10. september frá Shanghai til Wuhan

IMG_4427Í dag tókum við daginn snemma, vöknuðum kl. 5 og vorum lögð af stað í rútunni kl. 7 enda á leið í flug sem mun bera okkur héðan frá Shanghai, “the prostitute of Asia” eins og Mao kallaði hana vegna vanþóknunar sinnar á vestrænum áhrifum og mikilli verslun hér. Bin hafði kennt okkur nokkur orð í kínversku og þegar ég kom í rútuna ákvað ég að slá svolítið um mig og bauð bílstjóranum góðan dag á kínversku. Alla malla – mannræfillinn hefur auðvitað haldið að ég talaði kínversku reiprennandi því það opnaðist hreinlega flóðgátt hjá blessuðum manninum sem hélt okkur ræðu um Shanghai-mállýsku – eða í það minnsta sagði Magnús að ræðan hefði fjalla um það. Sennilega er bara best að slá um sig með kínverskuna í lokuðum hópi Íslendinga sem hvort sem er geta engu svarað.

Þessi sami bílstjóri (sá með hvítu hanskana á myndinni - skrýtið, þeir keyrðu allir með svona hvíta hanska) hafði þegið morgunverð með hópnum og vakti þar athygli borðfélaganna fyrir ýmis búkhljóð á meðan hann mataðist en hann sötraði og smjattaði af mikilli innlifun. Magnús fræddi okkur um það þetta þættu góðir siðir hér, það væri kurteisi að láta í ljós ánægju með matinn með ýmsum hljóðum s.s. með því að smjatta, sötra, ropa og jafnvel reka við. U-humm, það er spurning hvernig manni tekst að aðlagast og tileinka sér þá menningarlegu hefð.

Í rútunni í Wuhan kl. 10:35

Flugferðin gekk vel og vélin var ágæt þótt Einari, 22 ára ferðafélaga og þeim yngsta í hópnum þætti þetta óttaleg rella. Skemmtilegur strákur sem lætur það ekki trufla sig að samferðafólkið gæti allt verið foreldrar hans eða afar og ömmur. Annars er hópurinn farinn að hristast örlítið saman og það var skemmtilegt að brjóta aðeins upp sætaskipan í fluginu en þá tékkaði Bin okkar, allan hópinn inn og eftirnöfn réðu sætaskipaninni. Fínt fyrirkomulag og gaman að spjalla við nýja sessunauta - þótt ég sé svo sem ekkert orðin leið á þeim Sveini, Betu og Gunnari.

Í fluginu, sem tók ekki nema einn og hálfan tíma, var boðið upp á drykki eins og gerist og gengur og síðan var kexpökkum útbýtt á línuna – hehe – frekar fyndið að fá nokkurs konar Frónpakka til að maula upp úr á leiðinni. Þeir eru ekkert að gera þetta flókið Kínverjarnir.

IMG_4439Við sitjum núna í rútunni nýkomin til Wuhan sem er í vatnahéruðunum í miðhluta Kína. Wuhan er í svokölluðu Hundrað vatna héraði eða – Hubei-héraði (veit ekki hvernig það er skrifað). Borgin skiptist í þrjá borgarhluta og er hótelið okkar staðsett í Han-co borgarhlutanum. Hér í Wuhan eru margir góðir háskólar og þar á meðal eru tveir af tíu bestu í öllu Kína enda er sagt að hér búi gáfaðasta fólkið. Fastir íbúar borgarinnar eru 7,6 milljónir en auk þeirra er hér mikill fjöldi nemenda og farandverkafólks. Úbbs, það væri sennilega auðvelt að láta sig hverfa hér fyrir fullt og allt í fjöldann ef maður skæri sig ekki svona augljóslega úr. Ekki er þó víst að maður myndi sætta sig við launakjörin sem hér tíðkast – myndi jafnvel ekki skipta á leikskólakennaralaununum – því hér þykir ekki slæmt að fá um 1000 yöan í mánaðarlaun en það er nokkuð undir 10.000 krónum.

Það vekur athygli okkar að nokkuð er um skreytta bíla á götunum og Magnús segir okkur að í dag sé 18. júlí samkvæmt tungldagatali og það sé sérlega góður dagur til giftinga. Ástæðan er að talan 9 er keisaraleg tala og sú staðreynd að 2x9 eru 18 gerir daginn ákjósanlegan.

IMG_4436Annars er umferðin hérna, eins og reyndar í Shanghai, hreint ótrúleg. Bílamergðin er í réttum hlutföllum við mannfjöldann og ég held að Sveinn hafi hitt naglann á höfuðið þega hann lýsti umferðarmenningunni þannig að þeir keyrðu eins og þeir væru enn allir á hjólum. Það er t.d. ekkert aðalatriði að halda sig við akreinar. Verði þrenging á akstursleiðinni þá hreinlega troðast þeir þangað til þeir rekast saman, hlið í hlið og allt situr fast. Við höfum þegar séð nokkra slíka árekstra og Magnús segir okkur þegar komi að því að gera upp tjónið þá sé það ævinlega sá sem er á dýrar og fínna farartækinu sem sé í rétti. Það er auðvitað mikið einfaldari regla en að taka tillit til flókinna umferðareglna – ekki satt?

IMG_4453Eftir stutt stopp á glæsilegu Holiday Inn hótelinu héldum við í alveg ágætan hádegisverð – ég er svei mér þá bara farin að kunna vel við kínamatinn og orðin býsna leikin með prjónana. Í þetta sinn voru réttirnir nokkuð framandi en sérlega góðir. Á borðum var m.a. lótusrót, steikt eggaldin og maískökur eða toppar með sætri sósu. Magnús segir okkur að maturinn muni verða meira og meira spennandi og bragðsterkari eftir því sem líður á ferðina – umm, ekki slæmt það.

 

IMG_4459Næst lá leið okkar í Gula trönuturninn. Á leiðinni þangað skoðuðum við mannlífið út um bílrúðurnar og meðal þess sem við sáum var hópur manna sem sat á götuhorni með pappaspjöld fyrir framan sig sem eitthvað hafði verið párað á, einn og einn var líka með einhver verkfæri. Magnús segir þetta vera iðnaðarmenn sem sitji þarna og bíði eftir verki að vinna. Svooolítið annað en ástandið hjá íslenskum iðnaðarmönnum!


IMG_4476Guli trönuturninn

Trönuturninn stendur á hæð við fyrstu brúna sem byggð var yfir Yangtse-fljót en við hann er tengd þjóðsaga um fátækan veitingamann sem veitti taoistapresti nokrum hrísgrjónavín í heilt ár án endurgjalds. Presturinn launaði velgjörðirnar með mynd af trönu sem síðan dansaði fyrir gesti kráarinnar og laðaði þannig að viðskiptavini. Við þetta jukust viðskiptin auðvitað til muna og veitingamaðurinn varð auðugur og naut mikillar velgengni. Turninn mun oft hafa verið brenndur og eyðilagður en alltaf endurreistur í upprunalegri mynd.


IMG_4482Hópurinn rölti auðvitað þessa leið upp að turninum sem var nokkuð á fótinn og hefur trúlega reynt svolítið á þá elstu í hópnum þó maður yrði ekki var við kvein eða kvartanir. Það var vel þess virði að rölta þennan spotta því turninn er mjög fallegur, og fellur vel að hugmyndum manns um klassíska kínverska byggingu. Fyrir framan turninn var svo heljarinnar stór bjalla sem áhugasamir gátu fengið að hringja ef þeir reiddu fram einhverja aura. Ekki var nú neinn sem nýtti sér það en hins vegar nýtti mannskapurinn sér það að fara upp í turninn til að njóta útsýnisins yfir borgina og skoða það sem turninn hafði að geyma – sem var t.d.ýmis spennandi varningur.

 

 

 

Dúfnamaðurinn

IMG_4443Eftir að hafa skoðað trönuturninn lá leið okkar á hótelið. Við Sveinn tylltum okkur við hótelgluggann, sötruðum bjór úr dós og horfðum yfir íbúðabyggð þar sem húsin eru einar sex, sjö hæðir en þó töluvert fyrir neðan okkur. Þetta eru hræðilega hrörleg hús og fyrr í dag tókum við eftir því að á efstu hæð í einu þeirra eru rimlar þar sem dúfur flugu inn og út. Núna virtust dúfurnar allar vera úti og fljúga hring eftir hring yfir húsinu. Uppi á þakinu sat hins vegar maður sem fylgdist með þeim og okkur þótti ljóst að þær væru á hans vegum og að hann væri að viðra þær.

Eftir að hafa fylgst með þessu stutta stund – og klárað úr dósunum – skruppum við út í stórt verslunarhús hér úti á horni þar sem við keyptum eitthvert lítilræði til að færa strákunum þegar heim kemur. Verðlagið er alveg ótrúlegt! Sem dæmi má nefna að ágætir stuttermabolir kosta 45-55 yöan eða um 400-500 kr. íslenskar. Eftir að hafa aðeins nýtt sér þessi kostakjör lá leið okkar í matvörudeildina til að ná í eitthvað svolítið af vatni og bjór því slíkt mun vera í dýrari kantinum um borðí skipinu sem við munum dvelja á næstu daga (við komumst nú að því í lok siglingarinnar að þetta var hálfgerður molbúaháttur og algjör óþarfi að vera að hala þetta með sér um borð því þó drykkirnir hafi kannski verið örlítið dýrari en hér þá munaði það nú ekki því).

Á leið okkar á milli hæða í vöruhúsinu var ég fyrir alveg nýrri og hollri reynslu. Ég stóð í rúllustiganum á leið niður og fyrir framan mig stóð gömul kona og drengur – sennilega barnabarn hennar. Þau eru eitthvað að ræða saman og síðan er henni litið aðeins aftur fyrir sig – á mig. Aumingja konan varð greinilega skelkuð við að standa svona nærri þessari hvítu jussu og hreinlega hörfaði neðar í stigann til að forða sér. Mig langaði auðvitað til að segja henni að ég væri nú ósköp góð og venjuleg kella ofan frá Íslandi en ...

Já, því skyldi maður halda að við séum öðrum kynstofnum ekki jafn (eða meira) framandi en þeir okkur.

Eftir verslunarleiðangurinn höfðum við smá stund áður en haldið yrði í kvöldverðinn og við byrjuðum auðvitað á því að huga að dúfnamanninum okkar (í gegnum kíkinn –uss, við erum hálfgerðir gluggagægjar – en ææ, þetta er eitthvað svo aumkunnarvert – nú sat hann, sennilega á einhverjum beddaræfli, fyrir innan rimlana, berleggjaður á hvítum slopp innan um dúfurnar sínar og lætur vel að þeim. Guð minn góður, það hálf þyrmir yfir mann. Ég vona að hann sé ekki sá einstæðingur sem hann virðist vera – vona að hann eigi einhvers staðar fjölskyldu og vini – kannski er hann einn af farandverkamönnunum sem dvelja í borginni. Allavega veður eitthvað svo augljóst hvað maður sjálfur hefur það gott – eiginlega óhugnanlega gott.

Klukkan hálf sjö hittist hópurinn í andyrinu til að fara í kvöldmatinn sem var ágætur – en þó ósköp líkur síðustu kvöld- og hádegisverðum :)

Í kvöld gekk svo hluti hópsins ásamt Magnúsi fararstjóra í göngugötuna hér í bæ. Þar var mannhaf og ósköp gott að vera ekki einn á ferð. Sérstaklega var traust af hópnum þegar við smokruðum okkur í gegnum markað sem var í einni af þröngu hliðargötunum. Úff, þar var hreinlega stappa – maður við mann og við útlendingarnir stungum ansi mikið í stúf og áttum einhvern veginn ekki alveg heima þarna.

Þegar heim á Holiday Inn hotelið var komið fórum við aðeins á netið en því miður var enginn póstur frá strákunum. Ég treysti því að engar fréttir séu góðar fréttir og að þeir séu bara að njóta þess að vera saman án okkar gamla settsins.

IMG_4448Jæja, núna er klukkan orðin hálf ellefu og dagurinn orðinn ansi langur. Það er því tímabært að halla sér. Rúmin eru reyndar ansi hörð þó allt annað hér sé hreinn lúxus – en vonandi sofum við vært þessa einu nótt sem við dveljum hér svo við verðum vel upplögð á morgun í langri rútuferð – næsti næturstaður verður svo skipið sem við munum sigla með upp Yangtse-fljót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá! Æðislegt! Takk, takk, takk.
Takk fyrir að fá þessa frábæru hugmynd um að fara til Kína.
Takk fyrir að bjóða okkur að koma með til að upplifa þetta mikla ævintýri.
Takk fyrir að setja dagbókina þína hérna inn, svo maður geti fengið að upplifa þetta allt saman með þér aftur. Það er svo gott að lesa þetta og endurlifa þannig þetta frábæra land. Jákvæðar minningar! Það er nú málið
Ég ætti kannski að fara að dusta rykið af minni dagbók.
Get bara hreinlega ekki beðið eftir að nýjum færslum frá þér.

Kveðja, Beta

P.s. Má ekki annars líka færa athugasemdir af gömlu síðunni yfir á þessa?

Elísabet Grettisdóttir (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 14:24

2 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Æi, jú það er svo gaman að fá viðbrögð - sérstaklega þegar þau eru svona jákvæð og gefandi :)

Ingibjörg Margrét , 16.2.2007 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband