Bland í poka af bestu gerð

Ótrúlega notalegt að hafa svona hátíðir með vissu millibili - og alveg bráðnauðsynlegt.

Við hjónakornin áttum flotta ferð norður, mikið sofið (bæði á Tindastóli og KEA) en þó enn meira keyrt og landslagið rifjað upp. Nutum gestrisni og eðal eldamennsku hjá þeim Heiðu og Lúlla og áttum með þeim notalegt skírdagskvöld sem átti flottan endi á Fló á skinni. 

 

Höfðum gaman að því að rifja upp tjaldbúskap okkar við Sauðána í Ólafsfjarðarmúla, hér um árið, þegar Sveinn vann við jarðfræðiathuganir í Múlanum og ég fékk starf sem hans sérlegi mælingamaður. Bjuggum þá í tveimur tjöldum til að spara dagpeningana til íbúðakaupa og klifum Múlann fram og til baka. Nenni með grjótsýnishorn í níðþungri skjóðu og ég með mælinn til að mæla hæð þar sem einu jarðlagi lauk og annað tók við. Allt skráð skilmerkilega svo Nenni gæti spáð fyrir um það sem biði gangamanna þegar göngin yrðu gerð. Og sögur herma að drengurinn hafi sagt býsna nákvæmlega til um það sem mætti mönnum þegar kom að því að sprenga sig í gegn.  Þessari tjaldbúð okkar lauk reyndar skyndilega eftir úrhellis rigningu einn daginn. Við höfðum lokast inni á Ólafsfirði vegna skriðufalla í Múlanum og komumst ekki í tjöldin fyrr en daginn eftir - og þá beið okkar heldur bágborið ástand. Svefntjaldið var svo sem sæmilega þurrt en gamla birgðartjaldið með trésúlunum hafði brotnað undan vatnsveðrinu og öll fötin okkar voru gegnsósa af vatni. Man t.d. að í tjaldinu voru pottur og vaskafat sem hvoru tveggja voru hálf full af vatni. Aðkoman var slík að það var ekkert annað að gera en að vinda mesta vatnið úr fötunum - binda utan um ferðatöskuna og koma sér með fyrsta flugi suður.

En núna lék veðrið við okkur og færðin hin besta nema á skírdagsmorgun yfir Öxnadalsheiðina - þann spotta lulluðum við á hálfgerðum gönguhraða enda blinda skafrenningur og maður prísaði sig sælan ef maður sá næstu vegstiku um leið og maður kom að þeirri næstu á undan.  En allt gekk þetta snurðulaust.

Ég mæli líka með báðum hótelunum. Tindastóll á Króknum - hrikalega krúttlegt og vel uppgert - gamli stíllinn er hlýlegur og hótelið heimilislegt. KEA flott líka og mikill lúxus - það eina sem mér fannst óviðkunnanlegt þar var fólkið sem leyfði sér að mæta á náttfötunum til morgunverðar.  Verð að segja alveg eins og er að mér finnst það bara ekki passa.

  

Sveinn á bæjarrústunum á KirkjuskarðiSvo var voða gaman að heimsækja hin fjölmörgu pláss fyrir norðan s.s. Siglufjörð og Skagaströnd auk þess sem við nutum þess að hossast á okkar fjallabíl inn Laxárdalinn, eins langt og við komumst og ganga þaðan að bæjarrústunum á Kirkjuskarði þar sem amma og afi Sveins bjuggu, áður en þau fluttu á Krókinn,  og þar sem Lolla fæddist.

Best af öllu við svona ferðir er samt alltaf að koma heim og það gerðum við á laugardaginn og höfum átt notalega páskahelgi með ungunum okkar. Gunnar lá reyndar sárlasinn með yfir 39 stiga hita þegar við komum heim en það kom ekki í veg fyrir að fjölskyldan nyti páskalærisins, páskaeggjanna og samverunnar. Núna er Katrín blessunin líka lögst í flensu og ég segi að það sé kossaflens(a) því hvað á það að þýða að vera að kyssast og faðmast þegar annað er með flensu? Það getur ekki farið nema á einn veg GetLost en þetta er ungt og ástfangið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Reykjalín

Greinilega vel heppnuð ferð hjá ykkur..

 Við Katrín höfum ákveðið að gera smá tilraun á þessu. Þegar ég verð frískur þá ætla ég að knúsa og kyssa hana villt og galið og sjá hvort að henni takist ekki að smita mig á móti. Þannig gæti þetta orðið langvarandi sjúkdómur. *Snýt*

G. Reykjalín, 24.3.2008 kl. 19:45

2 identicon

Gott að þið eruð komin heim heil og sæl með ferðina.

Vissirðu ekki að nú ganga allir sem eitthvað eru að pæla í tískunni í náttbuxum daginn út og daginn inn. Það er svo þæginlegt að þurfa ekki að hátta sig á kvöldin. haha

Knús Grettla.

Grettla (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 21:51

3 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Og þekkir þú semsagt Lúlla og Heiðu ?   Ég líka...............

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 24.3.2008 kl. 23:47

4 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Það var auðvitað, Þórhildur mín, þið þekkist auðvitað öll í þessum "litlu" plássum   Heiða hefur verið vinkona okkar hjóna til fjölmargra ára og við höfum ýmislegt brallað saman í gegnum tíðina, skal ég segja þér. Nú Lúlla erum við óðum að kynnast og hlökkum satt að segja til að styrkja þau kynni í framtíðinni.

Ingibjörg Margrét , 25.3.2008 kl. 18:30

5 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Lúlli og Bogi maðurinn minn voru vinnufélagar í den og síðan aftur í fyrra.  Þá kynntist ég Heiðu. Lúlli er frændi hans Alberts sem við þekkjum báðar ekki satt !!! ;)

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 25.3.2008 kl. 19:27

6 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Ja, hvað hann er smár þessi heimur - við þekkjumst alltaf öll fyrir rest.

Gaman að þessu. 

Ingibjörg Margrét , 25.3.2008 kl. 22:27

7 identicon

Já þetta er flottur kokteill, skemmtilegt hve þræðir liggja víða. En kæra vinkona kærar þakkir fyrir frábæra samveru á skírdag. Betur kveðjur til Þórhildar líka........

Heiða (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 11:57

8 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Takk sömuleiðis Heiða mín - verst hvað það er langt á milli okkar - annars gætum við haft svona skírdaga mikið oftar En mikið þætti mér nú gott að fá uppskriftina að andabringunni sem ekki gat ákveðið hvort hún vildi vera inni í ofninum eða úti á borði

Ingibjörg Margrét , 26.3.2008 kl. 20:40

9 identicon

Ekki málið mín kæra, kemur bráðlega

Heiða (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband