Kínaferð haustið 2006

Það var og....

Auðvitað fer það svo: Einu sinni bloggari alltaf bloggari.

Ég er því að hugsa um að taka upp fyrri iðju, nú í nýju umhverfi og birta ykkur til að byrja með  dagbókina mína frá Kínaferðinni góðu s.l. haust. Ég vona að hún gefi ykkur aðeins innsýn í það ævintýri sem þessi ferð var mér. Dagbókin var auðvitað páruð í rútum og á hótelherbergjum og ber þess merki en það er ágætt að færa hana inn í tölvuna í smá skömmtum næstu daga og leyfa ykkur um leið að upplifa þessa ævintýraför aðeins með mér.

DSC07266Til að setja ykkur aðeins inn í málin þá fórum við hjónin með Bændaferðum og fararstjóri var Magnús Björnsson. Við lögðum upp í þessa ferð með henni Betu minni og Gunnari en í hópnum voru líka Óli, tvíburabróðir Gunnars, ásamt Ingibjörgu konunni sinni og systir þeirra Anna Maren ásamt Jónasi, sínum manni. Hópurinn taldi annars alls 25 manns, mest hjón.

 

 

 

 

Svo hér leggjum við í hann og byrjum heima á Fróni kvöldið fyrir brottför:

6. september 2006  - Heima á Fróni

Nú er ég lögst upp í rúm klukkan hálf tíu. Ætla að reyna að koma mér í svefn snemma enda hefst hún á morgun, þessi ferð sem hefur sveiflast eins og gulrót fyrir framan nefið á mér í marga, marga mánuði.

Ótrúlegt!

Og þegar loksins er komið að einhverju svona sem maður hefur beðið eftir í langan tíma þá er eins og tilhlökkunin víki fyrir spennu og örlitlum kvíðahnút. Helstu áhyggjurnar eru af því að skilja strákana svona eftir og líka því að verða svona hræðilega langt frá þeim. Verð að viðurkenna að móðurhjartað finnur fyrir samviskubiti – sérstaklega vegna Björns.

Það er líka skolli óþægilegt að vera að leggja af stað eftir að hafa verið með þessa skollans magapest síðasta sólarhringinn. Ældi eins og múkki s.l. nótt og er með algera "steinsmugu" í dag. Veit ekki hvernig mér gengur að byrja að borða í framandi umhverfi en treysti á að þetta fari allt vel.

7. september 2006 - Um borð á leið til Frankfurt:

Jæja, þá er maginn örlítið skárri og ég farin að borða svolítið. Hér er full vél af Þjóðverjum og mikið sofið um borð. Viðvorum svo heppin að fá sæti við neyðarútgang og það er mikil stúdía að fylgjast með klósetttraffíkinni sem á leið framhjá J Skolli löng röð og flugfreyjan stelst til að kippa einum og einum fram á Saga Class pisserýið með þeim orðum að þetta megi nú auðvitað alls ekki – en gerir það samt blessunin og margar þvagblöðrur þakka henni í hljóði.

Skrifað um borð í breiðþotu þegar flugið frá Frankfurt til Shanghai er u.þ.b. hálfnað - klukkan er u.þ.b. 6 að kínverskum tíma - best að fara að stilla skrokkinn inn á það:

Ég get ekki sofið en flestir um borð sofa værum svefni og ein og ein hrota sker loftið. Freyjurnar eru auðvitað kínverskar og labba mjörg reglulega um, huga að farþegum, bjóða vatn og eru duglegar að þrífa reglulega klósettin – Ekki veitir af. Það vekur athygli mína að flugþjónarnir sinna öllu til jafns við þær nema að þeir sinna ekki klósettþrifunum – hmmm – það þarf sennilega kvenlega eiginleika og innsæi til að sinna því vel !

IMG_4291Við stoppuðum nokkrar stundir í Frankfurt.
Þar tók á móti okkur Þjóðverji (sem ég missti algerlega af hvað heitir) en hann talaði mjög góða íslensku - hafði búið heima um alllangt skeið. Það var auðvitað sest niður og þeir sem höfðu hrausta maga svolgruðu í sig þýska bjórinn á meðan svona pestargemsar eins og ég létu vatnsglas nægja.


IMG_4298Sá þýsk-íslenski sýndi okkur svo borgina sem kom mjög skemmtilega á óvart. Sérlega fallegur miðbær og ég gæti alveg hugsað mér að skoða þessa borg, já og Þýskaland yfirleitt, betur seinna.



Annars eru mörg skondin atvik sem maður sér í svona flugferðum, sitjandi á rassinum klukkustundum saman. Sennilega verða þó fá eftirminnilegri en það sem varð í fluginu til Frankfurt, þegar ein þýsk stútungskelling sleppti sér af frekju við samferðakonu okkar og nöfnu mína rétt fyrir lendingu í Frankfurt. Eftir að kveikt hafði verið á sætisólaljósunum varð nokkur röð fyrir framan títtnefnd salerni (ji, þessi ferð ætlar að verða mikil klósettstúdía) og var sú þýska öftust en nafna mín þar fyrir framan. Loks kom röðin að Ingibjörgu en á meðan hún var inn fékk sú þýska stresskast. Hún lamdi hnefunum á klósetthurðina og útúr henni bunuðu þýsk fúkyrði (sem ekki þurfti nokkra tungumálakunnáttu til að skilja) og þegar Ingibjörg loks opnaði örlitla rifu og gægðist fram – eitt spurningarmerki í framan – rykkti sú þýska í handlegginn á henni og hreinlega slengdi henni fram á gólfið. Ég get svarið ykkur að ég hef hreinlega aldrei orðið vitni að annarri eins frekju í fullorðinni manneskju. Við frænkur ósköpuðumst auðvitað hátt og snjallt yfir þessu framferði á okkar ástkæra ylhýra og treystum á að ekki þyrfti heldur tungumálakunnáttu til að skilja að okkur blöskraði algjörlega. Sú þýska kom svo sallaróleg út eftir að hafa lokið sér af og skröllti í sætið sitt en eftir sat maður og velti fyrir sér hvort þarna hefði orðið einhver menningarlegur árekstur eða hvort samlöndum þeirrar þýsku blöskraði líka.

Annað undarlegt atvik á sér stað á þessari stundu því þegar þetta er skrifað hefur einn ferðafélaginn - fullorðin kona - lagt undir sig sæti Magnúsar fararstjóra (ásamt sínu eigin auðvitað) í vel á annan tíma. Hún sefur með lappirnar uppi í sætinu hans og hann gengur bara um gólf vélarinnar á meðan. Skollinn hvað mér finnst svona uppákomur óþægilegar. Trúlega hefur hún nú bara ætlað að nýta hægindin rétt á meðan hann brá sér frá en sofnað svona værum svefni að hún hefur ekki rumskað allan þennan tíma. Enda verður það að segjast að allur afturparturinn er farinn að kvarta sáran yfir þessari endalausu setu - úff.

Úpps.. nú slökkti einhver lesljósið sitt og týran sem ég hef párað þetta við hvarf svo ég sé ekkert hvað ég er að gera - svo yfir og út í bili.

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband