Færsluflokkur: Bloggar

Hér er...

... auðvitað konudagur alla daga, eins og vinir og kunningjar vita, enda hefur minn elskulegur tekið yfir í eldhúsinu, góðu heilli InLove en auðvitað vakti hann spúsu sína með ljúffengum morgunverði í morgun. Og ég get sagt ykkur að á þessu heimili er það mun verðmætara en blómvöndur því þessi elska tekur út við að kaupa afskorin blóm - bara til þess að láta þau deyja í fallegum vasa Cool.

Að lokum smá persónulegar fréttir: Á morgun fer ég að máta heyrnartæki Smile - alla malla - hve gamall er maður að verða Whistling


Hnoð að handan

Já, ljúfur laugardagur að kveldi kominn. Fór í nudd til Jónu minnar í morgun til að láta nudda úr mér þreytu og streitu sem hefur setið fullmikið í mér þessa vikuna.

Ég mætti í fyrsta sinn til Jónu á nýja staðinn en hún var að flytja stofuna sína og er nú nágranni sálarrannsóknarfélagsins. Og það get ég svarið ykkur að ég er ekki frá því að hún hafi fegnið liðsauka að handan við að hnoða mína aumu vöðva. Allavega fór ég heim mjúk og slök og hef átt ljúfan dag í félagsskap feðganna minna, Sveins og Bangsa og svo Harrys Potters. Flottur félagsskapur!


Vísukorn

Ég skal vera þíðan þín

þegar allt er frosið,

sólin hún er systir mín

segir litla brosið 

 _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Hvar sem lítið kærleikskorn

kann að festa rætur

þar fer enginn út í horn

einmana og gætur

 

Þessar fallegu vísur, sem margir munu víst kannast við þó ég hafi aldrei heyrt þær áður, munu vera eftir föður einnar samstarfskonu minnar. Óskaplega fallegar vísur sem ég ætla að syngja við barnabörnin mín ef og þegar ég verð amma.


Skrýtinn bloggari

Já, það er nú það. Særún setur í athugsemdir hér að neðan að ég hefði átt að tengja bloggið mitt við moggavefinn til að fleiri sæju það en ég er svo skrýtin að mér finnst eitthvert öryggi í því að ekkert alltof margir séu að lesa þetta pár mitt.

Sumum bloggurum finnst eftirsóknarvert að fá sem flest innlit yfir daginn en mér finnst voða gott að þekkja nokkurn veginn minn lesendahóp. Innlitin til mín eru svona á bilinu 10 - 20 flesta daga og það finnst mér bara góð tala og ég tel mig vita svona nokkurn veginn hvaða mannskapur það er sem lítur hérna inn (og finnst voða gaman þegar mín bíður athugasemd við færslurnar).

Þetta er auðvitað hálfgerð bilun þ.e. að vera að skrifa á veraldarvefinn en vilja samt halda heimsóknum innan einhverra ákveðinna marka. Það er bara svo að fyrir mér er blogg bara ein samskiptaleið af mörgum og flest af því sem ég skrifa set ég niður með vini og kunningja í huga því mér finnst sjálfri svo gaman að fylgjast örlítið með þeim sem ég kannast við í gegnum bloggið.

Ég vildi bara að fleiri bættust í hópinn. Draumur minn er t.d. að Beta, Birna, Gúddý, Carola, Heiða, Gróa og Stínurnar mínar bæði mágkona og vinkona kæmu sér upp bloggsíðum svo ég gæti fylgst betur með þeim en ég geri í dag. 

Og nú hef ég opinberað þennan draum minn - og svei mér þá ef draumar mínir hafa ekki bara tilhneigingu til að rætast Wink 


Sjá...

... nýja skoðanakönnun hér til hliðar.

Fyrirlestraskór og fleira góðra frétta.

Ein enn annasöm en skemmtileg vika á enda og kjörið að skella inn nokkrum línum á meðan bóndinn mallar nautakjöt í rjómasveppasósu ofan í fraukuna sína.

Þetta hefur eiginlega verið alveg óskaplega fræðileg vika, ef það má orða það svo. Við Reynisholtsstöllur vorum með fyrirlestra um okkar góða leikskólastarf bæði á mánudags- og þriðjudagskvöld. Fyrst fyrir foreldrahópinn okkar og svo fyrir Bugðuskólana fjóra og ég held að ég skrökvi engu þegar ég segi að við höfum hlotið góðan hljómgrunn Smile Enda ekki annað hægt þegar maður er að tala fyrir umhyggju og vellíðan í náms- og vinnuumhverfi. Nú og svo var hringt í okkur frá 24 stundum og þar fengum við þessa fínu umfjöllun sem finna má hér með því að skrolla niður á blaðsíðu 21.

Nú svo græddi ég nýja skó vegna þessara fyrirlestra Whistling. Ætlaði á þriðjudagskvöld að skarta mínum ágætu hanskaskinnsskóm sem ég LÉT Nennna minn gefa mér fyrir einum fjórum eða fimm árum og hafa sannarlega staðið fyrir sínu hingað til, en komst þá að því að á þeim var stórt gat! Obbobobb.. ekki mætir maður nú til að messa yfir 70 manns í þrjá klukkutíma á götóttum skóm! Algerlega augljóst að mannskapurinn hefur alltof langan tíma til að mæla mann út og leita að hnökrum.  Mín varð þess vegna að halda messuna á skóm sem eru bara ekki alveg nógu smart og huggulegir fyrir svona uppákomu en arkaði daginn eftir niður í Glæsibæ og fjárfesti í þessum líka gasalega fínu fyrirlestraskóm. Svo ef þið viljið fyrirlestur þá ábyrgist ég allavega að skótauið verður boðlegt Wink

 Nú svo var auðvitað leikskólaráðsfundur og ráðsmenn stóðu sig voða vel í stólaleiknum. Allir fundu nýju stólana sína eftir síðustu sviptingar í borgarmálunum - enda um vant fólk að ræða.

Ég heimsótti svo Ólaf blessaðan háls, nef og eyrna og fékk þann úrskurð, sem ég svo sem vissi, að heyrnin væri afleit á hægra eyra og að sú heyrnarskerðing yrði varanleg. Svo nú er bara að prófa hvort heyrnartæki geti eitthvað hjálpað sem er ekki víst þar sem vinstra eyrað er sem betur fer í sæmilegu standi - nú og ef heyrnartækið gagnast ekki þá verður mannskapurinn bara að venjast nýja kjæknum mínum, sem er að skjóta vinstri hliðinni framan í viðmælendur mína. 

Annars stendur það uppúr í vikunni að erfið aðgerð sem kær kórsystir fór í á miðvikudag gekk eins og best verður á kosið og hetjan sú er aftur orðin söm við sig sem gleðigjafi númer eitt, tvö og þrjú. 


Ég er Susan

Tók prófið: Which Housewife Are You? og ég mun vera Susan!

Ég hef reyndar bara horft á þessa þætti tvisvar eða þrisvar og veit ekki alveg hvort þetta er góð útkoma í prófinu en var sátt við þetta: 

You always mean well, but somehow things don´t always work out as you´d planned. It doesn´t matter. You take your tumbles with good grace and always come up smiling. But try to remember you´re the grown-up in your family.

 Endilega prófið þið: http://abc.go.com/primetime/desperate/index?pn=qui


Helgarblogg

Jæja, þá hefur janúar runnið sitt skeið á ógnarhraða og þrenningin bollu-, sprengi, og öskudagur banka uppá alltof snemma. 

Nú, Sveinn og miðlungurinn brugðu sér í jöklaferð um helgina og við Bangsi minn höfum notað daginn í að baksa við að hylja loksins rauða litinn sem einkennt hefur eldhús/borðstofuvegginn hér á heimilinu í alltof mörg ár. Núna tekur á móti manni ljós, mildur og hlýr tónn sem heitir víst sand í málningarbæklingum. Voða mikill munur og borðstofan stækkaði held ég bara um eitt númer, sem er mjög æskilegt þegar maður er borðstofa.

Nú og svo var ég í gærkvöldi með mína kæru trukka (sem vilja ekki að vera trukkar heldur þykjast vera blúndur) í mat og huggulegheitum. Það var kínverskt þema hjá okkur því sökum anna (hehemm) lét ég þá hjá Nings bara sjá um matseldina. Nú með því fékk ég líka tækifæri til að nota matprjónana mína góðu frá Kínaferðinni.   Mikið skelfing sem mér finnst annars vænt um þessar vinkonur mínar og hvað við eigum alltaf góðar stundir saman. Takk stelpur mínar fyrir að vera nákvæmlega eins og þið eruð InLove

Nú annars ætla ég bara að nota helgina í  Himnaríki og helvíti en hún er næst í röðinni af jólabókunum. Sýnist textinn vera algert konfekt og hlakka til að sökkva mér í hana á morgun, svona meðfram bollubakstrinum. Hef annars bara náð að torga þó nokkrum bókum frá jólum og hef notið þeirra allra. Arnaldur var fyrstur og stóð alveg undir væntingum enda ávallt áreynslulaus og flæðandi lesning og akkúrat það sem ég þurfti yfir jóladagana. Nú svo tóku Þúsund bjartar sólir við og hún ætti nú bara að vera skyldulesning. Næst var það Afleggjarinn hennar Auðar Ólafs sem kom mér skemmtilega á óvart og nú er ég ákveðin í að lesa Rigningu í nóvember sem ég hef ekki komið í verk að lesa þrátt fyrir að hún hafi staðið hér í hillu frá síðustu jólum (eða kannski þar síðustu?). Jæja, svo kláraði ég Bíbí Vigdísar Gríms og hafði bara gaman af, þ.e.a.s. ef maður getur orðað það þannig, finnst eiginlega ótrúlegt að samtímafólk manns búi yfir svona bakgrunni og lífshlaupi. Nú, svo hafa Leyndarmálið og Þú ert það sem þú hugsar legið á náttborðinu frá jólum ásamt Vinamóti Bergþórs Pálssonar og það hefur verið fínt að glugga í þær svona inn á milli. Sé samt að ég á langt í land með að verða sá gestgjafi, nú eða gestur, sem hann svili minn mælir með Blush.


Af dún og dásemdum

Annars er mér svo sem sama um allar flensur enda myndi ekki væsa um mig í bælinu. Fór nefnilega í gær og fjárfesti í nýrri dúnsæng - Snjógæsadúnn mun það vera. Fislétt og dásamleg.

Ástandið í svefnherberginu var farið að líkjast gömlu sjónvarpsauglýsingunni, sem allir sem komnir eru til vits og ára muna eftir, einum of mikið. Dúnninn úti um allt ef mín svo mikið sem snéri sér í bælinu, enda hin 19 ára gamla dúnsæng orðin ansi lúin og hefur síðustu vikur fengið þá sérmeðferð að  vera sett í tvö sængurver til að reyna að sporna við dúndrífunni. Svo mín brá sér í Dún og fiður, reyndar ekki á Vatnstíg 3, heldur niðri á Laugavegi og fékk sér bara eina nýja. Og þvílíkur munur!


Nema hvað??

Í leikskólanum, í dag, bjuggum við okkur til hatta sem við ætlum að skarta á föstudaginn á þorrablótinu okkar og auðvitað skreytti hver og einn sinn hatt.

Ég dró m.a. upp einfalda mynd af víkingahjálmi með horn og alles á minn hatt og sagði: Ég ætla að teikna hjálm á minn hatt af því að í gamla, gamla daga voru til víkingar sem voru með hjálma.

Þá sagði hann Daníel vinur minn Maríuson að bragði: Já, þegar þeir voru að hjóla! Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband