9. september í Shanghai


Í dag eru 30 ár síðan Mao formaður dó.

IMG_4348Í morgun rigndi og mannskapurinn dró upp regnhlífar. Við byrjuðum á að heimsækja Búddahof sem geymir marga fallega merkilega hluti en er sérstakt fyrir tvær búddastyttur úr hvítum jade, sem er mjög sjaldgæfur. Hofið hefur verið í þessari byggingu frá 1918 en þá voru stytturnar tvær fluttar þangað. Þær áttu reyndar að fara eitthvert annað en vegna stíðsástands var ekki hægt að koma þeim á áfangastað og þær höfnuðu hér.

Það var ansi fjölmennt í hofinu – eins og reyndar alls staðar hér – og við urðum vitni að ótrúlegu umburðarlyndi Kínverjanna sem iðkuðu bænir sínar innan um kallandi fararstjóra og háværa túristana sem bókstaflega klofuðu yfir þá þar sem þeir lágu á bæn í þrengslunum.

Ekki mátti mynda hvítu jadestytturnar tvær en eitt og annað merkilegt náðist þó á mynd. Þarna voru t.d. hreint ótrúleg útskorin listaverk sem bera handbragðinu hérna glöggt vitni. Ég féll svo auðvitað kylliflöt fyrir stórum búttuðum og sætum búdda sem hefði sómt sér vel á arninum heima en varð, vegna fyrirferðar sinnar og þyngdar, að sitja eftir í hofinu.

IMG_4351Magnús fræddi okkur auðvitað um það helsta í trúarbrögðunum og ljóst er að höfuðáttirnar fjórar skipta þar miklu máli enda voru í hofinu fjórir miklfenglegir kappar sem hver um sig varði eina höfuðáttina – kannski svolíðið líkt landvættunum okkar. Til að fara inn í vistarverur þurfti að klofa yfir háan þröskuld sem þjónar þeim tilgangi að halda draugum frá – því eins og allir vita komast draugar ekki yfir þröskulda!! Sama hlutverki þjóna hlykkjóttir gangar því draugar komast víst heldur ekki nema beint áfram. Þetta er auðvitað vitneskja sem allir þurfa að þekkja.

IMG_4375

 

 

Næst fórum við svo í silkiverksmiðju og sáum þessa ótrúlegu framleiðslu úr púpu silkiormsins. Eftir að hafa fylgst með handbragðinu við að ná fram silkiþráðinum lá auðvitað leiðin í verslun verksmiðjunnar. Þar mátti t.d. kaupa ekta silkirúmföt á um 12.000 kr. parið. Þau voru auðvitað freistandi en mig hefði þó enn frekar langað í silkisæng sem stúlkurnar voru að búa til þarna inni og var hreint dásamleg. IMG_4378Ég stóst þó þessar freistingar en keypti mér silkislopp sem ljúft verður að sveipa um sig á letimorgnum heima og einnig jakka úr svörtu hrásilki. Sloppurinn kostaði 580 yöan sem eru innan við 5800 kr. og jakkinn 500 yöan. Annars voru fæstar flíkurnar þarna hentugar fyrir mína íslensku búkonuhandleggi.

 

 

Í hádeginu var farið á matsölustað og sest að hinum kínverska mat sem verður eini kosturinn í þessari ferð. Úff, satt að segja hálf bauð mér allt í einu við þessum kínversku réttum og veit ekki hvernig verður að borða þetta í tvær vikur.

IMG_4404Eftir snæðinginn var ferðinni heitið í Mandarin Yu, sem er eini hefðbundni kínverski garðurinn í Shanghai frá Ming tímanum. Garðurinn hafði verið í eigu eins af embættismönnum keisarans. Embættimaðurinn dvaldi auðvitað langdvölum fjarri fjölskyldunni en lét útbúa þennan fallega garð svo fjölskyldan gæti notið þar náttúrunnar innan veggjanna sem umluktu hann. Garðurinn var sannarlega fallegur, með fallegum gróðri, sjaldgæfu bergi og gullfiskatjörnum. Ekki hefur þó alveg ríkt jafnræði með fjölskyldumeðlimum innan hans því þar voru sérstakir yfirbyggðir gangar, einn fyrir karla (með fögru útsýni) og annar baka til fyrir konurnar.

 

IMG_4417Þegar út úr garðinum kom fengum við að kíkja svolítið á kínverskan varning í verslunargötum þarna í nágrenninu og héldum síðan í stóru verslunargötuna Nanjing eða Pepsi Cola street eins og Kínverjarnir kalla hana vegna allra auglýsingaskiltanna. Ekki var nú gefinn langur tími í þessari stóru verslunargötu og við sáum það að ómögulegt væri að ætla sér eitthvert búðarráp svo við röltum þarna um ásamt Betu og Gunnari, aðallega til að horfa á fjölskrúðugt mannlífið og gjóa augunum í einstaka búðarglugga. IMG_4421Við stungum auðvitað í stúf þarna eins og annars staðar og vöktum greinilega athygli, enda augljóslega túristar á ferð. Þegar við vorum að fikra okkur til baka í átt að rútunni tókum við eftir ungum manni sem fylgdi okkur eftir og hafði augljóslega áhuga á myndavélinni sem hékk um hálsinn á Sveini. Ég veit ekki hvort hann sá að við höfðum orðið hans vör en hann gaf sig á tal við okkur til að vita hvaðan við værum – voða hress og kammó. Síðan tók hann upp símann og hringdi eitthvert. Stuttu seinna sáum við að annar var farinn að fylgja okkur eftir og þá leist okkur ekki alveg á blikuna og færðum okkur inn á mitt strætið – en áður höfðum við haldið okkur í skugganum af húsunum. Það var eins og við manninn mælt að þá hætti piltur að fylgja okkur en tók upp símann, sennilega til að tilkynna að fengurinn væri runnin þeim úr greipum. Já, það er eins gott að vera svolítið vakandi og var um sig.

Eftir þennan örverslunartúr var haldið upp á hótel þar sem hópurinn náði örlitlu stoppi – rétt fyrir sturtu og fataskipti áður en haldið var eina ferðina enn á matsölustað (svei mér þá maður er alltaf að borða hérna) en nú var maturinn þó mun betri og lystugri en í hádeginu.

MOV07391Kvöldinu lauk svo með því að við fórum á akróbat-sýningu í leikhúsi hér í borg þar sem sjá mátti mörg hreint ótrúleg atriði. Toppurinn var þó lokaatriðið þar sem fimm menn þeystust um á mótorhjólum innan í járnkúlu á sviðinu. Skrambinn, manni varð hálf illt því það var svo augljóst að hver minnstu mistök myndu kosta stórslys. Hreint ótrúlegt atriði!!

 

 

 

 

 

Að lokum listi yfir kínverskulærdóm dagsins skráð samviskusamlega eftir framburði:

Dá chang há = Góðan daginn

Cé cé = takk

í – a – can - ci – ú – leó – cúí – ba – tjó – cu = 1 –2 – 3 – 4 – 5 – 6 – 7 – 8 – 9 - 10

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband