Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Glansmyndir

 Mikið þótti mér lítil grein Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur í Morgunblaðinu í morgun góð. Ég, eins og fleiri, náði ekki upp í nefið á mér vegna þess blekkingarleiks Kínverja að sýna við opnunarhátíðina 9 ára gamla stúlku, Lin, sem þótti "fallegri" en hin 7 ára gamla Yang með englaröddina. Mér, eins og greinilega fleirum, er algerlega fyrirmunað að draga börn í slíka dilka og finnst framferði Kínverja forkastanlegt. Mér láðist þó, eins og greinilega fleirum, að horfa á þennan gjörnin í víðara samhengi. Grein Guðfríðar ýtti hins vegar við mér. 

Hún segir m.a: "Tildrög málsins eru þau að hin 7 ára Yang sem með rödd sinni vann til þess heiðurs að syngja til móðurjarðarinnar við opnun Ólympíuleikanna var með skömmum fyrirvara tjáð að því miður hefði hún ekki rétta andlitið. Tennurnar voru of skakkar og kinnarnar of bústnar. Hin 9 ára Lin var hins vegar nægilega sjónvarpsvæn og hún léði röddinni andlit sitt og líkamsburði og hreyfði varirnar í þykjustusöng. Hún sjarmeraði upp úr skóm eins og henni var ætlað...... Sögunni um Yang og Lin ættum við þó að geta snúið aðeins upp á okkur sjálf. Erum við virkilega svo ókunnug áróðri, útlitsdýrkun og ímyndarherferðum? ...... Og þegar kemur að útliti: Hvar sjáum við feitari þulurnar í eldri kantinum í sjónvarpi, hvar sjáum við spyrlur með hrukkur sem hafa margra ára innsýn í íslensk samfélagsmál? Hversu margar ungar stúlkur fara í brjóstastækkun og hversu margar í eilífa megrun, og hvernig er þeim umbunað?..... Mistökin sem við gerum er að halda að falskar flugeldasýningar séu undantekningin en ekki reglan í henni veröld, kommúnískri sem kapítalískri".

Já, sennilega er uppákoman með þær litlu Yang og Lin bara ýkt birtingarmynd á fegurðardýrkun sem við erum æði mörg orðin ansi samdauna.

Við lestur greinarinnar rifjaðist líka upp fyrir mér önnur ýkt birtinarmynd þessa saman - öllu óviðfeldnari þó - en það var frásögn eða auglýsing um að foreldrar gætu látið "laga" ljósmyndir af börnunum sínum til að þau væru nú fallegri í römmunum á arinhillu fjölskyldunnar. OG HVAÐ ER ÞAR Í GANGI? Ekki beint verið að byggja upp sterka og jákvæða sjálfsmynd barna á þeim bæjum - og þar eru það foreldrarnir sem finnst þörf á glansmyndinni - hve sjúkt er það?


Vetrarfrí

Það er skondið þetta vetrarfrí sem hefur verið að festa rætur í grunnskólunum síðustu ár. Auðvitað falleg hugsun um að brjóta upp hversdaginn hjá börnunum svo þau geti notið samvista með fjölskyldum sínum - geri ég ráð fyrir - en gengur bara ekki upp.

Nú er það auðvitað svo að áhyggjum mínum vegna þessara daga er lokið og unglingurinn minn sér um það sjálfur að hafa ofan af fyrir sér þessa daga og finnst þeim fylgja kærkomin hvíld og frelsi. En ég verð óneitanlega vör við að margir foreldrar eru í vandræðum.

Það eru nefnilega ekki margir sem hafa tök á að taka sér frí frá vinnu. Í mínu starfsumhverfi eru t.d. lang flestir starfsmenn foreldrar grunnskólabarna en það gefur augaleið að þeir geta ekki allir fengið fri þessa daga. Það tíðkast nefnilega ekki að leikskólabörnin fái frí. Ég man það t.d. eitt árið stuttu eftir að vetrarfríin komust á að við vorum með nokkur börn á deildinni sem áttu grunnskólakennara sem foreldra og það verður að segjast alveg eins og er (þó það megi kannski ekki segja svona hluti) að við urðum mjög hissa og kannski örlítið sárar þegar þessi börn mættu eins og venjulega í leikskólann. Okkur langaði nefnilega mikið til að geta tekið okkur frí til að vera með okkar eigin börnum heima.

 Ef þessir dagar eiga að nýtast fjölskyldum til samveru, verður að verða einhver þjóðarsátt um að sem flestir fái svigrúm til að vera heima. Ef þeir sem eru í fríi nýta tækifærið til að nota sem mesta þjónustu annarra er ljóst að þetta gengur ekki upp. Ef reyndin er sú að við notum dagana til að fara nú loksins í klippinguna, nuddið, í líkamsræktina eða á búðarrápið sem okkur hefur svo lengi dreymt um er ljóst að fólkið sem við það vinnur hefur ekki tök á að nýta þessa daga með sínum börnum. 

Niðurstaða mín er sem sagt: Vetrarfrí eru skekkja sem bara virka ekki eins og þeim er ætlað. 

 

PS:

Eru vetrarfrí ekki dæmi um menningarlega mishröðun sem mig minnir að hafi verið hugtak í félagsfræðinni í gamla daga?


Flestir...

... hamast með snjóskófluna; moka frá niðurföllum og dyrum en einstaka maður missir sig með skófluna og hamast við að grafa sína eigin pólitísku gröf. Mikið finnst mér alltaf átakanlegt og aumkunnarvert að fylgjast með slíku.

Allt gengur yfir um síðir

 Já, já hún gekk yfir þessi hundrað daga flensa af B-stofni. Mun samt hafa lagst þungt á marga settlega borgara sem báru harm sinn í hljóði. 

Nú og við tók önnur flensa, nú af óþekktum F- stofni. Sú herjar aðallega á ungliðahreyfingar sem láta mikinn á meðan verstu einkennin ganga yfir.

Já, já það held ég nú. 


Blað allra landsmanna?

Ég ætla að trúa ykkur fyrir því að ég er orðin alveg hundfúl út í Moggann - og bregður þá nýrra við. 

Ég hringdi á miðvikudag og spurði einhverja konu, á ritstjórn, hvað liði síðari hluta greinarinnar minnar og reyndi að benda á að grein sem er skrifuð í tengslum við ákveðinn dag missir marks ef hluti hennar birtist ekki fyrr en eftir dúk og disk. Það verður að segjast eins og er að ekki draup nú beint af henni þjónustulundin, blessaðri Frown. Hún benti mér á að mér hefði verið sagt að ekki væri víst að greinin gæti birst dag eftir dag. Já, já ég veit það en heil vika - Halló!!!!!

Ég fékk skýr skilaboð um að ég væri æði tilætlunarsöm að ætlast til þess að fá pláss í blaðinu tvisvar sinnum með stuttu millibili og hafði á tilfinningunni að ég ætti að biðjast fyrirgefningar á þessu ósæmilega háttarlagi mínu og þakka bara fyrir að hafa yfirleitt komist að í þessu blaði allra landsmanna.

Ég kvartaði líka yfir því að ekki var tekið fram að um fyrri hluta greinar væri að ræða - því þannig sendi ég jú greinina inn - Nei, við auglýsum ekki að um fyrri og seinni hluta er að ræða, þá er svo augljóst að þetta er löng grein sem er skipt í tvennt. Ég spyr: OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ??? 

 


Umhyggja

Sit hérna svolítið eins og undin tuska eftir erilsama viku. Sennilega ákveðið spennufall. 

Sat í gær og í dag afar áhugavert málþing Kennaraháskólans: Maður brýnir mann - Samskipti, umhyggja, samábyrgð, þar sem kynnt voru fjölmörg spennandi verkefni og rannsóknir sem verið er að vinna allt frá leikskóla til háskóla.

Vilborg Dagbjartsdóttir flutti hugvekju við opnum málþingsins og var hreint dásamleg. Ég varð að laumast til að þurrka tár úr augnkrókunum af og til - ekki það að hún væri á þeim buxunum að koma út á manni tárunum enda mikill húmor í erindinu - en það var einhvern veginn svo áhrifaríkt að mér vöknaði um augu. ---- Já, já, já, veit að þetta er þekkt vandamál í minni ætt - en asskoti óheppilegt á stóru faglegu málþingi.

Ég hlustaði svo á mörg áhugaverð erindi en uppúr stóð opnunarerindi Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar um umhyggjuhugtakið enda er ég ákaflega upptekin af því þessa dagana í tengslum við verkefnið okkar í Reynisholti, þar sem við höfum verið að nota þetta hugtak og leitast við að skilgreina hvað greinir faglega eða siðferðilega umhyggju (ethical care) sem grundvallast á þeim tengslum sem er á milli kennara og nemanda/barns, frá eðlislægri umhyggju fyrir þeim sem tengjast manni nánum fjölskylduböndum.

Ég fékk svo tækifæri til að kynna verkefnið okkar, sem einn þriggja frummælenda, í málstofu sem bar yfirskriftina: Lífsleikni, upplýsingatækni og umhverfi. Þar var ég í góðum félagsskap þeirra Sæunnar og Ernu Magnúsdóttur sem hafa unnið frábært lífsleikniverkefni í leikskólanum Jörfa og Fannýjar vinkonu minnar sem er að skoða umhverfið sem þriðja kennarann. Afar áhugavert enda Fanný einkar fagleg og fróð kona.

Ekki veit ég svo sem hvernig mín kynningin gekk enda finnst manni þetta ósköp yfirborðskennt þegar maður rétt stiklar á stóru um svo stórt verkefni. En allavega var nokkur hópur mættur til að leggja við hlustir og nokkrar umræður sköpuðust í kjölfarið og það verður að teljast gott þar sem það mun hafa gerst í gær í einhverri málstofunni að enginn mætti til að hlusta og frummælendur héldu kynningu hver fyrir annan. 

Núna hefur hins vega minn einkakokkur töfrað fram dásamlegt Risotto svo nóg af bloggi í bili. 


Ja, hérna hér

Það er ekki lognmollunni fyrir að fara í borgarmálunum þessa dagana og ég spái því að við sjáum ekki enn fyrir endann á þessum farsa öllum.

Rekstur leikskóla

Þorbjörg Helga vill leita nýrra leiða í rekstri leikskóla í borginni og viðrar þær hugmyndir að fyrirtæki reki leikskóla. Ég hræðist nokkuð þessa leið, einfaldlega vegna þess að ég held að hagsmunir barnanna eigi ekki endilega samhljóm í hagsmunum fyrirtækjanna.

Kristín Dýrfjörð setur líka fram áhugaverða hugmynd um rekstur leikskóla sem gæti orðið til þess að foreldrar myndu leita leiða til að stytta skóladag þessara ungu barna sinn og njóta samvistanna við þau í auknum mæli.  

Til er ein leið enn sem ég held að mætti gefa gaum.

Ég hef það fyrir satt að leikskólar séu þær stofnanir sem hvað best eru reknar. Hvernig væri nú að gera þeim stjórnendum sem áhuga hafa, tækifæri til að gera þjónustusamning við borgina um rekstur skólanna. Borgin greiddi þá x krónur með hverju barni sem skólinn tæki inn en leikskólastjórar ráðstöfuðu fénu sjálfir og yrðu eðlilega að leita jafnvægis í að gera bæði starfsfólk, börn og foreldra ánægð.


Ávöxtun

Það er aldeilis góð ávöxtun hjá Kaupþingi 20.000 manns urðu 40.000 á svipstundu - þó virtist manni ekki fjölga svo mjög á vellinum. En ég var auðvitað ekki þar, heldur uppi í mínum prívat sófa fyrir framan mitt prívat sjónvarp og kannski hefur stemningin verið á við 40.000 manna partý. Hvað veit ég!

En ótrúverðugt þykir mér þegar menn sem löngu hafa selt sig og sína tónlist koma með hallærislegar  yfirlýsingar á milli laga. Nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn er Bubbi!

Svo fannst mér Luxor-strákarnir bara krútt og Arnar hennar Carolu vinkonu minnar er auðvitað sjarmatröll eins og hann á ættir til Cool og ég gæti trúað að mörg stúlkan eigi eftir að horfa til hans vonaraugum Whistling


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband