15. september. Chongqing - Xi´an

Í nótt um klukkan þrjú lögðumst við að pramma í borginni Chongqing. Þetta virtist vera óttlegur ryðkláfur og við rétt vöknuðum til að loka glugganum, draga fyrir og njóta þess að hverfa svo aftur inn í draumalandið. 

Við morgunverðinn fréttum við það að þetta væri heimaborg saumakonunnar okkar, margumtöluðu, og að hún hefði snemma í morgun látið senda eftir mynd, sambærilegri þeirri sem við keyptum, heim til sín, fyrir góðan samferðamann sem ekki hafði getað hætt að hugsa um myndina góðu. Mikið er ég fegin, ég var komin með hálfgert samviskubit yfir þessu myndamáli öllu saman. 

IMG_4893Við yfirgáfum skipið og fikruðum okkur langa leið eftir prömmum til lands og alla leiðina stóð áhöfnin til að kveðja okkur og gæta þess að við færum okkur ekki á voða svo lengi sem þau bæru ábyrgð á okkur.

IMG_4929Chongqing-borg stendur í miklum halla og ólíkt því sem við höfum séð í öðrum borgum er hér nánast enginn á hjóli. Mannmergðin er hins vegar sú saman enda erum við hérna í fjölmennasta sveitarfélagi heims en það telur 50 milljónir manna. Verslun og viðskipti eru æði skrautleg og meðfram götunum standa litlar verslunar- og veitingaskonsur; sjá má kjötkaupmenn höggva kjötið úti á götu og matsölustaði með eldunaraðstöðu úti og kannski tvö lítil borð fyrir gesti fyrir innan. Auk þessa er greinilega marvíslegur iðnaður stundaður hér. 

IMG_4902Ferð okkar er heitið í Er-ling garðinn sem stendur hátt og þaðan má sjá yfir borgina, þ.e.a.s. ef ekki er eins mikið mistur og í dag. Í garðinum var nokkuð um fólk með lítil börn. Ég hef enn ekkert fjallað um börnin í Kína – og þó eru það þau og aðbúnaður þeirra sem ég hef mestan áhuga á. 

 

 

Börnin
Það hefur verið greinilegt, hvar sem við höfum komið að  fjöldi barna er ekki í nokkru samræmi við fólksfjöldann hér. Það er auðvitað vegna einsbarnsstefnunnar sem hér er enn í gildi. 

Við komumst að því um borð að hárgreiðslu- og snyrtidaman þar á eitt rúmlega ársgamalt barn heima hjá sér. Í einfeldni minni spurði ég Magnús hvernig þessu væri þá háttað, hvort hún ynni þá kannski í lotum ca. tvær ferðir þ.e. fram og til baka og fengi svo frí þess á milli. Magnús taldi það mjög ólíklegt og sagði það algengt að foreldrar dveldu langan tíma fjarri börnum sínum vegna vinnu, jafnvel mánuðum saman. Börnin eru þá í vörslu ömmu og afa á meðan og við höfum svo sem séð vitni um það þ.e. fullorðið fólk á ferð með ung börn. Æ, þetta er eitthvað svo sorglegt. Að mega eignast eitt barn og fá ekki að njóta þess að ala það upp og upplifa allar framfarirnar jafnóðum og þær verða. 

IMG_4909IMG_4906En við höfum séð töluvert af smábörnum og það er ótrúlega skrýtið að sjá að þau eru öll eru í buxum sem eru opnar í klofið, þ.e. að klofið vantar hreinlega í þær og ber bossinn á þeim blasir við. Það liggur í augum uppi að þetta er til þess að það sem frá þeim kemur, geti gossað beint á götuna. Við höfum nú ekki orðið vitni að slíku en ég velti fyrir mér hvort foreldrarnir beri á sér poka, svona eins og hundaeigendurnir heima. Varla! Kannski er ullabjakkinu bara sópað í göturæsin sem götusópararnir hreinsa síðan. Hér er í það minnsta nóg af götusópurum enda margir um að vinna verkin í þessu fjölmenna landi og sennilega er það lán fyrir okkur öll að þjóð sem telur 1,3 milljarða skuli ekki nota bréfbleiur – jafnvel þó börnin séu fá miðað við höfðatölu. 

Tehúsið
IMG_4913En aftur að Er-ling garðinum. Við þræddum okkur í gegnum þennan garð og að tehúsi sem ætlunin var að heimsækja. Þar fengum við kennslustund í því að hella upp á te eftir kúnstarinnar reglum s.s. hvaða hitatig ætti að vera á vatninu eftir tegundum tesins. Svo fengum við auðvitað að smakka og tilsögn í því hvernig ætti að bera bollann upp á munninum. IMG_4918Það voru tvær snotrar stúlkur sem sáu um kynninguna. Þær voru mjög hæverskar og á milli þeirra var greinilega mjög skýr verkaskipting. Önnur talaði en hin hellti í bolla handa gestunum. Með okkur í för var auðvitað staðarleiðsögumaður eins og alls staðar annars staðar. Þetta var ungur maður og á meðan kynningin fór fram fór hann að bæta við það sem stúlkurnar höfðu fram að færa. Þær sögðu svo sem ekki neitt við þessu blessaðar og fóru mjög vel með álit sitt á þessum unga manni en þó duldist mér ekki að framhlaup hans fór ótrúlega í taugarnar á þeim. Enda voru þær sérfræðingarnir hér en ekki hann. 

IMG_4923Nú eftir tesmakkið og auðvitað teinnkaup héldum við áfram röltinu í gegnum garðinn og rákumst m.a. á hóp veturlandabúa – sennilega Ítali – með kínversk smábörn í fanginu. Allir voru með eins barnakerrur og mikil gleði var í hópnum. Hvert barn naut greinilega mikillar athygli, sungið var við þau og þeim hampað. Það var greinilegt að hér var hópur nýbakaðra foreldra með ættleidd börn sín. Það snerti mann djúpt að fylgjast með þessum hópi og mér varð hugsað til þeirra mæðgna Röggu, vinkonu minnar, og Ragnhildar sem voru í þessum sömu sporum fyrir nokkrum árum og hafa notið lífsins saman síðan. 

 

IMG_4934IMG_4935Eftir ferðina í Er-ling garðinn, var á dagskránni að fara á markað en þar sem vegaframkvæmdir voru á markaðssvæðinu og bílstjóranum leist ekkert á það ferðalag var farið beint að borða. Að þessu sinni borðuðum við á nýtískulegum matsölustað sem stóð við lítið stöðuvatn. Við höfðum auðvitað nokkuð rúman tíma þar sem markaðsferðinni var sleppt og eftir matinn fylgdumst við með mönnum dorga við vatnið, verkamönnum ná steypustyrktarjárnum út rústum byggingar og kokkinum af matsölustaðnum tálga sér veiðistöng með kjötsaxinu. IMG_4937Já, já, svona er lífið í Kína – vona bara að það sem við vorum að borða hafi verið vel steikt og svona… 

 

 

 

 

 

 

Xi´an
En nú var komið að klukkutíma flugi til gömlu höfuðborgarinnar Xi´an og eins og í fyrra innanlandsfluginu var ekkert verið að flækja hlutina heldur var með persónulegum tengslum fólks heldur var stafrófið látið ráða sætaskipan. 

IMG_4946Í Xi´an þurfti ekki annan staðarleiðsögumann en Bin okkar enda hann á heimaslóðum hér. Umhverfi flugvallarins var mjög ólíkt því sem við höfum ferðast um síðustu daga. Hér er auðvitað mjög mikil uppbygging líkt og annars staðar en jafnframt miklar sléttur. Magnús segir okkur að  svæðið sem við keyrðum um áður en við komum inn í borgina hafi byggst upp á síðustu fimm árum en áður hafi þar verið akrar bænda. 

IMG_4954Ég var ansi syfjuð og dottaði á leiðinni á hótelið. Þetta er ekki sama hótel og gefið hafði verið upp í leiðarlýsingunni en óneitanlega mjög glæsilegt. Það heitir Hotel Royal Garden og er í hjarta og hringiðu borgarinnar. IMG_4958Þegar við komum á hótelið var okkur úthlutað herbergi á fjórðu hæð, það snýr út að götulífinu og þar er sannarlega margt að fylgjast með. Töskurnar okkar voru ekki komnar og stutt var í matinn svo ekki gafst tími til að fara í sturtu eða skipta um föt og innan við klukkutíma frá því að við komum inn á hótelið var haldið í rútunni út að borða. Enn var maturinn alveg fyrirtak en réttirnir eru orðnir bragðsterkari en áður og um leið betri og betri. 

Á leiðinni til baka frá kvöldverðinum útbýtti Bin gjöfum á alla línuna. Annars vegar silkiklútum, einum handa hverju okkar og hins vegar einfaldri, sterkri „flugfreyjutösku“ á hjólum til að hafa helstu nauðsynjar í þegar farið verður í næturlestina. Það er óhætt að segja að það sé hugsað fyrir hverjum hlut í þessari ferð enda er þýska ferðaskrifstofan Bavaria, sem bændaferðir skipta við, vön að skipuleggja ferðir fyrir mun kröfuharðari viðskiptavini en okkur. Við höfum svolítið gaman að því að Bin mun vera öfundaður af því af samstarfsmönnum sínum að fá að sinna Íslendingunum. Okkur fylgja víst lítil vandræði eða nöldur. Mér finnst við heldur ekki hafa yfir neinu að kvarta, allt í sambandi við þessa ferð er algerlega til fyrirmyndar. 

Eftir að hafa fengið ferðatöskurnar komum við aðeins við á „Business center“ og sendum tölvupóst á liðið heima. Síðan nutum við langþráðrar sturtunnar og skriðum svo í bólið… ZZZZZZZ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband