11. september - Með rútu frá Wuhan til Yichang

Þess er fyrst að geta að það vakti athygli okkar á Holiday Inn hótelinu í Wuhan að allt starfsfólkið bar nafnspjöld með enskum heitum. Við ályktuðum auðvitað að það væri til að auðvelda okkur túristunum að nefna það með nafni. Æ, mér finnst það svolítið langt gengið í að þóknast kúnnanum. Hefði fundist mikið meira spennandi að sjá kínversku nöfnin – kannski þó ekki með kínversku letri því þá gæti maður auðvitað engan veginn vitað hvað þar stæði.

Einum munni fylgja tvær hendur
Og það er sannarlega nóg af starfsfólkinu alls staðar. Það hreinlega snýst í kringum okkur hvar sem við komum enda eru margir um störfin hér í þessu fjölmenni og þeir eru greinilega vinnusamir Kínverjarnir. Maó sagði líka að einum munni fylgdu tvær hendur. En þess er líka vel gætt af okkar manni, Bin, að við fáum viðhlítandi þjónustu. Ef hann verður þess var að kaffibolli tæmist eða að eitthvað vanti upp á þjónustuna hleypur hann til, hellir í bollana eða hóar í þjónustufólkið til að benda því á að eitthvað vanti.

Annars liggur leið leið okkar í dag frá Wuhan, um kínverskar sveitir, að Yichang við Yangtse-fljót, þar sem við munum í kvöld fara um borð í skipið sem verður næturstaður okkar næstu fjórar næturnar. Æ, ég hlakka til að slaka svolítið á. Fram til þessa hefur dagskráin verið ansi stíf og því verður gott að skipta svolítið um tempó. Þó hefði ég alls ekki viljað hafa síðustu daga öðruvísi – ó, nei – ég er nefnilega ekki komin hingað, alla þessa leið, til að liggja inni á hótelherbergi, ó nei, ó nei. Vil einmitt nýta tímann vel til að upplifa og sjá sem flest.

Wuhan er langt inni í landi en þó aðeins 40 metrum yfir sjávarmáli. Við keyrum um sveitir Hubei-héraðs. Hér er mikil hrísgrjónarækt en bændur ná tveimur hrísgrjónauppskerum á ári og geta auk þess nýtt akrana undir annars konar ræktun á haustin. Akrarnir gef því þrjár uppskerur á hverju ári. Bændurnir búa ekki á býlum með stórt land í kringum sig, eins og við þekkjum heldur búa þeir í þorpum og rækta svo skika einhvers staðar í nágrenninu.

Pissað í holu
Jæja, en nú er komið að pissustoppi. Viðkomustaðurinn er bensínstöð og að þessu sinni höfum við hinar vestrænu kvinnur ekkert val um salernisgerðina (en það er jafnan stóra spurningin á hverjum viðkomustað: Er klósett eða hola?). Hér er sem sagt bara hola og nú er að láta sig hafa það. Anna Maren tekur smá sýnikennslu fyrir myndavélina því auðvitað verður að eiga minningu um þennan merkisatburð. Mig hafði svo sem grunað að í svona langri rútuferð kæmi að því að maður yrði að brúka holuna og var því svo forsjál að klæðast pilsi þennan daginn. Sá það fyrir mér að geta átt í erfiðleikum með að forða niðurgirtum buxunum frá því að dragast eftir gólfinu og það er ekki laust við að samferðarkonurnar öfundi mig af klæðnaðinum. En hvort sem það var pilsinu að þakka eða einhverju öðru þá gekk þetta allt stórslysa laust. Minnti svolítið á að pissa úti í móa heima á Íslandi nema hvað hér þurfti að taka sér kirfilega stöðu og miða af vandvirkni auk þess sem ferska loftið og náttúruilmurinn er víðsfjarri (nema ef kalla má stæka hlandlyktina náttúruilm).

Eftir þetta sögulega pissustopp keyrum við áfram um sveitirnar og í gegnum litla bæi. Það er margt sem vekur athygli bæði í landslagi og mannlífi. Það er t.d. greinilegt hvers vegna talað er um vatnahéruð. Víða má sjá breiður af baðmull sem lögð hefur verið til þerris fyrir framan híbýli manna og ljóst er að fólkið hér býr ekki við sömu gæði og víða má sjá í borgunum.

Ómæld gestrisni
Við stoppuðum í einu þorpanna. Ætluðum að ganga þar aðeins um og líta í kringum okkur. Ég rak augun í að rétt við rútuna virtist vera einhvers konar verslun. Ég lagði leið mína þangað. Verslun er jú, staður þar sem vænta má að hver sem er sé velkominn og því auðveldara að snuðra þar svolítið heldur en við heimilin. Þegar ég kom að búðinni var ein samferðarkonan komin þar að, hefur sennilega hugsað á svipuðum nótum og ég, nema hvað húsráðendur, tvær fullorðnar konur, höfðu drifið hana inn og boðið henni sæti á lágum kolli rétt innan við gættina. Sjálfar húktu þær á eins kollum og unnu við að hreinsa baðmull . Það var eins og allt samferðafólkið hafi rambað í sömu átt því smám saman fjölgaði okkur þarna í gættinni og þessar fullorðnu, getstrisnu, brosmildu konur hlupu til, náðu í kolla og bekki til að allir gætu sest. Þær rifu jafnvel kollana undan sjálfum sér til að geta boðið öllum sæti. Og við stöldruðum við, ófær um að þakka fyrir okkur eða eiga einhver orðaskipti, fylgdumst með þeim vinna og gjóuðum augunum upp í hillurnar í þessari ótrúlegu búð. Já, maður leyfði sér ekki meira en að gjóa augunum á umhverfið því það var svo langt frá því sem gæti kallast verslun heima. Hér var einhver hræðileg ringulreið, öllu ægði saman en samt var þarna svo fátt að hafa og mér fannst að ef ég skoðaði þetta af gaumgæfni þá væri ég hreinlega dónaleg; gæti ekki dulið undrun mína og hugsanir um hvað allt var fátæklegt, óskipulagt og skítugt. Ég náði samt að taka nokkrar myndir og vonaði að þeim mislíkaði það ekki. Úff – þetta innlit orkaði mjög sterkt á mig.

Ullabjakk
Eftir smá stopp þarna röltum við um þorpið og niður að einu þessara fjölmörgu vatna. Þar á bakkanum var salernisaðstaða þorpsbúa – ÓMG – það bar með sér að vera ekki sérlega vistlegt. Ég gat ekki hugsað mér að líta þangað inn en hnippti í Svein og spurði hvort hann væri til í að taka mynd þangað inn. Jeminn, það sem þessi maður minn gerir ekki fyrir mig (Þegar ég sá svo myndirnar var ég ákaflega sátt við að hafa ekki álpast þangað inn – ullabjakk). Við forðuðum okkur aftur til baka, virtum fyrir okkur piparjurtir og breiður af fræhirslum sem okkur var sagt að geymi sesamfræ.

Í heimsókn
Við sáum svo að hluti hópsins var kominn inn í eitt húsanna og forvitnin rak okkur þangað. Þar hafði húsráðandinn boðið gestum að ganga í bæinn og skoða húsnæðið. Það var mjög snyrtilegt, en ekkert um sófa eða mjúk hægindi eins og við eigum að venjast. Þar var þó svefnherbergi með m.a. stóru hjónarúmi. Í miðju húsinu var svo eins konar flísalagt port eða garður og úr honum farið inn i aðrar vistarverur þar sem m.a. var að finna prívat salernisaðstöðu fyrir fjölskylduna. Mikið var ég fegin. Vonandi eru þá bara fáir sem búa við það að þurfa að nýta sér kamarinn við vatnið. Húsráðandinn þarna var hins vegar nokkuð vel stæður en hann stundar fiskeldi í vötnunum og gaf okkur nafnspjald þar sem fiskitegundirnar sem hann ræktar eru taldar upp. Við skiljum auðvitað ekkert sem þar stendur en Beta gaf honum á móti nafnspjald og sennilega hringir hann einn daginn ef hann vantar augnlæknaþjónustu, nú eða skemmtilegan kvennakór.

Kannski er sælla að gefa en þiggja
Eftir þessa skemmtilegu heimsókn fikruðum við okkur til baka í átt að rútunni og álpuðumst í leiðinni inn í búð sem var um margt lík hinni fyrri nema hvað hún var heldur stærri og þar var ekki verið að vinna baðmull.

Óreiðan virtist hins vegar hin sama. Mig langaði mikið að eiga einhver viðskipti við þetta gestrisna fólk. Fannst það einhvern veginn vera eina leiðin til að launa örlítið fyrir okkur. Ég fór því að rýna ofan í búðarborðið og rak þar augun í box með mörgum einskonar tréplötum eða tréhnöppum en á hverjum þeirra var kínverskt tákn. Ég hugsaði með mér að kannski gæti ég keypt einn svona tréhnapp til að eiga til minninga.

Ég skrafaði um þetta við Betu og benti ofan í borðið. Konan sem þarna var fyrir innan búðarborðið varð vör við áhuga minn og eftir einhver óskiljanleg orðaskipti dró hún allt boxið fram og stakk því ákveðin ofan í plastpoka. Ég jesúsaði mig í bak og fyrir, hafði ekki hugmynd um hvað þessi ósköp gætu kosta, hafði jú, bara ætlað að eiga smá viðskipti, vildi heldur ekki móðga hana með því að draga fram of litla upphæð. Fannst samt skrítið hvað konan otaði pokanum áköf að okkur Betu. Við streittumst við og náðum loks að kalla á Bin blessaðan sem kominn var fyrir utan búðina.

Við báðum hann að spyrja hvað þetta kostaði. Það kom þá í ljós að konan vildi að við ættum boxið. Allamalla, það kom ekki til greina, við vildum borga, en hvað mikið. Bin, skiptist á einhverjum orðum við konuna sem greinilega var treg að gefa upp verð. Að lokum gaf hún upp 5 yöan, við drógum í flýti fram þessa upphæð en Halló! Fimm yöan eru innan við 50 kr. Guð minn góður og við fórum út með allt boxið fyrir þessa aura!

Þegar við komum út í rútu og ég fór að skoða þetta betur kom í ljós að boxið var verðmerkt upp á 7 yöan, henni hefur fekki viljað selja okkur þetta á uppsettu verði. Það kom líka í ljós að auðvitað var ekki hægt að kaupa eitt stykki úr boxinu þar sem þetta er kínverskt tafl og hver tréplata er taflmaður, í botninum á boxinu, sem var afskorinn botn af plastbrúsa, var samanbrotinn plastdúkur sem gegnir hlutverki taflborðs. Vonandi hef ég einhvern tímann þolinmæði og burði til að læra þessa kínversku skák. Minna má það varla vera eftir ótrúlega gestrisni og gjafmildi þessa fólks sem hefur þó svo lítið.

Lyst og lystarleysi
Eftir þetta ótrúlega viðburðaríka stopp var haldið með okkur til hádegisverðar. Að þessu sinni var veitingastaðurinn í mjög fallegum garði sem m.a. skartaði fallegum bonsai-trjám. Mér fannst maturinn ágætur en Beta mín var alveg lystarlaus. Hún var svo sem ekki alveg ein um það að þessu sinni og hafði mannskapurinn á orði að maturinn hefði verið svo ljótur þ.e. grár og lítið lystugur á að líta.

Við þennan veitingastað lentum við svo í því að brúka holu í annað sinn og almáttugur minn ég hef sjaldan lent inn á hræðilegri vistarveru. Lyktin og óþrifnaðurinn var slíkur að ég kúgaðist og kúgaðist þegar ég hentist þaðan út, þakklát fyrir pilsið góða því annars hefði ég örugglega ekki gefið mér tíma til að hysja upp um mig svo mikið lá mér á að komast þaðan út.

2000 ára gamalt bros
Næst lá svo leið okkar í safn þar sem til sýnis var 2000 ára gamalt lík – frá því fyrir Krist. Líkið hefur varðveist ótrúlega vel og það var nánast eins og hann brosti framan í okkur undan glerinu þessi fornmaður. Honum fylgdu fjölmargir hlutir sem hafa ekki síður varðveist vel en eigandi þeirra. Í safninu var líka silki og útsaumur úr nokkuð yngri gröf, konu nokkurrar. Mannskapurinn hafði nú eitthvað mismikinn áhuga á að skoða þessar minjar, sérstaklega útsauminn og silkið sem fylgdu konunni, en ég er ákveðin í að skoða allt sem boðið er upp á í þessari ferð og finnst þetta eins og annað hafa verið þess virði. Mig grunar að þegar maður kemur heim og fer að vinna úr þessari ferð þá muni þetta allt skapa einhverja heildarmynd í kollinum á manni – eða ég vona það í það minnsta.

Mótmælendur á ferð?
Núna erum við stopp við einhverja skrifstofubyggingu þar sem bílstjórinn er að fá leyfi til að fara með okkur inn á virkjanasvæðið mikla við Yangtze-fljót. Hann skildi rútuna eftir nánast úti á götu og vegfarendur hér eru ekki allir paránægðir. Við höfum beðið hér nokkra stund en það síðasta sem við sáum af bílstjóranum var að hann vippaði sér aftan á mótorhjól hjá einhverjum manni hér og þeir brunuðu í burtu. Það er sennilega einhver skriffinnska og læti við að hleypa okur í gegn því eftir því sem okkur skilst er hann persónulega ábyrgur fyrir því hvers konar lið hann flytur inn á svæðið. Já, þeir hleypa sko ekki hverjum sem er inn á virkjanasvæðið, vilja sennilega forðast mótmælendur sem kannski myndu slá upp tjaldbúðum og vera með vesen eins og við höfum séð við Kárahnjúka. Ætli við reynum ekki að hemja okkur og vera prúð og stillt svona svo bílstjóraræfillinn verði ekki tekinn af...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband