Færsluflokkur: Bloggar
Spjátrungar og burðardýr
3.8.2007 | 15:27
Gunnar Ingi hefur gaman af því að stilla upp í myndatökur og nær oft ansi skemmtilegum sjónarhornum. Þessa kostulegu mynd tók hann af bísperrtum foreldrum sínum og aðframkomnum burðardýrunum á síðasta göngudegi ferðarinnar.
Bloggar | Breytt 5.8.2007 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18. september 2006 – Beijing
19.7.2007 | 07:55
Við komum til Peking kl. 7.00 í morgun. Nóttin hafði verið ágæt þó maður hafi auðvitað vaknað öðru hvoru við þessar óvenjulegu aðstæður, lestarskrölt og hristing en náði því alltaf að sofna aftur. Rúmin voru reyndar ansi hörð og mjaðmirnar aumar þrátt fyrir ágæta bólstrun. Einhvern tíma í nótt reyndi ég að gera jóga-rúllur fyrir hrygginn í rúminu en það gekk nú ekki vel enda mikil þrengsli og niðamyrkur. Ég vaknaði svo hálf sex og í kjölfarið restin af ferðafélögunum.
Lestarstöðin í Peking er sú stærsta í Asíu og sú næststærsta í heimi. Borgin sjálf; borgin í norðri; Beijing (Bei merkir norður og jing merkir borgin) er heldur engin smásmíði því hún nær yfir 17000 ferkílómetra svæði og hýsir 16 milljónir íbúa, 2,5 milljónir bifreiða og ógrynni reiðhjóla sem sjá má þekja stór hjólastæði víðsvegar. Mikil uppbygging er í fullum gangi fyrir Ólympíuleikana sem hér verða haldnir 2008. Við keyrum m.a. Götu hins langa friðar en á 10 ára fresti er hér mikil hersýning. Magnús fræðir okkur um ýmislegt varðandi siði og lifnaðarhætti borgarbúa og eitt af því sem okkur finnst skondið er að hvenær sem er dagsins heilsast þeir með því að spyrja: Ertu búinn að borða? þetta er þeirra klisja líkt og við segjum: Hvað segirðu? án þess svo sem að búast endilega við svari.
Hitastigið svona snemma morguns er 20 gráður svo allar líkur eru á að það fari í eða yfir 30 gráðurnar í dag úff, eins gott að gera vatninu góð skil en á dagskránni þennan daginn var að skoða Torg hins himneska friðar og Forboðnu borgina.
Torg hins himneska friðar
Þetta sögufræga torg er geysilega stórt eða 800 m á breidd og 500 á lengd og í nánd eru Höll alþýðunnar, Kínverska sögusafnið og minningarhús um Maó þar sem kallinn er stundum til sýnis.
Á torginu var auðvitað múgur og margmenni og sölufólk og betlarar sem vildu hafa sitt út úr ferðalöngunum. Við fikruðum okkur yfir torgið andaktug yfir allri þeirri sögu sem hér talaði til okkar og rifjaðist upp. Umhverfið er vissulega kunnuglegt vegna allra fréttamyndanna sem héðan hafa verið sýndar. Mannlífið er líka alltaf áhugavert og þarna urðum við vitni að því að barn var látið pissa á mitt hellulagt torgið æ, já þetta er ekki svo 'nauið'.
Forboðna borgin
Hitinn var skolli mikill að sjá mátti fólk safnast í hópa hvar sem finna mátti smá skugga jafnvel í skugga fánanna sem blöktu við hún. Við fjárfestum í forláta basthöttum og fikruðum okkur yfir torgið í gegnum Hlið hins himneska friðar og inn í Forboðnu borgina. Nokkur aðalhúsin voru sveipuð tjöldum þar sem verið var að gera við þau en samt var mjög magnað að koma á þennan stað og sannarlega margt að skoða enda telur forboðna borgin 9999 herbergi skolli keisaraleg tala það. Hér eru heljarstór hellulögð torg og Magnús segir okkur að hellurnar séu í 15 lögum sem hvert lag liggur þvert á það næsta fyrir neðan. Þetta var gert til að ekki væri hægt að grafa sig undir og upp í Forboðnu borgina. Þarna eru heldur engin tré vegna hættu á að ræturnar skemmdu út frá sér. Húsin eru auðvitað öll úr timbri og því nokkur hætta á að eldur gæti grandað þeim og því má víða sjá stór gyllt ker eða potta sem í var vatn að grípa til ef slökkva þurfti elda. Auðvitað gat vatnið frosið á vetrum en þeir dóu ekki ráðalausir blessaðir því undir pottunum er holrými þar sem eldi var haldið lifandi til að koma í veg fyrir að vatnið frysi. Svolítið fyndin mótsögn að halda eldinum við í því skyni að halda uppi eldvörnum
Inni í þessu ´virki´ bjó svo keisarinn ásamt sinni keisaraynju, hjákonum og geldingum. Einn keisari gat átt allt að 1000 hjákonur og í allri þessari merkilegu sögu verða mér örlög þeirra hugleiknust, því þrátt fyrir snotran bakgarð sem þær gátu dvalið í hefur þetta verið mikil ánauð eða það virðist manni í dag þó að það muni hafa verið talin upphefð að hljóta hlutskipti hjákonunnar eða geldingsins í hinni forboðnu borg.
Frá borginni höldum við svo aftur á vit nútímans snæðum á matsölustað og förum þaðan á aðalverslunargötu Peking. Við Sveinn þræddum nokkrar búðir og m.a. keypti ég mér þarna Pumaskó á um 1400 kr. íslenskar já, það er ekki einleikið hvað maður er alltaf að græða mikið ;) Hitinn var kominn yfir 32°C og satt að segja vorum við alveg að kafna. Meira að segja Elísabetu var heitt og þá er nú mikið sagt.
Um völundarhús Wutong
Eftir verslunarferðina fórum við síðan í gamalt kínverskt hverfi, Wutong sem mun reyndar vera heiti þeirra húsbygginga sem þar er að finna fremur en hverfisins. Húsin eru lítil og lágreist, enda mátti enginn byggja hærra en keisarinn. Göturnar eru þröngar og líkastar völundarhúsi. Þarna fórum við á hjólavagna og litlir Kínverjar hjóluðu með okkur um þessi öngstræti. Við Sveinn sátum auðvitað saman á hjólavagninum og hjálpi mér hamingjan hvað ég skammaðist mín fyrir öll aukakílóin sem aumingja maðurinn varð nú að halast með í eftirdragi. En áfram fórum við í halarófu hinna vagnanna og ekki hefði ég getað unnið mér það til lífs að rata aftur út úr þessu hverfi hjálparlaust. Það vantaði ekki að allan tímann fylgdi hópnum sölufólk með Lolexúrin góðu, töskur, klúta og ýmsan annan varning og satt að segja var það ansi aðgangshart svona á köflum.
Tvisvar var gert smá stopp á hjólatúrnum, í fyrra skiptið til að skoða heimili Kínverja. Þar komum við fyrst inn í húsagarð í miðjunni en í kringum hann bjuggu fimm fjölskyldur og skyndilega var eins og ég væri stödd í einni af bókunum hennar Pearl S. Buck sem við Beta drukkum í okkur hér á árum áður og gerast hér í Kína.
Einn heimilisfaðirinn bauð okkur síðan inn, skenkti öllum te og bauð upp á rósarblöð að narta í og þó ótrúlegt sé voru þau mjög góð á bragðið. Hann sýndi okkur líka heimilisdýrin sem voru annars vegar tvær engisprettur sem hann hafði í litlu búri til að skapa sveitastemningu hér í miðri borginni og hins vegar bjalla sem hann geymdi í krukku með loki en ég varð aldrei svo fræg að fá að sjá hana. Eftir veitingarnar fengum við að skoða húsakyni sem voru bara nokkuð góð held ég á kínverskan mælikvarða. Allavega hafði þessi fjölskylda sitt eigið klósett sem mér skilst að sé nokkuð gott. Að heimsókninni lokinni fórum við á hjólin aftur og nú var haldið að gamalli hurð þar sem við fengum margvíslega fræðslu um slíkan inngang á heimili og satt að segja fannst mér sá pistill lítið spennandi og flest að því sem þar kom fram fór fyrir ofan garð og neðan. Til greina hafði komið að leyfa okkur að skoða barnaheimili þarna í hverfinu en þegar til kom var það ekki hægt. Það voru mér mikil vonbrigði og satt að segja lök skipti að fá í staðinn fyrirlestur um þennan inngang
En eftir að hjólakarlarnir höfðu skilað okkur aftur að rútunni og hrifsað til sín þjórféð með ólundarsvip, þrátt fyrir að það hafi verið býsna vel úti látið, héldum við svo heim á hótel þar sem við borðuðum kvöldverðinn að þessu sinni. Síðan fórum við Sveinn beint upp á herbergi og létum líða úr okkur enda Sveinn hálfslappur. Kallinn fékk örugglega snert af sólsting í hitanum í dag, já, 32 gráður með glampandi sólina ofan í hausinn, geta orðið ansi heitar. Sérstaklega þegar menn drekka ekki mikið vatn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17. september – frá slori til fornminja
18.7.2007 | 11:42
Við fórum snemma á fætur í morgun og kláruðum að pakka, en nú þurfti að hafa eitthvert skipulag á farangrinum þar sem við fáum ekki töskurnar aftur fyrr en á hótelinu í Peking á morgun. Töskurnar sem Bin gaf okkur koma því að góðum notum undir það sem við þurfum að hafa meðferðis í lestinni sem verður næturstaður okkar næstu nótt.
Þegar töskurnar voru klárar fórum við út og fylgdumst með mannlífinu vakna þennan sunnudagsmorgun. Það var ekki enn búið að opna búðirnar en götusóparar voru að mættir til vinnu og smám saman vaknaði borgin og erillinn tók við. Handan við götuna sem hótelið okkar stóð við var matarmarkaður sem við ætluðum að kíkja á og við röltum um göturnar þangað til hann opnaði. Og það var sannarlega þess virði að bíða eftir því. Það var hreinlega ótrúleg sjón. Þarna eins og jafnan á mörkuðum ægði öllu saman; kjöti, sjávarfangi og grænmeti. Og hér hrópaði menningarmunurinn á mann úr hverjum sölubás. Fólkið stóð við að skera kjöt á trébrettum og í alls kyns kössum voru lifandi froskar, krabbar, skjaldbökur og fiskur (Ég set hér eina mynd af því sem var á boðstólum en fleiri sýnishorn er að finna í albúminu). Flísalögð stéttin var auðvitað hræðilega slorug og ég sá eftir því að hafa ekki farið í betri skó en sandalana mína góðu, reyndi bara að stíga varlega til jarðar og gætti þess að sletta ekki slorinu upp á mjóaleggi. Steininn tók þó úr þegar lítill pjakkur, á að giska 4 5 ára tók sig til og sprændi ofan í allt saman í göngubraut kúnnanna. Ég hélt auðvitað andlitinu - eða vona það í það minnsta - þar sem ekki var að sjá að nokkrum manni þætti þetta tiltöku mál. Allamalla ef til eru bakteríur þá voru þær þarna! Viðskiptavinirnir þukluðu hrátt kjötið með berum lúkunum, áður en þeir áttu viðskiptin og þarna var sannarlega úrval af alls kyns kjötvöru allt frá andahöfðum sem horfðu á mann þar sem þeim var raðað hlið við hlið á heilu borðin til heilla kiðlinga. Jamm og já, það víkkar sannarlega sjóndeildarhringinn að hleypa heimdraganum öðru hverju.
Kennslustund
En stóri viðburðurinn í dag er að skoða Terracottaherinn og nú var kominn tími til að koma sér í rútuna. Tíminn í rútunni var nýttur vel og nú fengum við langþráða kennslustund í hinum kínversku leturtáknum. Það er verst að geta ekki sett hér inn allar glósurnar frá þessari kennslustund en í örfáum orðum kom þetta m.a. fram: Til eru allt að 7000 ára gömul tákn en táknin sem núna eru notuð eiga sér 5000 ára gamlan grunn. Fyrir rúmlega 2000 árum lét fyrsti keisari Kína gera sameiginlegt ritmál sem enn er notað að mestu óbreytt. Táknin hafa ekkert með framburð að gera en eru þrenns konar: 1. Tákn sem standa nálægt upprunanum t.d. grunnstef í náttúrunni s.s. tré, sól, tungl og maður. 2. Hluti af tákninu hefur eitthvað með hlutinn að gera, þannig er táknið tré hluti af tákninu fyrir byggingu úr tré, hjarta hluti tákns fyrir ákveðna tilfinningu og þrír punktar ef táknið stendur fyrir eitthvað tengt vatni. 3. Tákn þar sem ekki er hægt að sjá neina tengingu við það sem það merkir.
Kínversk tákn mun hins vegar vera einfalt að skrifa þar sem þau byggja á tíu mismunandi strikum sem púslað er saman.
Kínverska talmálið hefur fjóra megin tóna og því getur sama orðið haft fjórar mismunandi merkingar eftir því hvernig það er sagt. Það er erfitt að lýsa þessum tónum í skrifuðu máli en ég ætla samt að reyna: Fyrsti er sama tóninum haldið tiltölulega ofarlega beinn tónn. Annar byrjar niðri en hækkar upp /. Þriðja framburðar einkennið byrjar uppi en fer niður í bylgju og aftur upp. Það fjórða er stuttur tónn. Þannig getur orðið ma þýtt mamma með fyrsta framburðinum, hör með nr. 2, hestur nr 3 og blóta nr. 4.
Nú við fengum auðvitað örkennslu í framburði nokkurra orða og t.d. er Ísland borið fram Bing daá og góðan dag er ní há. Nú Beta vildi auðvitað ólm vita hvernig föðursystir er á kínversku til að geta ávarpað frænku sína á virðulegan hátt en fannst ekki slæmt að fá að vita að það væri da gú gú sem þýðir í raun stóra frænka. Bróðurdóttir en hins vegar ekki alveg eins fyndið fyrir mörlandann og mun erfiðara í framburði en stafsetningin tcunju kemst sennilega næst því.
Terracotta
En þá var komið að því að skoða þennan merka forleifafund Terracottaherinn sem fannst 1974 þegar bóndi var að grafa grunn og kom niður á leirhöfuð. Um er að ræða gröf keisara sem var uppi fyrir um 2400 árum en leirherinn átti að fylgja honum eftir að hann hyrfi á vit nýrrar tilveru að jarðvist lokinni. Talið er að hann hafi ekki náð að ljúka verkinu því grafin hafa verið upp hólf þar sem ekkert er að finna en þó telur herinn 6000 leirkalla og yfir 1000 aðra hluti s.s. hesta og vagna. Hver karl er einstakur bæði höfuð og búkur eða klæðnaður. Það er ótrúlegt að skoða þetta undur og enn og aftur stendur maður agndofa frammi fyrir vitnisburði um öll þau handverk sem þurfa að koma til við svona vinnu. Það kom einnig fram að á sama tíma var þessi keisari að láta reisa Kínamúrinn svo þeir sem ekki voru á hans vegum við þá iðju hafa samt haft nóg að gera hér
Hitinn er ansi mikill í dag og fólk orðið þreytt í lok dags en allir kláruðu samt að skoða allt safnið og er það vel af sér vikið af þeim fótafúnu í hópnum. Það var auðvitað spenna í mannskapnum að komast í næturlestina og þegar þetta er skrifað erum við skriðin í koju eftir að hafa fengið okkur einn bjór í veitingavagninum fyrir svefninn. Það kemur svo bara í ljós hve mikill svefninn verður framundan bíður allavega Peking með múrnum mikla, Peking-öndinni, Forboðnuborginni og Torgi hins himneska friðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16. september í Xi´an
3.4.2007 | 18:52
The great wild goose pagoda
Það var greinilegt að borgin var vöknuð til lífsins þegar við litum út um hótelgluggann áður en við héldum á vit ævintýra dagsins. Fyrst á dagskránni var að skoða The great wild goose pagoda en þar er klaustur. Það var auðvitað margt forvitnilegt að sjá og við forvitinn lýðurinn vorum svolítið eins og gluggagægjar kíkjandi á munka og nunnur í kennslustund en þau létu okkur auðvitað ekki hagga ró sinni og einbeitingu. Við Sveinn töltum upp í pagoduna og nutum útsýnisins yfir borgina í allar áttir. Eftir að niður var komið keypti ég geisladisk með samsöng munkanna og við Beta stóðumst ekki fallega blævængi með kínverskum myndum (sjá mynd í albúmi) og hugsuðum með tilhlökkun til þess að geta fengið örlítinn andvara þegar hitinn verður kæfandi (Reyndar held ég að Betu verði aldrei sérlega heitt og er farin að hallast að því að hún hafi fæðst í röngum heimshluta).
Næst höfðum við viðkomu í verslun eða verkstæði þar sem ýmsir fallegir munir voru unnir úr jade-steininum. Við fylgdumst með konum vinna listmuni úr steininum auk þess sem þarna var stúlka sem vann við hreint ótrúlegan myndvefnað. Ég er hrædd um að tíu þumalfingurnir mínir og takmörkuð þolinmæðin myndu henta illa í þessa vinnu.
Eftir þetta stopp, þar sem buddan mín fékk að hvíla kyrr í töskunni á meðan buddur sumra samferðarmannanna voru brúkaðar af slíkum krafti að manni stóð hreinlega ekki á sama, héldum við leið okkar áfram til næsta áfangastaðar sem var matsölustaður. Leið okkar lá um þröngar götur og útimarkaði sem voru í hrópandi mótsögn við fallegan matsölustaðinn sem beið okkar. Sá var staðsettur í mjög fallegum garði við fallegt vatn. Eftir matinn höfðum við tíma til að ganga þarna um og njóta umhverfisins og það var ekki fjarri því að manni fyndist maður vera staddur í austurlensku rómantísku ævintýri.
Borgarmúrinn
Næst lá leið okkar á borgarmúrinn sem er ótrúlegt mannvirki þó ég geri ráð fyrir að Kínamúrinn verði mun stórfenglegri. Við gerðum þar stuttan stans og fylgdumst með litskrúðugu mannlífinu af múrnum s.s. mönnum við tafl undir múrveggnum, deilu vegna áreksturs reiðhjóls og bifreiðar og manni sem hvíldist á hjólavagninum sínum og lét ekki eril stórborgarinnar hagga ró sinni
Múslimahverfið
Næst á dagskránni var að heimsækja múslimahverfið hér í borg og moskuna þeirra. Þeir Magnús og Bin höfðu af því nokkrar áhyggjur að þeir myndu týna mannskapnum í þeirri för og lögðu á það ríka áherslu að annar þeirra færi fremstur en hinn aftastur. Síðan lagði hópurinn í hann um öngstræti þessa hverfis og ÓMG það var ekki vanþörf á að passa upp á liðið. Þarna þræddum við markaðsgötur sem sumar hverjar voru svo þröngar að það var rétt svo að hægt væri að mætast þar. Eins og venjan er á slíkum mörkuðum var auðvitað hver kaupmaðurinn ofan í öðrum og þarna ægði hreinlega öllu saman, bæði matvöru og glingri og af og til sló klóakstækjunni fyrir vitin út úr einhverjum hliðaröngstrætum. Það virtist ekkert trufla mannskapinn sem þarna aflaði sér salts í grautinn en við stormuðum í gegn á eftir íslenska fánanum hans Magnúsar og rétt gjóuðum augunum á varninginn því eins og oft áður var ætlast til að öll innkaup biðu þar til í bakaleiðinni.
Ég þekki ekki moskur og hef ekkert viðmið til að meta hvort moskan þeirra hérna er hefðbundin eða ekki, en Magnús segir okkur að svo sé í raun ekki, heldur beri hún mörg merki kínversku hofanna. Eftir stuttan stans í moskunni héldum við til baka út í hringiðu götulífsins með skýr fyrirmæli um hvar þeir Magnús og Bin yrðu staðsettir og hvar og hvenær hópurinn ætti svo að safnast saman. Það er auðvitað merki um ótrúlegan molbúahátt en við svona aðstæður er eins og ég fari hreinlega í lás. Rétt gjóa augunum á það sem til sölu er en fæ mig asskotann ekki til að sýna neinu áhuga. Endaði reyndar á að kaupa fallegt matprjónasett sem Beta benti mér á ekki af því að ég svo sem ætlaði það heldur vegna þess að blessuð sölukonan lækkaði sig og lækkaði, án þess að ég sýndi nokkurn áhuga var bara að reyna að potast í burtu í þvögunni en keypti sem sagt þessa fallegu matprjóna þegar konan var farin að bjóða mér þá á 40 y. Það var einhvern veginn ekki hægt að láta þá ókeypta svona í ljósi þess að ég var ákveðin í að ná mér í svona verkfæri áður en ferðin yrði á enda og þarna kostuðu þeir hreinlega ekki neitt og í svona skolli fallegum kassa.
Samferðafólk mitt var ekki eins heft í kaupmennskunni og margir hurfu inn í bakherbergi og skúmaskot til að skoða þvílíkt úrval úra og annarra gersema. Og auðvitað fór það svo að allir fundu eitthvað við sitt hæfi og sýndu hinum afraksturinn glaðir þegar haldið var til baka upp á hótel með rútunni.
Leikhús
Fyrir kvöldmatinn hafði verið ákveðið að bjóða þeim sem áhuga hefðu á upp á leikshúsferð þar sem boðið var upp á hefðbundna kínverska tónlist og dansa. Við Sveinn létum okkur auðvitað ekki vanta þar og sáum ekki eftir því. Sýningin var stórglæsileg og mikið augna- og eyrnakonfekt.
Dumplings
Að sýningunni lokinni voru þeir sóttir sem ekki höfðu haft áhuga á leikhúsinu og haldið til allsérstæðs kvöldverðar Uppistaða þess sem hér var á boðstólum voru hveitikökur (dumplings), með fyllingum, sem mótaðar höfðu verið á ýmsan hátt eftir því hvers eðlis fyllingin var. Magnús reyndi samt að fullvissa okkur um að ekki væru notaðir froskar í kökurnar sem þannig voru mótaðar en hvað vitum við svo sem
Allavega voru þær alveg ágætar á bragðið og okkur varð ekki meint af. Þessari máltíð fylgdi skemmtileg saga um keisaraynju sem kom til borgarinnar og þáði þar málsverð sem kokkarnir útbjuggu á þennan hátt og sú gamla kolféll fyrir.
Í lok máltíðarinnar var settur heljarinnar pottur á mitt borðið og kveikt undir. Í pottinum var súpa sem í voru settar nokkrar litlar hveitikökuhnappar og síðan ausið á diskana. Það hafði svo ákveðinn boðskap hvort maður fékk hveitihnapp á sinn disk. Ein þýddi góða heimferð, tvær góða heilsu, þrjár langlífi, fjórar auð og fimm góða uppskeru.Ég fékk auðvitað enga en Beta mín sópaði til sín kökunum (fékk örugglega fimm) sem áttu þá að tryggja henni allt þetta.
Eftir þessa skemmtilegu máltíð héldum við svo aftur heim á hótel og áður en skriðið var í rúmin náðum við inn í nokkrar þrælgóðar búðir og keyptum nokkra boli og peysur á strákana. Það er heljarinnar upplifelsi að versla í þessum búðum því fyrirkomulagið er allt annað en heima. Þegar ljóst var að við ætluðum að kaupa eitthvað upphófust köll á milli afgreiðslufólksins um alla búð og skyndilega voru allir á þönum í kringum okkur. Kannski er ekki alvanalegt að fólk komi inn og kaupi eina fjóra, fimm boli eða peysur á einu bretti en ég held þó að þetta hafi verið einhvers konar skipulagsatriði þar sem einn sýndi, annar náði í inn á lager og sá þriðji tók við greiðslu. Allavega upplifði maður sig ákaflega mikilvægan, og ekki var hægt að kvarta yfir því að afgreiðsluna vantaði
En nú er langur dagur að kveldi kominn og annar ekki síðri bíður okkar á morgun svo mál er að linni að sinni.
Bloggar | Breytt 6.4.2007 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15. september. Chongqing - Xi´an
4.3.2007 | 21:15
Í nótt um klukkan þrjú lögðumst við að pramma í borginni Chongqing. Þetta virtist vera óttlegur ryðkláfur og við rétt vöknuðum til að loka glugganum, draga fyrir og njóta þess að hverfa svo aftur inn í draumalandið.
Við morgunverðinn fréttum við það að þetta væri heimaborg saumakonunnar okkar, margumtöluðu, og að hún hefði snemma í morgun látið senda eftir mynd, sambærilegri þeirri sem við keyptum, heim til sín, fyrir góðan samferðamann sem ekki hafði getað hætt að hugsa um myndina góðu. Mikið er ég fegin, ég var komin með hálfgert samviskubit yfir þessu myndamáli öllu saman.
Við yfirgáfum skipið og fikruðum okkur langa leið eftir prömmum til lands og alla leiðina stóð áhöfnin til að kveðja okkur og gæta þess að við færum okkur ekki á voða svo lengi sem þau bæru ábyrgð á okkur.
Chongqing-borg stendur í miklum halla og ólíkt því sem við höfum séð í öðrum borgum er hér nánast enginn á hjóli. Mannmergðin er hins vegar sú saman enda erum við hérna í fjölmennasta sveitarfélagi heims en það telur 50 milljónir manna. Verslun og viðskipti eru æði skrautleg og meðfram götunum standa litlar verslunar- og veitingaskonsur; sjá má kjötkaupmenn höggva kjötið úti á götu og matsölustaði með eldunaraðstöðu úti og kannski tvö lítil borð fyrir gesti fyrir innan. Auk þessa er greinilega marvíslegur iðnaður stundaður hér.
Ferð okkar er heitið í Er-ling garðinn sem stendur hátt og þaðan má sjá yfir borgina, þ.e.a.s. ef ekki er eins mikið mistur og í dag. Í garðinum var nokkuð um fólk með lítil börn. Ég hef enn ekkert fjallað um börnin í Kína og þó eru það þau og aðbúnaður þeirra sem ég hef mestan áhuga á.
Börnin
Það hefur verið greinilegt, hvar sem við höfum komið að fjöldi barna er ekki í nokkru samræmi við fólksfjöldann hér. Það er auðvitað vegna einsbarnsstefnunnar sem hér er enn í gildi.
Við komumst að því um borð að hárgreiðslu- og snyrtidaman þar á eitt rúmlega ársgamalt barn heima hjá sér. Í einfeldni minni spurði ég Magnús hvernig þessu væri þá háttað, hvort hún ynni þá kannski í lotum ca. tvær ferðir þ.e. fram og til baka og fengi svo frí þess á milli. Magnús taldi það mjög ólíklegt og sagði það algengt að foreldrar dveldu langan tíma fjarri börnum sínum vegna vinnu, jafnvel mánuðum saman. Börnin eru þá í vörslu ömmu og afa á meðan og við höfum svo sem séð vitni um það þ.e. fullorðið fólk á ferð með ung börn. Æ, þetta er eitthvað svo sorglegt. Að mega eignast eitt barn og fá ekki að njóta þess að ala það upp og upplifa allar framfarirnar jafnóðum og þær verða.
En við höfum séð töluvert af smábörnum og það er ótrúlega skrýtið að sjá að þau eru öll eru í buxum sem eru opnar í klofið, þ.e. að klofið vantar hreinlega í þær og ber bossinn á þeim blasir við. Það liggur í augum uppi að þetta er til þess að það sem frá þeim kemur, geti gossað beint á götuna. Við höfum nú ekki orðið vitni að slíku en ég velti fyrir mér hvort foreldrarnir beri á sér poka, svona eins og hundaeigendurnir heima. Varla! Kannski er ullabjakkinu bara sópað í göturæsin sem götusópararnir hreinsa síðan. Hér er í það minnsta nóg af götusópurum enda margir um að vinna verkin í þessu fjölmenna landi og sennilega er það lán fyrir okkur öll að þjóð sem telur 1,3 milljarða skuli ekki nota bréfbleiur jafnvel þó börnin séu fá miðað við höfðatölu.
Tehúsið
En aftur að Er-ling garðinum. Við þræddum okkur í gegnum þennan garð og að tehúsi sem ætlunin var að heimsækja. Þar fengum við kennslustund í því að hella upp á te eftir kúnstarinnar reglum s.s. hvaða hitatig ætti að vera á vatninu eftir tegundum tesins. Svo fengum við auðvitað að smakka og tilsögn í því hvernig ætti að bera bollann upp á munninum. Það voru tvær snotrar stúlkur sem sáu um kynninguna. Þær voru mjög hæverskar og á milli þeirra var greinilega mjög skýr verkaskipting. Önnur talaði en hin hellti í bolla handa gestunum. Með okkur í för var auðvitað staðarleiðsögumaður eins og alls staðar annars staðar. Þetta var ungur maður og á meðan kynningin fór fram fór hann að bæta við það sem stúlkurnar höfðu fram að færa. Þær sögðu svo sem ekki neitt við þessu blessaðar og fóru mjög vel með álit sitt á þessum unga manni en þó duldist mér ekki að framhlaup hans fór ótrúlega í taugarnar á þeim. Enda voru þær sérfræðingarnir hér en ekki hann.
Nú eftir tesmakkið og auðvitað teinnkaup héldum við áfram röltinu í gegnum garðinn og rákumst m.a. á hóp veturlandabúa sennilega Ítali með kínversk smábörn í fanginu. Allir voru með eins barnakerrur og mikil gleði var í hópnum. Hvert barn naut greinilega mikillar athygli, sungið var við þau og þeim hampað. Það var greinilegt að hér var hópur nýbakaðra foreldra með ættleidd börn sín. Það snerti mann djúpt að fylgjast með þessum hópi og mér varð hugsað til þeirra mæðgna Röggu, vinkonu minnar, og Ragnhildar sem voru í þessum sömu sporum fyrir nokkrum árum og hafa notið lífsins saman síðan.
Eftir ferðina í Er-ling garðinn, var á dagskránni að fara á markað en þar sem vegaframkvæmdir voru á markaðssvæðinu og bílstjóranum leist ekkert á það ferðalag var farið beint að borða. Að þessu sinni borðuðum við á nýtískulegum matsölustað sem stóð við lítið stöðuvatn. Við höfðum auðvitað nokkuð rúman tíma þar sem markaðsferðinni var sleppt og eftir matinn fylgdumst við með mönnum dorga við vatnið, verkamönnum ná steypustyrktarjárnum út rústum byggingar og kokkinum af matsölustaðnum tálga sér veiðistöng með kjötsaxinu. Já, já, svona er lífið í Kína vona bara að það sem við vorum að borða hafi verið vel steikt og svona
Xi´an
En nú var komið að klukkutíma flugi til gömlu höfuðborgarinnar Xi´an og eins og í fyrra innanlandsfluginu var ekkert verið að flækja hlutina heldur var með persónulegum tengslum fólks heldur var stafrófið látið ráða sætaskipan.
Í Xi´an þurfti ekki annan staðarleiðsögumann en Bin okkar enda hann á heimaslóðum hér. Umhverfi flugvallarins var mjög ólíkt því sem við höfum ferðast um síðustu daga. Hér er auðvitað mjög mikil uppbygging líkt og annars staðar en jafnframt miklar sléttur. Magnús segir okkur að svæðið sem við keyrðum um áður en við komum inn í borgina hafi byggst upp á síðustu fimm árum en áður hafi þar verið akrar bænda.
Ég var ansi syfjuð og dottaði á leiðinni á hótelið. Þetta er ekki sama hótel og gefið hafði verið upp í leiðarlýsingunni en óneitanlega mjög glæsilegt. Það heitir Hotel Royal Garden og er í hjarta og hringiðu borgarinnar. Þegar við komum á hótelið var okkur úthlutað herbergi á fjórðu hæð, það snýr út að götulífinu og þar er sannarlega margt að fylgjast með. Töskurnar okkar voru ekki komnar og stutt var í matinn svo ekki gafst tími til að fara í sturtu eða skipta um föt og innan við klukkutíma frá því að við komum inn á hótelið var haldið í rútunni út að borða. Enn var maturinn alveg fyrirtak en réttirnir eru orðnir bragðsterkari en áður og um leið betri og betri.
Á leiðinni til baka frá kvöldverðinum útbýtti Bin gjöfum á alla línuna. Annars vegar silkiklútum, einum handa hverju okkar og hins vegar einfaldri, sterkri flugfreyjutösku á hjólum til að hafa helstu nauðsynjar í þegar farið verður í næturlestina. Það er óhætt að segja að það sé hugsað fyrir hverjum hlut í þessari ferð enda er þýska ferðaskrifstofan Bavaria, sem bændaferðir skipta við, vön að skipuleggja ferðir fyrir mun kröfuharðari viðskiptavini en okkur. Við höfum svolítið gaman að því að Bin mun vera öfundaður af því af samstarfsmönnum sínum að fá að sinna Íslendingunum. Okkur fylgja víst lítil vandræði eða nöldur. Mér finnst við heldur ekki hafa yfir neinu að kvarta, allt í sambandi við þessa ferð er algerlega til fyrirmyndar.
Eftir að hafa fengið ferðatöskurnar komum við aðeins við á Business center og sendum tölvupóst á liðið heima. Síðan nutum við langþráðrar sturtunnar og skriðum svo í bólið ZZZZZZZ
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14. september - Draugaborgin
3.3.2007 | 19:21
Við nenntum ómögulega í Tha Chi í morgun, heldur snérum okkur á hina hliðina og kúrðum hálftíma lengur ég meina við erum nú í fríi, svo skítt með stífar herðar.
Við vorum nú samt mætt í morgunverðinn kl. hálf átta svo ekki var því að skipta að maður svæfi frá sér allt vit. Morgunverðurinn var hefðbundinn og þjónustufólkið allt á þönum við að þóknast okkur og spyrja hvernig okkur líkaði maturinn.
Klukkan níu var síðan farið frá borði. Þau Sveinn, Gunnar, Anna Maren og Jónas ætla að fara í hellaferð ásamt kínverskum túristum en allir aðrir í Draugaborgina sem fyrirhuguð hafði verið í okkar prógrami. Til Draugaborgarinnar var hálftíma ferð með rútu og bílstjórinn keyrði hreinlega eins og vitfirringur. Hjálpi mér, það var engu líkara en að hlutverk hans væri að klessukeyra með okkur öll, til að fjölga íbúum Draugaborgarinnar.
Þessi rútuferð lá m.a. í gegnum borg sem var mjög ólík því sem við höfum áður séð. Hún var hræðilega rykug og mikið drasl hvarvetna. Þar voru líka mjög miklar framkvæmdir í gangi, sérstaklega vegaframkvæmdir (sem hægðu þó ekkert á aksturslaginu hjá okkar manni). Ekki var að sjá að stórvirkar vinnuvélar væru mikið notaðar við þessar framkvæmdir og augljóst að hér er það fyrst og fremst mannshöndin sem vinnur verkið.
Draugaborgin
Áður en við komum inn í sjálfa Draugaborgina gengum við eftir götu þar sem sölubásarnir stóðu hlið við hlið og sölufólkið kallaði til okkar hvatningarorð um að koma og líta á varninginn. Við eitt fremsta söluborðið stóð karl og spilaði á einhverskonar þverflautu og ég var ákveðin í að stoppa hjá honum á bakaleiðinni en okkur hafði verið lofað að þá gæfist tími til að eyða einhverjum krónum undarleg árátta auðvitað að vilja alltaf vera að kaupa eitthvað.
Heimsóknin til Draugaborgarinnar var mjög skemmtileg. Ég hafði þó ekki verið betur að mér en það að ég hélt að Draugaborgin væri yfirgefin gömul kínversk borg . Sú var þó ekki raunin heldur er nafnið til komið vegna þess að þangað koma sálir framliðinna og þar þurfa menn að svara fyrir og taka afleiðingum gjörða sinna í jarðvistinni.
Við fórum með kláfi upp bratta hlíð til borgarinnar og það var ekki alveg laust við að maður fyndi til lofthræðslu í þeirri salíbundu þótt manni tækist að kreista fram bros fyrir ljósmyndara skipsins sem fylgdi okkur hvert fótmál.
Þegar inn í sjálfa Draugaborgina kom biðu okkar margvíslegar þrautir sem leysa þurfti samkvæmt kúnstarinnar reglum til að tryggja framtíð sína eða forðast ill örlög . Fyrst lá leiðin yfir bogabrú þar sem hjón áttu að ganga saman og máttu hvorki taka fleiri eða færri skref en níu. Nú þar sem minn ektamaki var fjarri góðu gamni reyndi ég að stika þetta ein samkvæmt forskrift en held að mér hafi samt tekist að klúðra þessu einfalda verkefni með einu aukaskrefi fram af brúnni .
Syndug eða syndlaus
Nú síðan lá leiðin framhjá embættismönnum sem hafa lífshlaupið allt niðurskrifað svo ekki þýðir að reyna að kjafta sig frá fornum yfirsjónum eða syndum. Síðan þurfti að komast fram hjá kynjaverum sem krækja í syndarana um leið og þeir eiga leið framhjá. Ein krækir í drykkfellda og aðrar í þá sem hafa verið lauslátir, vergjarnir, slúðurberar o.s.frv. Það kom auðvitað í ljós að við þessir Íslendingaræflar erum syndlausir með öllu enda komumst við öll í gegnum þetta nálarauga og prísuðum okkur sæl fyrir að hafa ekki lent í helvíti en örlög þeirra sem þar lenda voru auðvitað til sýnis og voru ekki öll sérlega eftirsóknarverð.
Annars staðar átti svo að klofa yfir háan þröskuld án þess að snerta hann og enn annars staðar að standa á öðrum fæti í þrjár sekúndur ofan í einskonar kassa um leið og maður horfði á fjögur kínversk tákn. Konur á hægra fæti en karlar á vinstri. Allar þessar þrautir vöktu auðvitað kátínu en þó var ljóst að enginn tók sénsinn á að gera ekki sitt besta
Áður en við yfirgáfum Draugaborgina völdum við síðan hvort vildum frekar ganga yfir bogabrú langlífis eða ríkidæmis. Það segir sennilega eitthvað um að árin eru að færast yfir mann hægt og sígandi að allur hópurinn, að Einari hinum unga undanskildum, kaus langlífið fram yfir ríkidæmið.
Flautukaup
Eftir Draugaborgina og salíbunu niður með kláfnum biðu okkar svo sölubásarnir girnilegu. Einhverjir skemmtilegir smáhlutir höfnuðu í töskunni og við enda götunnar stoppaði ég svo hjá flautukarlinum sem ég hafði sigtað út áður. Ég girntist þar þverflautu úr bambus sem mig langar að gefa Katrínu tengdadóttur minni. Karlinn var afskaplega almennilegur og fús að sýna mér flauturnar og mismunandi gæði þeirra en hann var svo hræðilega andfúll að ég átti hreinlega í mestu vandræðum. Mér tókst þó fyrir rest að ljúka viðskiptunum og vona að þetta hafi verið sæmileg kaup og að Katrínu takist að nýta þverflautu námið sitt til að ná hljóði úr gripnum.
Aftur um borð
Þegar í skipið kom voru hellafararnir mættir þar, alsælir með vel heppnaða ferð og ég læt hér fylgja með eina mynd af þeirri undarveröld sem fyrir augu þeirra bar.
Við frænkur tylltum okkur hins vegar niður með saumakonunni góðu til að nema þessa list sem silkisaumurinn er og það er alveg ljóst að silkisaumur myndi ekki gefa okkur frænkum mikið í aðra hönd. Allavega ekki svona eftir fyrstu kennslustund í þeirri iðn. En við fylgdumst andaktugar með handbragðinu og fengum svo að spreyta okkur. Sú stutta þóttist óskaplega ánægð með okkur en hrædd er ég um að prufan sem við tókum sporin í hafi ekki nýst á sölubásnum hennar.
Eftir saumaskapinn dundaði ég mér svo við að pakka niður í töskurnar á milli þess sem ég dreypti á rauðvínsglasi. Umm er þetta ekki dásamlegt líf!
Fræðslustund
Síðan var komið að fræðslustund með þeim Magnúsi og Bin. Hluti fræðslunnar átti að vera um kínverskt letur en Bin okkar blessaður, sem aldrei hefur sig sérstaklega í frammi, komst hreinlega á flug og eftir nærri tveggja tíma fyrirlestur um Kína var ákveðið að geyma leturfræðsluna til betri tíma. Það var ekki alveg laust við vonbrigði í hópnum enda sérlega áhugavert að kynnast þessum táknum nánar.
Og matur enn og aftur
Eftir fræðsluna var síðan tími til að skella sér í sturtuna og skvera sér í skárri gallann fyrir kveðjukvöldverð með kapteininum. Maturinn var, eins og í annan tíma, sérlega góður og að venju kom kokkurinn til að fá umsögn um matinn. Við ákváðum að fjölyrða ekki mikið um hann að þessu sinni heldur risum á fætur og skáluðum fyrir honum. Æ, elsku kallinn, það var ekki laust við einhvern sætan gleðiglampa í augnatillitinu. En minna mátti það nú ekki vera frá okkar hendi enda ljóst að mannskapurinn leggur sig 150% fram og sérstaklega gagnvart okkur Íslendingunum. Þeir eru á fullu að átta sig á kröfum, smekk og þörfum þessara auðmanna norðan af hjara veraldar. Og mér er orðið það ljóst að ég á eftir að sakna þessara kínversku máltíða. Hér er enginn mjólkurmatur og ekkert brauð (hvort tveggja skipar stóran sess í matarvenjum mínum heima) en hins vegar mikið um grænmeti og mér líður afskaplega vel af þessu fæði. - er meira að segja farin að borða baunir.
Fyrirkomulag máltíðanna er líka sérlega skemmtilegt. Snúningsdiskurinn og þessi fjöldi smárétta kallar á bæði samræður og tillitsemi og er því mjög skemmtilegt félagslegt fyrirbæri og oft er borðhaldið mjög líflegt. Reyndar er yfirleitt mjög þröngt um réttina enda diskarnir og fötin óhentug á hringinn. Beta er auðvitað með útsjónasemi sinni búin að sjá út lausn sem hún þyrfti að koma á framfæri. Gæti orðið moldrík, sú stutta, ef hún gæti selt hugmyndina.
Kvöldinu eyddum við svo í spjall við góða ferðafélaga yfir einum bjór eða tveimur og það kom í ljós að nokkrir ferðafélaganna höfðu ásælst myndina góðu sem við keyptum og fengið þær fréttir hjá saumakonunni að hún hafi staðið þarna í básnum hjá henni mánuðum saman en öllum þótt hún of dýr. Nú stóð hún skyndilega frammi fyrir því að um borð voru allavega tveir aðilar, fyrir utan okkur, sem hefðu viljað eignast myndina. En svona er þetta, fyrstur kemur fyrstur fær og myndinni hefur verið komið haganlega fyrir ofan í ferðatöskunni minni og kemur til með að fá heiðurssess í borðstofunni heima á Fróni.
Á morgun lýkur þessari notalegu skipsferð í borginni Chongqing þar sem ætlunin er að skoða sig svolítið um og halda svo fljúgandi til Xi´an heimaborgar Bin.
Bloggar | Breytt 18.7.2007 kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13. september - Wusan
24.2.2007 | 21:21
Við áttum næturstað í bænum Wusan sem táknar Nornafjall. Þetta er 80.000 manna kaupstaður og hér hefur verið reist alveg glæný byggð. Húsið sem var efst í gamla bænum stendur enn en mun fara undir vatn í október.
Við vorum árrisul í morgun hjónin og vorum mætt upp á þilfar kl. 7 í Tai Chi undir stjórn nuddmeistarans. Maður getur ekki látið hjá líða að prófa þessar aldagömlu æfingar hér í upprunalandinu. Það kom mér nokkuð á óvart hvað hratt hann fór í gegnum æfingarnar en ímynda mér að það hafi nú eitthvað með vanhæfni okkar að gera. Sennilega er erfiðara að gera þetta löturhægt eins og hún Dunna, Tai Chi meistari Léttsveitarinnar, gerir.
Eftir hálftíma Tai Chi-iðkun var maður vel upplagður í morgunverðinn. Æ, það er dásamlegt að sjá doktorinn hella tei í bollana til jafns við þjónustustúlkuna. Hér um borð er markmiðið greinilega bara eitt þ.e. að farþegarnir séu ánægðir og fái bestu hugsanlega þjónustu. Við gætum trúlega lært margt af þeim hérna í það minnsta finnst mér óþolandi þegar mannskapurinn heima dettur í að velta sér uppúr hvað sé í hvers verkahring Hver á að sópa gólfin eða þurrka úr gluggunum? Stundum hef ég unnið með fólki sem gerir svona smáhluti að stórmáli ótrúlegt að nenna því.
Jæja, en eftir morgunmatinn beið okkar skoðunarferð um litlu gljúfrin þrjú hér í Yangtse ánni. Við færðum okkur yfir í minni fljótabát og þegar við sigldum af stað um kl. 9 var starfslið skipsins okkar á fullu við að skúra og skrúbba skipið hátt og lágt. Sennilega hafa bæði læknirinn og kokkurinn tekið til hendinni í þrifunum ef marka má þátttöku mannskapsins í skemmtidagskránni í gærkvöldi og við morgunverðinn áðan.
Kl. 9.50 Betu er heitt fer úr peysunni
Kl. 9.52 Beta kvartar undan golunni fer í peysuna
Siglingin er sérlega skemmtileg og náttúrufegurðin mikil. Víða má sjá fjölda manna, eins og maura, við vinnu í hlíðunum. Þar virðist handaflið vera helsta vinnutækið og sannleikur orðatiltækisins margar hendur vinna létt verk verður kristaltær.
Eftir nokkuð langa siglingu þar sem náttúrufegurðin gladdi bæði auga og anda, færðum við okkur í litla báta sem sigldu með okkur um enn minni og þrengri gljúfur. Bátsmennirnir tveir sem stýrðu för sýndu auðvitað gestrisni sína og tóku hvor um sig fyrir okkur lagið. Það virðist tíðkast hér að syngja fyrir gesti því sumir staðarfararstjóranna hafa einnig tekið fyrir okkur lagið í rútunum. Það er ekki vegna mikillar söngkunnáttu sem þetta fólk tekur lagið fyrir okkur heldur frekar til að segja okkur sögu (sem við auðvitað skiljum ekki) og til að gefa okkur sýnishorn af þeirri tónlist og menningu sem hér ríkir og alltaf er einhver barnsleg einlægni í söngnum - ekki síst hér. Leiðsögumennirnir segja okkur líka að hér uppi í fjöllunum, sem gnæfa yfir okkur, séu þorp og þegar ungur maður varð t.d. ástfanginn af stúlku í öðru þorpi þá hafi hann getað sungið til hennar yfir fjöllinn. Við þær aðstæður hefur auðvitað verið mikils virði að vera góður söngmaður svo söngurinn hljómaði sem lengst og víðast. Æ, finnst ykkur þetta ekki dásamlegt svolítið eins og sms þess tíma.
Fleiri tónlistarmenn og söngvarar glöddu okkur þegar við sigldum framhjá. Tvisvar sigldum við framhjá söngvurum sem stóðu í litlum bátum og sungu og einu sinni fórum við framhjá flautuleikara sem sat á klettasylla og spilaði á flautuna sína.
Við áttum svo rólega siglingu til baka að skipinu okkar þar sem auðvitað var framreiddur þessi líka fíni matur. Það stóð á endum að við Sveinn kláruðum að næra okkur og síðan tók við mikil og góð dekurdagskrá. Fyrst á dagskránni var nudd sem við höfðum pantað í gær. Sveinn fór í body-nudd hjá þeirri litlu nettu sem sýndi það að margur er knár þótt hann sé smár því hún tók hressilega á kallinum. Sjálf fór ég í þvílíkt flott baknudd hjá Thi Chi meistaranum. Við fengum auðvitað vitnisburð um að velmegunarstreitunnar sæjust greinileg merki í herðum og fengum fyrirmæli um að sofa með háan kodda og mæta í Tha Chi. Eftir nuddið beið mín andlitsbað, á snyrtistofunni um borð. Umm, ótrúlegt andlitsnudd alveg niður á tær og ekki skemmir nú fyrir að þetta kostar aðeins brot af því sem maður myndi borga heima. Nuddið mitt kostaði 150 y og Sveins 180 y og andlitsbaðið eitthvað svipað en þetta eru svona 1400 1700 ísl. Kr. Ef þetta er ekki tækifærið til að leyfa sér þennan lúxus þá veit ég ekki hvenær það er.
Eftir þetta dekur steinsofnuðum við auðvitað þangað til tímabært var að hafa sig til fyrir kvöldverðinn. Fyrir matinn litum við í sölubásana um borð en við höfum verið að skanna þá af og til frá því að við komum um borð. Þar er t.d. bás með útsaumuðum silkimyndum og saumakonan (stúlkan) situr þar löngum stundum við þessa fínlegu vinnu. Margar myndanna eru ótrúlega fallegar en ein sker sig þó nokkuð úr því hún er saumuð á svart silki með gylltum silkiþræði og víða er saumurinn fylltur eða upphleyptur. Myndin er af dreka og fönixfugli og Dexter, skemmtanastjórinn um borð segir okkur að drekinn sé tákn eiginmanns og fönixinn tákn eiginkonu. Þessi mynd er auk þess sérstök fyrir það að drekinn hefur fimm klær og er því keisararlegur. Aðspurð segist saumakonana hafa verið allavega einn og hálfan mánuð að vinna hana. Eftir nokkrar vangaveltur ákváðum við að láta það eftir okkur að fjárfesta í þessari mynd sem verður þá minjagripur okkar úr þessari ferð. Við þökkum þó fyrir að keisaraveldið er liðið undir lok því það hefði verið dauðasök að hafa slíkan keisaralegan dreka uppi á vegg hjá sér. Saumakonan varð ægilega glöð með viðskiptin gaf óumbeðin afslátt af myndinni og færði mér litla fallega málaða teskeið í kaupbæti og auðvitað létum við mynda okkur með listakonunni.
Kvöldverðurinn var svo eins og aðrar máltíðir um borð, rosalega góður. Tveir kínversku gestanna um borð áttu afmæli og eftir að borðhaldið hófst voru þau kölluð upp, ljósin slökkt og starfsfólkið kom inn í röð með afmælistertu m/kerti á ekki bara handa afmælisbörnunum heldur á hvert einasta borð og auðvitað var afmælissöngurinn sunginn. Eftir matinn var svo kvöldvaka með leikjum og happdrætti undir dyggri stjórn þessa kostulega drengsins með biðukollinn - Dexters.
En nú er mál að slökkva ljósin, á morgun bíður mín Draugaborgin en Sveinn ætlar í hellaferð.
Bloggar | Breytt 18.7.2007 kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12. september - Fyrsti dagur á Yangtze
17.2.2007 | 22:18
Skipið er alveg æði. Við komum hingað eftir myrkur í gærkvöldi og vorum orðin ansi lúin eftir langan dag í rútunni. Við höfðum þó fengið einhverja bestu máltíð ferðarinnnar um kvöldið og að þessu sinni var allur hópurinn á einu máli um hvað maturinn væri góður.
Við Sveinn sátum til borðs með nokkru af eldra fólkinu ásamt Magnúsi fararstjóra og það var mikið hlegið. Sérstaka kátínu vakti spurning sem einn herranna beindi til Magnúsar, í ljósi þess að hann væri giftur kínverskri konu. Hann innti hann eftir því að úr því að það væri til siðs að gefa frá sér sértök ánægjuhljóð við máltíðir hvort slíkt ætti þá ekki einnig við um samlíf hjóna. Magnús sagðist ekki myndu segja honum það þó svo væri en þetta vatt auðvitað upp á sig með miklum hlátri og kátínu.
Eftir máltiðina keyrðum við í myrkri að skipinu sem stóðst allar væntingar. Ekki mjög stórt en þó búið öllum þægindum, heimilislegt og notalegt.
Burðarmennirnir
Ég tók þó alveg út þegar kínverjarnir tóku töskurnar okkar úr rútunni til að fara með þær um borð. Auðvitað voru allir með fínar töskur á hjólum en blessaðir mennirnir höfðu sinn háttinn á þessu. Í stað þess að rúlla töskunum áfram hengdu þeir þær, tvær og tvær, á burðarstangir sem þeir lögðu yfir herðarnar. Sumir tóku jafnvel tvær hvoru megin. Úff maður kann bara ekki við að láta stjana svona við sig og það var ekki laust við að maður fyndi fyrir samviskubiti yfir öllum óþarfanum sem skyndilega varð svo augljóst að taskan geymdi. Pilsin, skórnir og bolirnir sem maður tók með, bara svona ef vera kynni að gaman væri að fara í það einhvern tímann. Já, sjaldan hefur mig langað eins mikið til að skerast í leikinn og sjá sjálf um að rúlla minni tösku um borð.
Í morgun fórum við svo að skoða stífluna stóru hér í Yangtze fljóti. Við héldum frá borði í kláfnum, upp steyptan brattann sem smám saman mun fara undir vatn eftir því sem hækkar í lóninu vegna stífluframkvæmdanna.
Þegar við komum upp á bílastæðið þyrptist sölufólkið að og einhvern veginn fannst mér ákafi þess eiga sér aðrar rætur en ákafi sölukonunnar blessaðrar í þorpinu sem við heimsóttum í gær hmm... Hérna þrengdi fólkið sér upp að okkur, minnti svolítið á mýflugnager, og tók hreinlega ekki nei fyrir svar. Með naumindum slapp maður inn í rútu en þá lömdu þau í rúðurnar og voru áreiðanlega að lofa okkur því að við værum ekki búin að missa af viðskiptunum, þau yrðu hér þegar við kæmum til baka. Je, eins og það sé það sem við vildum helst.
Virkjunin
Virkjunin er vægast sagt ógurlegt mannvirki. Hún er með 26 túrbínum sem hver og ein framleiðir jafn mikið rafmagn og Kárahnjúkar Hvernig er þetta yfirleitt hægt? Við skoðuðum þessi ósköp hálf agndofa, agnarsmá frammi fyrir þessu ferlíki sem þó er svo mikið meira en bara þessi risastóri veggur, skipastigi og skipalyfta. Í sjálfu sér er það kannski minnsta málið. Hitt orkar mikið sterkar á mann hver áhrif þetta hefur til meiri gæða en þó enn frekar áhrifin á mannlífið hér við fljótið. Heilu þorpin, bæirnir, borgirnar eru brotnar niður og fólkið flutt hvort sem því líkar betur eða verr um lengri eða skemmri veg. Og það er sko ekki spurt að því hvert það vilji flytja. Sumir bæirnir eru fluttir ofar í hlíðarnar umhverfis fljótið en aðrir um langan veg. Þannig hafa þrjár milljónir manna verið fluttar búferlaflutningum.
Mikilfengleiki virkjunarinnar kom þó ekki í veg fyrir að við frænkur og fleiri landar okkar, gæfum okkur tíma til að líta á ýmsan spennandi varning sem til sölu var þarna á virkjanasvæðinu. Nokkrir hlutir hlutu náð fyrir mínu innkaupaauga og höfnuðu í bakpokanum þar á meðal var t.d. sérlega skemmtileg flauta sem ég ætla að færa Gunnari þegar heim kemur enda er það orðin hefð að kaupa hin margvíslegu hljóðfæri á ferðalögum um heiminn.
Um borð
Eftir að hafa skoðað virkjanasvæðið að vild héldum við aftur til skips. Það er sérlega skemmtileg móttaka sem við fáum, í hvert skipti, sem við göngum um borð. Starfsfólkið raðar sér meðfram landganginum langa leið og býður hvern mann velkominn til baka. Þegar maður stígur mum borð fær maður svo rakan klút til að þurrka aðeins af sér óhreinindin á meðan maður prílar nokkuð brattan stiga frá neðsta þilfari upp í móttöku skipsins. Þegar þangað kemur stendur þar þjónustuliðið: Ein sem tekur við óhreinum klútunum og aðrir sem bjóða lúnum ferðalöngunum (eða þannig sko þetta er hrikalegur lúxus) heitt eða kalt te, allt eftir óskum hvers og eins
Nú svo var bara að drífa sig beint í hádegisverðinn sem við neyttum á meðan skipið lagði frá bryggju. Við Íslendingarnir eigum þrjú föst borð í borðsalnum og þar hafði verið framreiddur þessi líka fíni hádegisverður umm. Mikið lofar þetta góðu ég hafði aðeins kviðið því að kannski væri maturinn um borð ekki upp á marga fiska og þá hefði maður bara orðið að þreyja þessa daga sem framundan eru. En sem sagt allt bendir til að okkar bíði veislumatur á meðan við dveljum hér um borð.
Gljúfrin
Eftir matinn tylltum við okkur fram á barinn þar sem borið var fram kínverskt te en síðan biðu okkar fyrstu gljúfrin sem siglt verður um í þessari ferð og því drifum við okkur út á þilfar til að njóta þess sem fyrir augu bar. Náttúrfegurðin er geysileg og myndavélin er óspart notuð til að festa þetta á filmu (það er þrautin þyngri að velja eitthvert sýnishorn til að skreyta þennan texta með). Víða voru merki um hinar miklu framkvæmdir sem gáfu fyrirheit um þær breytingar sem hér munu verða núna strax í október. Mælistikur sem sýna hve hátt vatnsborðið mun stíga eru hvarvetna, ný byggð, brýr og alls kyns framkvæmdir kallast á við gömul mannvirki og hrörleg hús sem bíða niðurrifs eða þess að hverfa undir vatnsborðið.
Nudd
Maður er svolítið agndofa gagnvart öllu þessu en okkur Betu var ekki til setunnar boðið lengur á þilfarinu því við áttum tíma hjá nuddurunum tveimur um borð. Ætlum að prófa svæðanudd. Nuddararnir eru annars vegar ungur stæltur maður og hins vegar lítil nett kona. Beta fékk þann stælta en ég þá nettu. Við vorum settar í fótabað og út í vatnið einhverjar jurtir sem sennilega gera okkur afskaplega gott. Svo hófst nuddið og ætli orðið ljúfsárt lýsi ekki þeirri upplifun best. Að mörgu leyti virkilega notalegt en svo hrikalega sárt á köflum. Ég minntist jógafræðanna sem segja manni að anda inn í sársaukann og reyndi að nýta mér það þegar sú stutta var alveg að drepa mig. Það heyrðist ekki í Betu og þegar ég sagði henni hvaða tækni ég hefði notað sagðist hún nú hafa heyrt það, því ég hefði blásið eins og hvalur á bekknum
Það sem eftir lifði dags gekk svo í langþráðum rólegheitum, sumir fóru í klippingu eða andlitsbað, aðrir í nudd og enn aðrir nutu útsýnisins ýmist úti í sólinni eða út um stóran og góðan káetugluggann.
Klukkan rúmlega sex var svo móttaka skipstjórans um borð. Allir fengu drykk og kapteinninn skálaði við hvern einasta mann. Ég fékk nú svolítið á tilfinninguna að þetta væri ekki eitt af eftirlætisvekunum hans. Svolítið yfirborðskennt og mikil sýndarmennska en skemmtilegt engu að síður.
Eftir kvöldverðinn var síðan sett upp ótrúleg kvöldskemmtun þar sem starfsfólk skipsins kom fram í margvíslegum dansatriðum. Þarna tróðu upp þjónustustúlkur, læknir skipsins, nuddarinn og yfirmaður herbergisþjónustunnar svo eitthvað sé nefnt. Það var eitthvað hrikalega kómískt við þessa uppákomu. Allir lögðu sig alla fram og yfir þessu var einhver svo barnsleg einlægni að það var það eina sem virkilega skipti máli.
Síðan var farið í ýmsa leiki og Íslendingarnir stóðu auðvitað fyrir sínu. Einn var t.d. dreginn upp í dansatriði og annar lagði Austuríkismann að jöfnu í bjórdrykkjukeppni nema hvað!
Bloggar | Breytt 18.2.2007 kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9. september í Shanghai
13.2.2007 | 15:45
Í dag eru 30 ár síðan Mao formaður dó.
Í morgun rigndi og mannskapurinn dró upp regnhlífar. Við byrjuðum á að heimsækja Búddahof sem geymir marga fallega merkilega hluti en er sérstakt fyrir tvær búddastyttur úr hvítum jade, sem er mjög sjaldgæfur. Hofið hefur verið í þessari byggingu frá 1918 en þá voru stytturnar tvær fluttar þangað. Þær áttu reyndar að fara eitthvert annað en vegna stíðsástands var ekki hægt að koma þeim á áfangastað og þær höfnuðu hér.
Það var ansi fjölmennt í hofinu eins og reyndar alls staðar hér og við urðum vitni að ótrúlegu umburðarlyndi Kínverjanna sem iðkuðu bænir sínar innan um kallandi fararstjóra og háværa túristana sem bókstaflega klofuðu yfir þá þar sem þeir lágu á bæn í þrengslunum.
Ekki mátti mynda hvítu jadestytturnar tvær en eitt og annað merkilegt náðist þó á mynd. Þarna voru t.d. hreint ótrúleg útskorin listaverk sem bera handbragðinu hérna glöggt vitni. Ég féll svo auðvitað kylliflöt fyrir stórum búttuðum og sætum búdda sem hefði sómt sér vel á arninum heima en varð, vegna fyrirferðar sinnar og þyngdar, að sitja eftir í hofinu.
Magnús fræddi okkur auðvitað um það helsta í trúarbrögðunum og ljóst er að höfuðáttirnar fjórar skipta þar miklu máli enda voru í hofinu fjórir miklfenglegir kappar sem hver um sig varði eina höfuðáttina kannski svolíðið líkt landvættunum okkar. Til að fara inn í vistarverur þurfti að klofa yfir háan þröskuld sem þjónar þeim tilgangi að halda draugum frá því eins og allir vita komast draugar ekki yfir þröskulda!! Sama hlutverki þjóna hlykkjóttir gangar því draugar komast víst heldur ekki nema beint áfram. Þetta er auðvitað vitneskja sem allir þurfa að þekkja.
Næst fórum við svo í silkiverksmiðju og sáum þessa ótrúlegu framleiðslu úr púpu silkiormsins. Eftir að hafa fylgst með handbragðinu við að ná fram silkiþráðinum lá auðvitað leiðin í verslun verksmiðjunnar. Þar mátti t.d. kaupa ekta silkirúmföt á um 12.000 kr. parið. Þau voru auðvitað freistandi en mig hefði þó enn frekar langað í silkisæng sem stúlkurnar voru að búa til þarna inni og var hreint dásamleg. Ég stóst þó þessar freistingar en keypti mér silkislopp sem ljúft verður að sveipa um sig á letimorgnum heima og einnig jakka úr svörtu hrásilki. Sloppurinn kostaði 580 yöan sem eru innan við 5800 kr. og jakkinn 500 yöan. Annars voru fæstar flíkurnar þarna hentugar fyrir mína íslensku búkonuhandleggi.
Í hádeginu var farið á matsölustað og sest að hinum kínverska mat sem verður eini kosturinn í þessari ferð. Úff, satt að segja hálf bauð mér allt í einu við þessum kínversku réttum og veit ekki hvernig verður að borða þetta í tvær vikur.
Eftir snæðinginn var ferðinni heitið í Mandarin Yu, sem er eini hefðbundni kínverski garðurinn í Shanghai frá Ming tímanum. Garðurinn hafði verið í eigu eins af embættismönnum keisarans. Embættimaðurinn dvaldi auðvitað langdvölum fjarri fjölskyldunni en lét útbúa þennan fallega garð svo fjölskyldan gæti notið þar náttúrunnar innan veggjanna sem umluktu hann. Garðurinn var sannarlega fallegur, með fallegum gróðri, sjaldgæfu bergi og gullfiskatjörnum. Ekki hefur þó alveg ríkt jafnræði með fjölskyldumeðlimum innan hans því þar voru sérstakir yfirbyggðir gangar, einn fyrir karla (með fögru útsýni) og annar baka til fyrir konurnar.
Þegar út úr garðinum kom fengum við að kíkja svolítið á kínverskan varning í verslunargötum þarna í nágrenninu og héldum síðan í stóru verslunargötuna Nanjing eða Pepsi Cola street eins og Kínverjarnir kalla hana vegna allra auglýsingaskiltanna. Ekki var nú gefinn langur tími í þessari stóru verslunargötu og við sáum það að ómögulegt væri að ætla sér eitthvert búðarráp svo við röltum þarna um ásamt Betu og Gunnari, aðallega til að horfa á fjölskrúðugt mannlífið og gjóa augunum í einstaka búðarglugga. Við stungum auðvitað í stúf þarna eins og annars staðar og vöktum greinilega athygli, enda augljóslega túristar á ferð. Þegar við vorum að fikra okkur til baka í átt að rútunni tókum við eftir ungum manni sem fylgdi okkur eftir og hafði augljóslega áhuga á myndavélinni sem hékk um hálsinn á Sveini. Ég veit ekki hvort hann sá að við höfðum orðið hans vör en hann gaf sig á tal við okkur til að vita hvaðan við værum voða hress og kammó. Síðan tók hann upp símann og hringdi eitthvert. Stuttu seinna sáum við að annar var farinn að fylgja okkur eftir og þá leist okkur ekki alveg á blikuna og færðum okkur inn á mitt strætið en áður höfðum við haldið okkur í skugganum af húsunum. Það var eins og við manninn mælt að þá hætti piltur að fylgja okkur en tók upp símann, sennilega til að tilkynna að fengurinn væri runnin þeim úr greipum. Já, það er eins gott að vera svolítið vakandi og var um sig.
Eftir þennan örverslunartúr var haldið upp á hótel þar sem hópurinn náði örlitlu stoppi rétt fyrir sturtu og fataskipti áður en haldið var eina ferðina enn á matsölustað (svei mér þá maður er alltaf að borða hérna) en nú var maturinn þó mun betri og lystugri en í hádeginu.
Kvöldinu lauk svo með því að við fórum á akróbat-sýningu í leikhúsi hér í borg þar sem sjá mátti mörg hreint ótrúleg atriði. Toppurinn var þó lokaatriðið þar sem fimm menn þeystust um á mótorhjólum innan í járnkúlu á sviðinu. Skrambinn, manni varð hálf illt því það var svo augljóst að hver minnstu mistök myndu kosta stórslys. Hreint ótrúlegt atriði!!
Að lokum listi yfir kínverskulærdóm dagsins skráð samviskusamlega eftir framburði:
Dá chang há = Góðan daginn
Cé cé = takk
í a can - ci ú leó cúí ba tjó cu = 1 2 3 4 5 6 7 8 9 - 10Bloggar | Breytt 15.2.2007 kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8. september kl. 22.10 á Shanghai hóteli:
12.2.2007 | 16:54
Skrýtið að hér sé komið kvöld og við skriðin uppí en kl. bara 14.10 heima. Mér finnst hálf óþægilegt að vera svona á öðru tímaplani en strákarnir.
Annars hefur þessi fyrsti dagur á kínverskri grund verið góður. Ég svaf reyndar allt of lítið í vélinni og er því orðin ansi lúin núna. En allt gekk samt ferðalagið vel og fyrsta reynsla gefur vísbendingar um að allt skipulag sé til fyrirmyndar. Rútur mættar á réttum tíma og allt slíkt. Það vantar heldur ekki mannskapinn til að passa upp á okkur því hér tók á móti okkur kínverskur fararstjóri, Bin Wang, sem kemur til með að fylgja okkur alla ferðina en auk hans verður með okkur staðarfararstjóri á hverjum stað. Einn slíkur tók á móti okkur og var með okkur fyrri hluta dagsins. Hann mun áður hafa verið þeim félögum Magnúsi og Bin innan handar en tilkynnti okkur það að hann gæti ekki verið með okkur á morgun þar sem hann þyrfti að fylgja dóttur sinni í skólann þar sem þá væri fyrsti dagurinn hennar í háskólanum. Það var ekki laust við að mörlandinn glotti úti í annað við þessar fréttir enda venjan öll önnur heima á Fróni þar sem börnin valsa sjálf í skólann frá sex ára aldri. En hinn kínverski faðir brosti stolltur út í bæði og skildi örugglega brosviprurnar okkar svo að við samgleddumst honum innilega sem við svo sem gerðum auðvitað.
En hvað um það. Fyrstu kynni af Kína gefa fyrirheit um margvíslega upplifun næstu dagana. Við byrjuðum á að ferðst með hraðlest frá flugvellinum inn í borgina. Það var ekki laust við að aðeins færi um mann þegar hraðamælirinn í farþegavagninum sýndi 431 km úff maður verður bara að vona að þeir kunni til verka blessaðir þegar þeir ganga frá svona farartæki. Allavega komumst við heilu og höldnu alla leið.
Þar sem töskurnar okkar ferðuðust með mun hægfarnara farartæki inn til borgarinnar en við sjálf, höfðum við aðeins örstutta viðkomu á Shanghai hóteli. Við Sveinn gáfum okkur þó örlítinn tíma til að fylgjast með verkamönnum hátt uppi í stillönsum aftan við hótelið þar sem þeir unnu vinnuna sína á tágamottum sem lagðar höfðu verið yfir tvo búkka. Úpps, ekki víst að vinnueftirlitið heima myndi samþykkja þessa vinnuaðstöðu. En okkur var ekki til setunnar boðið að þessu sinni og héldum því út til að fá fyrstu upplifun af hinu kínverska þjóðfélagi.
Mannhafið er ótrúlegt, uppbyggingin nánast óhugnanleg og andstæðurnar blasa alls staðar við. Gömul fátækleg hverfi þar sem íbúarnir deila saman kamri á einhverju götuhorninu kallast á við blokkarhverfi, glæsileg háhýsi og glæsihótel. Heilu hverfin eru rifin niður og fólkið flutt í blokkir sem hver gæti rúmað alla Grafarvogsbúa án teljandi vandræða.
Við héldum niður að á sem rennur í gegnum Shanghai. Ekki get ég nú með nokkru móti munað hvað þessi á heitir en hún mun vera síðasta þverá Yangtse-fljóts sem við munum sigla á eftir nokkra daga. Við ána var mikill mannfjöldi en þarna mun vera vinsælt að koma við og rölta meðfram ánni. Sölufólkið þyrptist auðvitað eins og mý á mykjuskán utan um okkur, um leið og við stigum fæti út úr rútunni, bjóðandi forláta Lolex og shjúshjú. Lolex stendur auðvitað fyrir Rolex og það rifjaðist upp frá íslenskunáminu að Kínverjar gera ekki greinarmun á hljóðunum L og R. Shjú-shjú voru hins vegar eins konar hjólaskautar, tvo hjól sem fest eru við hælinn á skónum manns. Við féllum nú hvorki fyrir Lolex né sjú-sjú, enda fælir svona ágengni mig nú frá viðskiptum frekar en hitt.
Það vakti hins vegar athygli mína að margir nöguðu maísstöngla sem þarna voru seldir eins og hver annar skyndibiti auk þess sem kaupa mátti tálgaðar kókoshnetur með röri. Pizzur og pylsur með öllu, voru hins vegar víðsfjarri enda ekki að sjá að kínverjarnir ættu í baráttu við aukakílóin eins og við þessir framandi gestir.
Fyrir utan það að mannlífið vakti mestan áhuga minn var gaman að sjá ótrúlegar byggingarnar handan við ána. Þarna mátti sjá skýjakljúfa, turna og margvíslegar byggingar en þarna hafa Kínverjarnir fengið arkitekta víðsvegar að úr heiminum til að láta ljós sitt skína.
Eftir þessa skoðunarferð var haldið aftur upp á hótel og eftir sturtu og smá shæningu var haldið á kínverskan matsölustað. Við fengum úrvals góðan mat og tókumst í fyrsta skipti á við matprjónana sem ég er ákveðin í að nota alla ferðina. Ég sleppti reyndar öllu því sterkasta við þetta borðhald þar sem smugan er enn að hrella mig.
Eftir kvöldmatinn var síðan keyrt um borgina og Shanghai skoðuð, nú skrýdd kvöldljósunum sem voru satt að segja mikilfengleg. Við fórum m.a. upp í fjórðu hæstu byggingu heims, sem Magnús kallaði hús verslunarinnar en heitir Jinmao tower (Háhýsið rétt hægra megin við Svein á myndinni hér að ofan). Við fórum upp á 88. hæð og horfðum yfir ljósin í borginni og ég sendi kort til Reynisholts sem spennandi verður að sjá hvort kemst alla leið.
Í þessari skoðunarferð kom í ljós að okkar verður gætt eins og kornabarna í þessari ferð. Við þurftum auðvitað ekki að standa sjálf í því að kaupa okkur miða inn í háhýsið, heldur sáu fararstjórarnir um það. Þeir fylgdust síðan vel með okkur og töldu okkur eins og fé í rétt til að tryggja að enginn yrði nú eftir einhvers staðar. Til að byrja með var ég alveg við það að verða svolítið stressuð með þeim og reyndi að hafa yfirsýn yfir það hvort allir væru nú ekki á sínum stað en ákvað síðan að það væri hreinlega ekki í mínum verkahring hér, heldur eingöngu það að hlýða þeim fyrirmælum sem þessir mætu menn gæfu okkur og vera sjálf á réttum tað á réttum tíma. Sem sagt fyrirmyndar túristi í lúxus fríi.
Á morgun er spennandi dagur framundan hér í borginni - en NÚNA bíður svefninn á þessu harða rúmi iss það gerir ekkert til ég svæfi á hverju sem er eftir þetta laaaanga ferðalag.
ZZZZZzzzzzzz
Bloggar | Breytt 15.2.2007 kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)