Færsluflokkur: Bloggar

Obbobobb

Árið bara þýtur áfram með fjölbreyttum verkefnum og skemmtunum og lofar sannarlega góðu skal ég segja ykkur. Ég ætla nú samt að gefa mér tíma af og til, til að pikka hér inn svona einhver brot af því besta Smile og nú er góður tími. Ég sit reyndar hér, afar þakklát fyrir samskiptatækni nútímans - að þessu sinni NMT símann - og hef í dag reynt að fylgjast með ferðum þeirra feðga Sveins og Gunnars, ásamt Gunnari hennar Betu minnar, sem sitja í 18 jeppa halarófu á Langjökli og hafa gert frá því í gær. Ferðinni var heitið yfir jökul og á Hveravelli í gær en færðin og veðrið hefur verið alveg glórulaust svo einhvern tíma í nótt, held ég, var snúið við og haldið til baka og bílalestin mjakast áfram á tæplega gönguhraða svo kapparnir búast ekki við að komast til byggða fyrr en í fyrramálið. 

Ég hafði í raun ætlað með í þessa ferð en var forðað frá því þegar boðskort um fimmtugsafmæli, sem ég endilega vildi sitja, barst inn um lúguna í upphafi árs. Reyndar er það annað fimmtugsafmælið sem ég fer í á þessu ári en eiginmenn okkar vinkvenna hamast nú við að fylla fimmta tuginn - og þvílík afmæli!! Ég held að ég hafi bara sjaldan skemmt mér eins vel - enda afmælisbörnin svo grand á því að bjóða gestum sínum upp á skemmtidagskrá sem sæmt hefði árshátíð hvaða stórfyrirtækis sem er.  

Diddi, vinur minn til 30 ára og eiginmaður minnar dásamlegu vinkonu, Birnu, bauð sínum gestum upp á ekkert minna en dansleik með hljómsveitinni Mannakorn. Og þvílík stemning! Kappinn á auðvitað heiðurinn af því að hafa spilað þessi lög og sungið þau með okkur vinum sínum í öll þessi ár og þarna var samankominn 100 manna fanklúbbur. Nú og auðvitað söng afmælisbarnið með þeim nánast allt kvöldið. Það stóð reyndar bara til að hann tæki eitt eða tvö lög en þegar kapparnir sáu og heyrðu að afmælisbarnið kunni lögin og textana ekkert verr en þeir sjálfir og var í ofanálag hörkusöngvari þá stóðust þeir ekki sjálfir mátið að láta hann bara halda áfram.  Og stemningin var þvílík að hafi einhver verið haldinn einhverjum hömlum þegar hann mætti á svæðið þá voru þær hömlur víðsfjarri þegar leið á kvöldið.

Nú og hitt fimmtugsafmælið var ekki síðra, enda biðu þar skemmtikraftar í röðum baksviðs. Þar komu m.a. fram snillingar eins og Magni sem hreif hjörtu allra kvenkosta í veislunni og svo sá óborganlegi drengur Björgvin Frans. Þvílíkur snillingur sem sá drengur er.

Nú og þrátt fyrir nokkra flensudaga í bælinu hefur vinnuárið farið af stað með þvílíku trukki s.s. frumraun minni í námskeiðshaldi, fundahöldum, sjónvarpsupptöku, flensumanneklu og dásamlegri samveru með þessum frábæru börnum sem eru í Reynisholti. Finn það alltaf best þegar ég þarf að leysa mikið af inni á deild hvað mér þykir óskaplega vænt um þessar frábæru litlu mannverur sem eru svo einlægar, opnar og skemmtilegar. Vildi bara að við gætum tekið mikið meira mið af þörfum þeirra svo þær fengju notið ennþá, ennþá betra atlætis en þær gera í dag. 

Ég vil gjarnan hafa þau í leikskólanum en þau þarfnast mikið meiri samveru með foreldrum sínum.  Það er eitthvað ekki rétt í skipulaginu og forgangsröðinni þegar yfir 90% lítilla barna er í 8 eða 9 klukkutíma á hverjum degi fjarri sínum nánustu. Ég vil vissulega faðma þau og umvefja, kenna þeim mun á réttu og röngu, leggja þeim línurnar um hvað hefur gildi í lífinu, gefa þeim margbreytileg tækifæri til að þróa samskiptafærni sína og upplifa gleðina við að uppgötva nýja þekkingu og færni, það hef ég valið mér að ævistarfi - en ég er farin að efast stórlega um að sú umgjörð sem þeim er sköpuð í þessa 8 og 9 klukkustundir sé þeim holl. Það er allt í lagi að vera í yfir 20 barna hópi í 4, 5 eða jafnvel 6 klukkustundir á dag - en í 8 eða 9 klukkustundir er bara ekki boðlegt litlum börnum! 

Ohhh... ég gæti haldið áfram endalaust með þessa umræðu og það sem við í Reynisholti erum að reyna að þróa til að milda þetta háværa, erilsama umhverfi og það sem við erum að gera til að allt skólastarfið einkennist af umhyggju fyrir þessum litlu skjólstæðingum okkar, en læt þetta nægja í bili.

Nú svo er auðvitað allt farið að rúlla: Létturnar, saumaklúbburinn, jógað og svo bættum við hjón stafgöngum tvisvar í viku inn í prógramið svo það er nóg að gera. Gaman, gaman.

Alla malla - hér er mál að linni - ætlaði að skrifa tvær. þrjár línur en hef greinilega verið orðin illa haldin af bloggskorti. 

Þangað til næst, yfir og út! 

 

 

 


2008

Jæja, góðir hálsar - þá er það runnið upp!

Árið sem ég verð svo dugleg. Árið sem heimilið verður alltaf svo snyrtilegt, allt á sínum stað, alltaf sett jafnóðum í uppþvottavélina, óhreinataukarfan aldrei nema hálffull, allt samanbrotið í skápunum og aldrei föt á gólfinu.

Árið sem mun einkennast af daglegum dásamlegum samverustundum með fjölskyldunni við spjall, spil og útiveru. Árið sem ég mun helga vinum og ættingjum. Árið sem góðvild og hjálpsemi mun gegnsýra allt mitt atferli.

Árið sem ég mun helga mig lestri fræði- og fagurbókmennta sem munu gera mig bæði fróða og góða og mikið hæfari í vinnunni en nú er. Árið sem mun skipta sköpum fyrir mig sem fagmanneskju, já og sem manneskju svona almennt!

Árið þegar ég verð mjó! Þegar gönguferðir og jógaástundum verða daglegt brauð og svei mér þá ef sundferðir komast ekki líka á dagskrá. Árið sem ég hætti að borða súkkulaði og sætabrauð en sný mér alfarið að næringarríkri hollustu sem ég mun þó neyta í miklu hófi. 

 Já, get svo svarið ykkur það að þetta verður geggjað ár og svo verður karlinn fimmtugur, frumburðurinn 25 og miðlungurinn 20 - er þetta ekki magnað?

Já, dásamlegt ár framundan. Mikið hlakka ég til.

Óska ykkur öllum líka gleðilegs árs og friðar!


Sameiginlegir hæfileikar

Ótrúlegt hvað maður getur gleymt á milli ára. Við vorum öll með það á hreinu, stórfjölskyldan að árlegt jólaboð sem skiptist á þessa þrjá fjölskylduleggi væri í höndum Jóns Steinars og Kristínar þetta árið - alveg þangað til korteri fyrir jól. Þá fóru að koma einhverjir bakþankar í minn gamla haus og ég fór að fletta upp í gömlum dagbókum - og viti menn það stóð sko upp á mig að halda þetta jólaboð en ekki þau mætu hjón bróður minn og mágkonu. Nú það er auðvitað ekki mikið mál að halda boð þegar gestirnir koma með allar veitingarnar með sér og í dag var hér samankominn föngulegur fjörutíu manna hópur yfir glæsilegum veitingum. 

Mikið sem þau mamma og pabbi hefðu verið stolt af þessum ungahópi sínum. Það er eiginlega ótrúlegt hvað þetta er fjölmennur hópur. Við vorum ekki nema þrjú syskinin sem komumst til fullorðinsára en samt erum við, þegar allt er talið saman, börn, makar og allur pakkinn, 51 manneskja og von á tveimur börnum nú á nýju ári. Og minn leggur telur ekki nema 6 manns Blush svo það sýnir hvað bræðraleggirnir mínir eru öflugir.

Einn hæfileika eigum við þessi systkini og börn okkar þó algerlega sameiginlegan og það er að velja okkur flotta maka. Þar er nefnilega einvala lið og greinilegt að nýjustu eintökin í þeim hópi standa hinum ekkert á sporði. Enda krefst það alveg sérstakra eiginleika að giftast inn í þessa fjölskyldu Whistling


Miðlungurinn minn...

... í nýju lopapeysunni sem móðurómyndin hans afrekaði að prjóna á hann fyrir jólin.

20071225-27-jóladagar 056


Verð að segja...

... að ég er pínulítið móðguð út í smáfuglana. Þeir hafa bara ekki litið við þessum girnilegu tólgarhringjum mínum sem ég hengdi út í tré í rauðum jólaborða. Sveinn segir reyndar að þetta sýni hvað þeir séu skynsamir því það væri ávísun á kransæðastíflu að narta í þetta fuglakorn sem sökkt hefur verið í tólg og feiti.

Ég játaði mig auðvitað sigraða og setti út ómengað fuglakorn í morgun og viti menn hér hefur verið fjölmennt - eða öllu heldur fjölfuglað í dag. Ég hef notið þess að fylgjast með út um gluggann um leið og ég hef unnið að undirbúningi svolítils námskeiðs sem ég verð með í mínum gamla góða leikskóla, Fífuborg þann þriðja í nýári.


Jóladagur

Umm. rumska snemma og gjóa augunum á klukkuna. Man: Jóladagur! Umm, sný mér á hina hliðina og sofna aftur. Rumska aftur - man enn að það er jóladagur - horfi smá stund upp í stjörnubjartan himininn á milli rimlagluggatjaldanna og nýt þess svo að loka augunum enn á ný - steinsofna.

Vakna og lít á klukkuna: Hálf tíu! Hvenær eiginlega svaf ég síðast til kl. hálf tíu? Fæ skyldubundið samviskubit rétt nokkur sekúndubrot á meðan ég átta mig á að eina skyldverkið sem bíður mín er að draga fánann að húni.

Sé þegar ég kem fram og laumast út í frostið og alhvíta jörð að orðspor okkar hjóna sem yfirflaggara hverfisins hefur ekki beðið skipsbrot. Nágrannarnir steinsofa enn. 

Eyði megninu af deginum í félagsskap spennandi karlpenings. Heitt súkkulaði, kræsingar og skemmtilegt spjall með eiginmanni og sonum - en megnið af deginum undir sæng með Erlendi Whistling Átti þá ósk heitasta að í einhverjum jólapakkanum leyndist spennandi lesning og auðvitað rættist sú ósk og nú mun ég aðstoða Erlend við að leysa spennandi sakamál í nótt eða á morgun.

Gærkvöldið auðvitað yndislegt og eftir því sem mér skilst fjölskyldan meira og minna í mynd í sjónvarpsútsendingu frá aftansöng í Grafarvogskirkju,  minna kirkjuræknum löndum okkar til fyrirmyndar Halo

En nú er það hangikjötið og konunni ekki til bloggsetunnar boðið. Set að lokum inn þessa fjölskyldumynd sem tekin var við jólatréð í gær.

  


Minning

Lítil stúlka sendur í sparikjólnum sínum á ganginum í lítilli kjallaraíbúð. Hún er full eftirvæntingar og tilhlökkunar, enda jólin á næsta leiti. Það er lokað inn í stofu og hefur verið í allan dag. Hún fær ekki að ganga inn í þann helgidóm fyrr en rétt áður en kirkjuklukkurnar í útvarpinu hringja jólin inn.

            Allan daginn hefur hún skottast á ganginum. Mamma sýslar í eldhúsinu við að elda jólagæsina og möndlugrautinn. Frændur og vinir hafa bankað upp á af og til með pakka og annað hvort pabbi eða stóri bróðir hafa smeygt sér inn í stofu til að koma þeim fyrir undir jólatrénu. Hún passar sig að kíkja ekki inn enda er það forboðið. Henni verður hleypt inn á réttu andartaki.

            Og svo rennur það upp og pabbi, mamma og stóri bróðir fylgjast með hvað hún verður undrandi og heltekinn hátíðleikanum sem umvefur litlu niðurgröfnu stofuna. Það er rökkvað inni, aðeins logar á kertaljósum og jólatrénu. Já, auðvitað jólatrénu. Á litlu rauðgrenistré sem komið hefur verið fyrir á pappakassa þöktum bómull, lýsa hvítar kertaperur svo glampar á kúlur og skraut og bjarma slær á gjafirnar undir trénu. Dýrðin fangar barnshugann. 

Framundan er yndislegt kvöld; hátíð sem hún skilur að er haldin af því að einu sinni fæddist drengur sem seinna varð svo góður við alla menn að um gervallan heim halda menn upp á fæðingardag hans með því að gera allt svo undurfallegt, vera saman og gleðja hvert annað með gjöfum.

Rúmum fjörutíu árum seinna finnur hún enn fyrir helgi jólanna. Það er hún sjálf sem hefur skreytt jólatréð að þessu sinni en samt er ljómi þess sá sami. Þó tréð standi ekki á uppi á kassa núna þá er það sem fyrr lítið rauðgreni. Ekki af því að hún hafi ekki efni á dýrara tré og ekki af því að henni finnist ekki innfluttu jólatrén falleg og ekki af því að henni finnist gaman að ryksuga upp barrnálar þegar líða fer á jólahátíðina. Nei, hún hefur valið litla rauðgrenið í minningu bernskujólanna. 

Gleðileg jól!


Þorláksmessa

Jæja, þá er Þorláksmessa runnin upp og ég sit hérna við gluggann og horfist í augu við fullt tunglið sem berar sig á dimmum himninum, beint yfir þeim stað sem friðarsúlan er á kvöldin. Svolítið eins og það segi: Ég er hérna enn - hvar er þessi ljósspíra nú sem derrar sig á mínum himni?

Og húsið svo fullt af matvælum að hér mætti opna útibú frá Bónus. Ótrúlegt magn sem ég hef áætlað ofan í þessa sex einstaklinga sem hér búa - reyndar fjórir stæltir karlmenn sem taka hraustlega til matar síns og þó annar kvenkosturinn sé ekki þurftamikill þá getur hinn gúffað í sig af áfergju þegar því er að skipta. Ég rogaðist með innkaupapokana hér inn í gær - í það minnsta einn á hvern fjölskyldumeðlim - og þar sem ég burðaðist með rjóma og kræsingar, sem sigu hressilega í, hugsaði ég - Guð minn góður, ætli þetta sé sá skammtur sem ég kem til með að bæta á mig um jólin - úfff...

Úr því að almættið var svo rausnarlegt að sella á okkur svolitlu frosti og snjóföl fyrir þá sem byggja sína jólastemningu á því, útbjó ég í gær fuglakornshring sem nú hangir í rauðum borða á trjágrein úti í garði. Minna má það ekki vera, fyrir blessaða smáfuglana, fyrir utan hús sem er við það að springa utan af matvælunum.

Þórhildi Helgu finnst ég sparsöm að befa ykkur ekki uppskriftina að nostalgíu-kökunni minni góðu - og auðvitað deili ég henni með ykkur og vona að þið lærið að njóta hennar eins og við á þessum bænum:

Jólakaka - Súkkulaðikaka með smjörkremi 

3 egg

125 gr smjörlíki (ég nota alltaf smjör)

180 gr sykur

2 dl mjólk

250 gr hveiti

1 tsk vanilla

1/2 tsk kanill

2 tsk lyftiduft

80 gr suðusúkkulaði (má líka nota 50 gr kakó hrært út í heitri mjólk - en það gerir maður auðvitað ekki - súkkulaði skal það vera)

 

Leysið súkkulaðið upp í heitir mjólkinni og látið svo kólna - þetta er sett síðast út í deigið.

Þeyta egg og sykur vel saman. Lina smjörlíkið og hræra með þurrefnunum út í.

Bakað í formkökuformi við 175°C í ca klukkustund

 

Smjörkrem:

U.þ.b. 150 gr smjör í skál, flórsykur og eggjarauða 

Allt hrært saman.

 

Kakan er skorin eftir endilöngu í nokkrar sneiðar. Sett saman með vænu lagi af smjörkremi á milli.

að lokum hjúpuð með súkkulaðiglassúr: Flórsykur, kakó og sjóðandi vatn. 

 


Jæja...

...þá er afmælishrinana að baki og ekki morgunverðarpartý hér, löngu fyrir fyrsta hanagal, aftur fyrr en að 8 og ½ mánuði liðnum. 

Þar sem ég átti svolítið orlof inni hef ég átt þess kost að taka mér svolítið frí núna í desember, þegar skólastúlkurnar okkar sem verið hafa í hlutavinnu hafa dottið inn í fulla vinnu í jólafríinu sínu. Dásamlegt. Var í fríi á mánudag og á frí í dag.  Skrapp reyndar á mánudaginn á svolítinn hátíðarfund hjá leikskóla- og menntaráði, en það var meira afþreyging en vinna. 

Þangað kom Freyja Haraldsdóttir ásamt Ölmu til að kynna bókina sína Postulín. Mikið sem hún hafði sterk áhrif á mig þessi unga kona. Hún er sannarlega í miklum og ólýsanlegum fjötrum líkamlega en hugur hennar er laus við fjötra sem við mörg burðumst með. Hún er greinilega skarpgreind og með svo skýra sýn á lífið og tilveruna og forgangsröðun í menntun og lífsgildum að það hreif mann með sér. Þó að við getum ekki losað hana undan hennar líkamlegu fjötrum þá getur hún örugglega losað okkur undan okkar andlegu. Takk, Freyja fyrir frábæra kynningu og umræður. 

Á þennan fund kom líka Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor með kynningu á bókinni sinni: Virðing og umhyggja – ákall 21. aldarinnar. Ótrúlega spennandi rit sem fjallar um það sem mér er hugleiknast um þessar mundir í skólastarfi. Kannski gef ég mér einhvern tíman tíma til að blogga svolítið um hugrenningar mínar um þessi mál. 

Það er reyndar svo margt um leikskólamál sem mig langar að skrifa um en gef mér aldrei tíma til. Læt alltaf eftir mér að hamra á þetta lyklaborð án þess að ígrunda mikið það sem hér fer inn en vil ekki skrifa um leikskólamál með þeim hætti. Þar vil ég vanda betur til verksins og það verður til þess að ég set ekkert niður. – skollinn, ég sé það núna að það er ekki nógu gott – kannski endurskoða ég þetta. 

Jæja, en nóg um þetta í bili. Framundan dásamlegur frídagur til að hnýta þá fáu lausu enda sem enn eru eftir í jólaundirbúningnum. Hér kúra jólagjafir í ýmsum skúmaskotum og kökudallar með einum fimm smákökusortum í hillum (sem nb. ég hef ekki bakað allar). Á mánudaginn bakaði ég svo nostalgíukökuna hennar mömmu í þremur eintökum, enda verður hún jólakveðjan mín til fjölskyldna bræðra minna þessi jólin eins og þau síðustu (uss ekki segja frá). Mínir synir umla af ánægju þegar þessi kaka er bökuð enda finnst þeim, eins og mér, hún ómissandi hluti jólahaldsins. Þetta er formkaka þar sem blandast saman á dásamlegan hátt súkkulaði og kanill, smurð í lögum með smjörkremi og hjúpuð með súkkulaðiglassúr. 

Nú og svo sér fyrir endann á ofurlitlu handverki sem kemur til með að verma jólapakka eins fjölskyldumeðlimsins og svo kropp hans eftir jólin Whistling

Já, jólin eru dásamlegur tími og þó að óneitanlega sé yndislegt að hafa froststillur og snjóföl þá skiptir veðrið mig engu máli. Fyrir mér eru jólin nefnilega hugarfar.


Og þá...

... er það hann Grámann minn í Garðshorni sem er afmælisbarn dagsins.
SB
 
Til hamingju, gamli minn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband