Færsluflokkur: Bloggar
Í tilefni mæðradags
11.5.2008 | 14:42
Tvær skarpgreindar konur, dugnaðarforkar og ömmur barnanna minna.
Ég sakna þeirra beggja en mikið ótrúlega voru þær samt ólíkir persónuleikar.
Blessuð sé minning þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gleðilegt sumar...
24.4.2008 | 15:38
...kæru vinir og vandamenn. Já og þvílíkt sumar framundan Berlín, ný vinna, Grísku eyjarnar, skýrslugerð og og og...
Hér á bæ er kellan annars að verða klár fyrir tónleika kvöldsins. Hlakka mikið til enda tókust tónleikarnir á þriðjudaginn með afbrigðum vel og Léttur eru léttar í lund sem aldrei fyrr.
Nú svo bíður Berlín á morgun .
Hér getið þið skoðað lítið myndbrot úr Léttsveitarmyndinni góðu um Ítalíuferðina 2004
Jamm, góðir Léttsveitardagar framundan - en hvert framhald verður á þessari bloggsíðu er hins vegar ekki alveg ljóst - læt málið í nefnd.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Speki
4.4.2008 | 18:30
Það er ekki af því að eitthvað er erfitt sem við þorum ekki.
Það er af því að við þorum ekki sem eitthvað er erfitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bland í poka af bestu gerð
24.3.2008 | 18:59
Ótrúlega notalegt að hafa svona hátíðir með vissu millibili - og alveg bráðnauðsynlegt.
Við hjónakornin áttum flotta ferð norður, mikið sofið (bæði á Tindastóli og KEA) en þó enn meira keyrt og landslagið rifjað upp. Nutum gestrisni og eðal eldamennsku hjá þeim Heiðu og Lúlla og áttum með þeim notalegt skírdagskvöld sem átti flottan endi á Fló á skinni.
Höfðum gaman að því að rifja upp tjaldbúskap okkar við Sauðána í Ólafsfjarðarmúla, hér um árið, þegar Sveinn vann við jarðfræðiathuganir í Múlanum og ég fékk starf sem hans sérlegi mælingamaður. Bjuggum þá í tveimur tjöldum til að spara dagpeningana til íbúðakaupa og klifum Múlann fram og til baka. Nenni með grjótsýnishorn í níðþungri skjóðu og ég með mælinn til að mæla hæð þar sem einu jarðlagi lauk og annað tók við. Allt skráð skilmerkilega svo Nenni gæti spáð fyrir um það sem biði gangamanna þegar göngin yrðu gerð. Og sögur herma að drengurinn hafi sagt býsna nákvæmlega til um það sem mætti mönnum þegar kom að því að sprenga sig í gegn. Þessari tjaldbúð okkar lauk reyndar skyndilega eftir úrhellis rigningu einn daginn. Við höfðum lokast inni á Ólafsfirði vegna skriðufalla í Múlanum og komumst ekki í tjöldin fyrr en daginn eftir - og þá beið okkar heldur bágborið ástand. Svefntjaldið var svo sem sæmilega þurrt en gamla birgðartjaldið með trésúlunum hafði brotnað undan vatnsveðrinu og öll fötin okkar voru gegnsósa af vatni. Man t.d. að í tjaldinu voru pottur og vaskafat sem hvoru tveggja voru hálf full af vatni. Aðkoman var slík að það var ekkert annað að gera en að vinda mesta vatnið úr fötunum - binda utan um ferðatöskuna og koma sér með fyrsta flugi suður.
En núna lék veðrið við okkur og færðin hin besta nema á skírdagsmorgun yfir Öxnadalsheiðina - þann spotta lulluðum við á hálfgerðum gönguhraða enda blinda skafrenningur og maður prísaði sig sælan ef maður sá næstu vegstiku um leið og maður kom að þeirri næstu á undan. En allt gekk þetta snurðulaust.
Ég mæli líka með báðum hótelunum. Tindastóll á Króknum - hrikalega krúttlegt og vel uppgert - gamli stíllinn er hlýlegur og hótelið heimilislegt. KEA flott líka og mikill lúxus - það eina sem mér fannst óviðkunnanlegt þar var fólkið sem leyfði sér að mæta á náttfötunum til morgunverðar. Verð að segja alveg eins og er að mér finnst það bara ekki passa.
Svo var voða gaman að heimsækja hin fjölmörgu pláss fyrir norðan s.s. Siglufjörð og Skagaströnd auk þess sem við nutum þess að hossast á okkar fjallabíl inn Laxárdalinn, eins langt og við komumst og ganga þaðan að bæjarrústunum á Kirkjuskarði þar sem amma og afi Sveins bjuggu, áður en þau fluttu á Krókinn, og þar sem Lolla fæddist.
Best af öllu við svona ferðir er samt alltaf að koma heim og það gerðum við á laugardaginn og höfum átt notalega páskahelgi með ungunum okkar. Gunnar lá reyndar sárlasinn með yfir 39 stiga hita þegar við komum heim en það kom ekki í veg fyrir að fjölskyldan nyti páskalærisins, páskaeggjanna og samverunnar. Núna er Katrín blessunin líka lögst í flensu og ég segi að það sé kossaflens(a) því hvað á það að þýða að vera að kyssast og faðmast þegar annað er með flensu? Það getur ekki farið nema á einn veg en þetta er ungt og ástfangið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Konan...
19.3.2008 | 15:53
... komin í páskafrí og farin í dekurferð með bóndanum norður yfir heiðar - og ómegðin bara skilin eftir eftirlitslaus í kotinu.
Gleðilega páska, ljósin mín. Borðið nú vel af páskaeggjum og verið góð hvert við annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hve smart er maður?
16.3.2008 | 09:10
Kona fer á árshátíð. Hún er búin að blása hárið, farða andlitið og komin í árshátíðardressið. Bara sátt við útlitið, aldrei þessu vant.
Þá er bara að setja það nauðsynlegasta í spariveskið. Já, auðvitað lykla svo hún komist inn í nótt, kortin svo hún geti fengið sér rauðvín með matnum og kannski skroppið á barinn, svo er það púðrið og varalituinn svo hún geti flikkað upp á útlitið á milli rétta og dansa.
Og þá er það komið, eða hvað... nei, eitt gleymdist... BOXIÐ UNDIR HEYRNARTÆKIÐ!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur..
13.3.2008 | 19:52
.. og tilhugsunin um breytingar framundan rétt farnar að síast inn fyrir þykka skelina - en engan veginn komnar alveg í gegn
Til að upplýsa ykkur þá snýst málið um það að ég sótti um stöðu leikskólaráðgjafa við Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. Það munu hafa verið sjö umsækjendur um stöðuna og ég var boðuð í viðtal kl. 10 í gærmorgun. Nú það er skemmst frá því að segja að seinni partinn fékk ég svo símhringingu þar sem mér var boðið starfið.
Þetta gerðist allt svo hratt að ég er ekki búin að átta mig á því. Í dag er ég allt í senn: Auðmjúk, þakklát, undrandi, tregafull, spennt og full tilhlökkunar. Það verður samt ótrúlega skrýtið að hverfa frá Reynisholti og því frábæra starfi og starfsfólki sem þar er. Sem betur fer á ég eftir að ljúka þar þróunarverkefninu og skrifa lokaskýrslu svo ég verð þar með annan fótinn áfram næstu mánuði - og vonandi mun ég aldrei slíta alveg þau tengsl og þær taugar sem ég ber til Reynisholts - til þess hefur tíminn þar verið mér alltof dýrmætur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagar...
12.3.2008 | 22:14
... eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér hefur alltaf fundist þeir góðir dagar - miðbik vikunnar og styttist í helgina - auk þess sem ég átti tvo eldri strákana mína á miðvikudegi.
Og þessi miðvikudagur 12. mars 2008 verður lengi í minnum hafður. Viðburðaríkur dagur sem fékk eftirminnilegan endi og fær þann sess að verða vendipunktur í mínu lífi
Segi ykkur betur frá þessu seinna - þarf sjálf aðeins að átta mig á stöðunni fyrst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggleti
8.3.2008 | 16:48
Ég er haldin mikilli bloggleti þessa dagana og nenni hreinlega ekki að pikka inn nokkurn hlut um allt það skemmtilega og spennandi sem þó er að gerast í lífi mínu - jafnt vinnu- sem einkalífi.
Sjáum hvort Eyjólfur fer ekki að hressast hvað úr hverju - en þangað til: Hlé - vegna bloggleti!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dásamleg niðurstaða í mátun heyrnartækis
25.2.2008 | 17:05
Já, ég fór sem sagt, eins og til stóð til að máta heyrnartæki í morgun og fékk þessa dásamlegu niðurstöðu! Nefnilega þá að ég er með svo fallega hlust!!!! Ég endurtek: FALLEGA HLUST!
"Já, er það", sagði ég eins og afglapi við blessaða konuna eftir að hún hafði troðið leir í eyrað á mér til að taka mót af hlustinni, "ég hef víst ekkert vit á slíku". "Nei", sagði hún og brosti í kampinn "en þetta er svolítil stúdía hér hjá okkur sem vinnum við þetta og þín er mjög falleg".
Þetta breytir náttúrulega öllu og réttlætir algerlega að maður kaupi sér 180 þúsund króna heyrnartæki - ég meina maður setur ekki ódýrt drasl í svona fallega hlust - það segir sig sjálft.
En einhver bið verður víst á að ég fái tæki lánað til að prófa þar sem blessaður maðurinn sem smíðar stykkið í hlustina er í tveggja vikna fríi. Annars staðfesti þessi heimsókn, eins og þær fyrri, bara það sem ég vissi. Afleit heyrn - dottin niður um 60 desibel (liggur á bilinu 40 og niður í 80 á línuritinu). Og svo mun það víst vera svo að Tryggingastofnun tekur ekki þátt í kostnaði nema hitt eyrað sé slæmt líka. Mér finnst það auðvitað hundfúlt en tek svo sem góða heyrn á öðru eyra fram yfir niðurgreiðslu frá Ríkinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)