnar eru auðvitað kínverskar og labba mjörg reglulega um, huga að farþegum, bjóða vatn og eru duglegar að þrífa reglulega klósettin – Ekki veitir af. Það vekur athygli mína að flugþjónarnir sinna öllu til jafns við þær nema að þeir sinna ekki klósettþrifunum – hmmm – það þarf sennilega kvenlega eiginleika og innsæi til að sinna því vel !

IMG_4291Við stoppuðum nokkrar stundir í Frankfurt.
Þar tók á móti okkur Þjóðverji (sem ég missti algerlega af hvað heitir) en hann talaði mjög góða íslensku - hafði búið heima um alllangt skeið. Það var auðvitað sest niður og þeir sem höfðu hrausta maga svolgruðu í sig þýska bjórinn á meðan svona pestargemsar eins og ég létu vatnsglas nægja.


IMG_4298Sá þýsk-íslenski sýndi okkur svo borgina sem kom mjög skemmtilega á óvart. Sérlega fallegur miðbær og ég gæti alveg hugsað mér að skoða þessa borg, já og Þýskaland yfirleitt, betur seinna.



Annars eru mörg skondin atvik sem maður sér í svona flugferðum, sitjandi á rassinum klukkustundum saman. Sennilega verða þó fá eftirminnilegri en það sem varð í fluginu til Frankfurt, þegar ein þýsk stútungskelling sleppti sér af frekju við samferðakonu okkar og nöfnu mína rétt fyrir lendingu í Frankfurt. Eftir að kveikt hafði verið á sætisólaljósunum varð nokkur röð fyrir framan títtnefnd salerni (ji, þessi ferð ætlar að verða mikil klósettstúdía) og var sú þýska öftust en nafna mín þar fyrir framan. Loks kom röðin að Ingibjörgu en á meðan hún var inn fékk sú þýska stresskast. Hún lamdi hnefunum á klósetthurðina og útúr henni bunuðu þýsk fúkyrði (sem ekki þurfti nokkra tungumálakunnáttu til að skilja) og þegar Ingibjörg loks opnaði örlitla rifu og gægðist fram – eitt spurningarmerki í framan – rykkti sú þýska í handlegginn á henni og hreinlega slengdi henni fram á gólfið. Ég get svarið ykkur að ég hef hreinlega aldrei orðið vitni að annarri eins frekju í fullorðinni manneskju. Við frænkur ósköpuðumst auðvitað hátt og snjallt yfir þessu framferði á okkar ástkæra ylhýra og treystum á að ekki þyrfti heldur tungumálakunnáttu til að skilja að okkur blöskraði algjörlega. Sú þýska kom svo sallaróleg út eftir að hafa lokið sér af og skröllti í sætið sitt en eftir sat maður og velti fyrir sér hvort þarna hefði orðið einhver menningarlegur árekstur eða hvort samlöndum þeirrar þýsku blöskraði líka.

Annað undarlegt atvik á sér stað á þessari stundu því þegar þetta er skrifað hefur einn ferðafélaginn - fullorðin kona - lagt undir sig sæti Magnúsar fararstjóra (ásamt sínu eigin auðvitað) í vel á annan tíma. Hún sefur með lappirnar uppi í sætinu hans og hann gengur bara um gólf vélarinnar á meðan. Skollinn hvað mér finnst svona uppákomur óþægilegar. Trúlega hefur hún nú bara ætlað að nýta hægindin rétt á meðan hann brá sér frá en sofnað svona værum svefni að hún hefur ekki rumskað allan þennan tíma. Enda verður það að segjast að allur afturparturinn er farinn að kvarta sáran yfir þessari endalausu setu - úff.

Úpps.. nú slökkti einhver lesljósið sitt og týran sem ég hef párað þetta við hvarf svo ég sé ekkert hvað ég er að gera - svo yfir og út í bili.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband