Færsluflokkur: Bloggar

Eins dauði er annars brauð!

Icelandair segir upp tugum flugmanna og flugfreyja  

Kannski að einhver þeirra banki uppá í leikskólanum til að reyna sig í skemmtilegasta og mest gefandi starfi sem til er! 

Sennilega eiga þessi störf það sameiginlegt að krefjast mikillar þjónustulundar, ótakmarkaðrar þolinmæði og innsýnar í þarfir annarra.

Ég held samt að skjólstæðingar leikskólakennarans séu mun einlægari, uppátektasamari og skemmtilegri en flugfarþegar fyrir utan það hvað þeir eru fróðleiksfúsir og skapandi.


Draumaferðin

Þar sem ég á inni nokkra orlofsdaga ámálgaði ég það við minn betri helming að við ættum nú að finna okkur einhverja GÓÐA FERÐ og bregða okkur tvö saman út fyrir landsteinana.

Minn brást auðvitað fljótt við og í dagslok beið mín tölvuskeyti frá karli með slóð inn á draumaferðina Frown

OMG! Þegar ég opnaði slóðina var þar lýsing á 17 daga hjólaferð (nei, ekki hjóna- heldur hjólaferð) um Vietnam.

Einhverra hluta vegna læðist að mér sá grunur að við hjónin höfum ekki sömu viðmið um það hvað ætti að einkenna GÓÐA FERÐ FYRIR OKKUR TVÖ Blush


Dear Kveðja

Eins og margir aðrir leikskólastjórnendur höfum við í Reynisholti verið að auglýsa eftir fólki. Okkur hafa borist nokkrar umsóknir og m.a. frá vel menntaðri erlendri konu sem við viljum endilega fá til viðtals þó hún tali litla sem enga íslensku - enn þá!

Við sendum henni því tölvupóst - á íslensku - þar sem við boðuðum hana í viðtal. Skeytið var undirritað: Kveðja Sigurlaug leikskólastjóri.

Við fengum til baka svar - á ensku - sem byrjaði svona: Dear Kveðja....

Dásamlegt LoL


Úr einu í annað

Á föstudaginn fékk nýi baksýnisspegillinn, ásamt reyndar restinni af Corollunni , nýjan eiganda sem sannarlega hæfir ekkert annað en spegill af bestu gerð - enda æði snotur stúlkan sú sem keyrði sæl á svip héðan frá húsinu á nýja bílnum sínum. Ég vona sannarlega að hann reynist henni jafnvel og mér.

Nýi Suzuki bíllinn minnSjálf sá ég fram á nokkra bíllausa daga þar sem Swiftinn minn átti eftir að fara í ryðvörn og tilheyrandi áður en ég fengi hann í hendurnar. Í gær var svo hringt og ég fór og sótti gripinn. Alla malla, hann er örugglega bara með ódýran spegill sem hæfir eigandanum vel en sjálfur er hann dásamlegur og bætir eigandann algerlega upp Blush Hann var örugglega fallegasti bíllinn á götum borgarinnar í dag - og þó víðar væri leitað Cool

 Hann fékk t.d. það hlutverk í dag að vera trússbíll þegar við færðum hluta leikskólabarnanna hádegishressingu út að Reynisvatni. Þar höfðu þau slegið upp tjaldi, með dyggri aðstoð Heiðu deildarstjórans síns sem var ekkert að bíða með hlutina, innblásin af hinni frábæru námsstefnu um vettvangsnám og útikennslu sem við sátum í gær og fyrradag.

Nú svo skilaði hann mér örugglega á leikskólaráðsfund þar sem ýmis þörf málefni voru til umræðu og áheyrnarfulltrúinn sperrti eyrun, enda hlýtur það að vera helsta hlutverk áheyrnarfulltrúa - þ.e. að sperra eyrun Wink Annars er þetta sérlega áhugavert hlutverk og afskaplega ánægjulegt að sjá að fulltrúar í ráðinu, bæði í meiri- og minnihluta ræða málefni leikskólans af miklum heilindum og leita af mikilli einlægni leiða til að skapa forsendur til að skólarnir geti ástundað og eflt faglegt starf sitt með sem minnstri truflun af manneklu og öðrum draugum sem hafa gerst þaulsetnir á þessum vettvangi. Ánægðust af öllu er ég með að verið er að leita leiða til að losa okkur við þessa drauga til framtíðar fremur en að slökkva einhverja elda tímabundið. Auðvitað uppskerum við ekki árangur af slíkum aðgerðum núna í haust en vonandi innan einhverra ára. 

Nú svo er það auðvitað okkar sem störfum í leikskólunum að koma því út í samfélagið hvað þetta er  ofboðslega skemmtilegt og gefandi starf. 

 


Vettvangsnám og útikennsla

Ég hef s.l. tvo daga setið stórskemmtilega námsstefnu Skólaþróunarfélagsins um vettvangsnám og útikennslu.

 Fyrir hádegi var boðið upp á stórskemmtileg erindi um mörg afbragðsgóð verkefni sem verið er að vinna víðsvegar í leik- og grunnskólum og eftir hádegi var farið á vettvang.

Heldur fannst mér reyndar halla á leikskólann bæði í erindum og þátttöku á námsstefnunni en það breytir ekki því að erindin voru flest afskaplega skemmtileg og sýndu að fjölmargir eru að vinna mjög spennandi starf.

Það er erfitt að velja eitthvað úr til að nefna hér en erindi um íþróttakennslu og heimilisfræði úti undir berum himni þóttu mér mjög áhugaverð auk erindis um verkefni sem unnið var með drengjum sem áttu erfitt uppdráttar í skólanum og að lokum tvö erindi um útivist og fjallamennsku með krökkunum, þar var ég t.d stórhrifin að starfi Smáraskóla þar sem eftir markvissan undibúning frá sex ára aldri er farið með 8. bekk og Laugavegurinn genginn og 9. og 10. bekkirnir fara í hjólaferðir um fjallabaksleiðir nyrðri og svo syðri. 

Við Heiða völdum okkur svo að fara á vettvang annars vegar í útikennslustofu Norðlingaskóla í Björnslundi og hins vegar í Fossvogs- og Elliðaárdal undir leiðsögn kennara úr Fossvogsskóla.

Við fórum auðvitað heim fullar af fróðleik og hugmyndum eftir þessa tvo daga - þó ekki hafi verið laust við glott út í annað þegar grunnskólafólkið lýsti verkefnum og vinnulagi sem lengi hefur verið ástundað í leikskólanum sem nýjum sannleika. Það er þó sannarlega ánægjulegt að grunnskólinn skuli í auknum mæli nota leikinn og nánasta umhverfi barnanna til náms Smile


Er Guð kona?

 Við Hlöðufell

Þessi mynd er ekki tekin við Upptyppinga þótt halda mætti það.

Þetta fagurlimaða sköpunarverk almættisins er að finna við Hlöðufell þar sem fjölskyldan var á ferð um helgina. Yngsti hrútur hafði á orði þegar hann sá þetta: Ég sé það núna að  Guð hlýtur að vera kona!


Meira um verðgildi spegla

Hef verið að velta þessu fyrir mér með verð á speglum - svona almennt.

Mér fyndist rökrétt að fallegt fólk borgaði meira fyrir spegla en við hin - ég meina það liggur í augum uppi að það fær mikið meira út úr spegilmyndinni.

Fyrir fallega hlýtur það að spegla sig að fela í sér ótvíræða ánægju á meðan aðrir fyllast depurð yfir spegilmyndinni og ættu eiginlega að fá greitt fyrir að spegla sig.

 _____________________________________________________________

Annars er ég að velta því fyrir mér hver þið eruð sem lesið þetta pár mitt. Þekki ég ykkur? Veit að Gunnar, Beta, Særún og Sveinn líta inn öðru hverju en þætti voða gaman að vita ef ég þekki fleiri sem líta hérna við.


Þvílík fyrirmynd

Nú er hér fullur pottur af eftirvæntingarfullum hrútum sem á morgun fljúga í sól og sumarsælu á Tenerife en sjálf ligg ég andlaus yfir Gilmore Girls (sem láta móðan mása í hrikalegum orðaflaumi) líkt og ég hafi staðið í ströngu í allan dag.

Glætan, fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí fór um mig ljúfum höndum og það sem þjakar mig kallast einfaldlega LETI.  Og svo þykist maður þess fullfær að vera ungum börnum fyrirmynd í lífsleikni: Já, ljósin mín, á kvöldin liggur maður endilangur fyrir framan innihaldslausa "löðurþætti" - það gefur lífinu gildi Blush


Hvað á kona að gera...

...síðasta daginn í sumarleyfinu?

Kostirnir eru: 

  • Taka lokahnykkinn í stórtiltekt á heimilinu, í bílskúr og geymslu, sem þegar hefur skilað Sorpu sjö kerrum af dóti sem fékk úrskurðinn: Óþarfi að geyma!
  • Sökkva sér í moldarbeðin þar sem arfinn er farinn að stinga upp kollinum og þrífa svo bílinn vel - vonandi í síðasta sinn Cool
  • Dekra við fjölskylduna með vöfflubakstri um miðjan daginn, góðri grillsteik í kvöld og leggjast svo í heita pottinn.
  • Klára Kínafærslur Whistling
  • Hjúfra sig upp í sófa yfir spennandi lesningu og látast vera ein í heiminum.


Kannski ég leiti til ákvarðanaþjónustu Birnu Írisar frænku minnar.


Veldu öryggi, veldu Renault...

...glymur í útvarpinu af og til þessa dagana.

Hér er mín reynsla af Renault:

Árið 1999 keyptum við nýjan Renault Megane úr kassanum. Fyrstu dagarnir voru jú bara góðir og ég ánægð með bílinn en svo fór að síga á ógæfuhliðina og bíllinn varð fastagestur á verkstæðinu þeirra. Læsingarkerfið og þjófavörnin bilaði, skipta þurfti um bremsubúnað og bensíndælan gaf sig, svo eitthvað sé nefnt.

Sex árum eftir kaup á bílnum, 2005, fór svo sjálfskiptingin Devil Við vildum bara ekki trúa þessu og lengi vel stóð bíllinn hér inni í lóð en á endanum urðum við að bíta í það súra epli að við sætum uppi með ónýtan bíl.

Hann fór í brotajárn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband