8. september kl. 22.10 á Shanghai hóteli:
12.2.2007 | 16:54
Skrýtið að hér sé komið kvöld og við skriðin uppí en kl. bara 14.10 heima. Mér finnst hálf óþægilegt að vera svona á öðru tímaplani en strákarnir.
Annars hefur þessi fyrsti dagur á kínverskri grund verið góður. Ég svaf reyndar allt of lítið í vélinni og er því orðin ansi lúin núna. En allt gekk samt ferðalagið vel og fyrsta reynsla gefur vísbendingar um að allt skipulag sé til fyrirmyndar. Rútur mættar á réttum tíma og allt slíkt. Það vantar heldur ekki mannskapinn til að passa upp á okkur því hér tók á móti okkur kínverskur fararstjóri, Bin Wang, sem kemur til með að fylgja okkur alla ferðina en auk hans verður með okkur staðarfararstjóri á hverjum stað. Einn slíkur tók á móti okkur og var með okkur fyrri hluta dagsins. Hann mun áður hafa verið þeim félögum Magnúsi og Bin innan handar en tilkynnti okkur það að hann gæti ekki verið með okkur á morgun þar sem hann þyrfti að fylgja dóttur sinni í skólann þar sem þá væri fyrsti dagurinn hennar í háskólanum. Það var ekki laust við að mörlandinn glotti úti í annað við þessar fréttir enda venjan öll önnur heima á Fróni þar sem börnin valsa sjálf í skólann frá sex ára aldri. En hinn kínverski faðir brosti stolltur út í bæði og skildi örugglega brosviprurnar okkar svo að við samgleddumst honum innilega sem við svo sem gerðum auðvitað.
En hvað um það. Fyrstu kynni af Kína gefa fyrirheit um margvíslega upplifun næstu dagana. Við byrjuðum á að ferðst með hraðlest frá flugvellinum inn í borgina. Það var ekki laust við að aðeins færi um mann þegar hraðamælirinn í farþegavagninum sýndi 431 km úff maður verður bara að vona að þeir kunni til verka blessaðir þegar þeir ganga frá svona farartæki. Allavega komumst við heilu og höldnu alla leið.
Þar sem töskurnar okkar ferðuðust með mun hægfarnara farartæki inn til borgarinnar en við sjálf, höfðum við aðeins örstutta viðkomu á Shanghai hóteli. Við Sveinn gáfum okkur þó örlítinn tíma til að fylgjast með verkamönnum hátt uppi í stillönsum aftan við hótelið þar sem þeir unnu vinnuna sína á tágamottum sem lagðar höfðu verið yfir tvo búkka. Úpps, ekki víst að vinnueftirlitið heima myndi samþykkja þessa vinnuaðstöðu. En okkur var ekki til setunnar boðið að þessu sinni og héldum því út til að fá fyrstu upplifun af hinu kínverska þjóðfélagi.
Mannhafið er ótrúlegt, uppbyggingin nánast óhugnanleg og andstæðurnar blasa alls staðar við. Gömul fátækleg hverfi þar sem íbúarnir deila saman kamri á einhverju götuhorninu kallast á við blokkarhverfi, glæsileg háhýsi og glæsihótel. Heilu hverfin eru rifin niður og fólkið flutt í blokkir sem hver gæti rúmað alla Grafarvogsbúa án teljandi vandræða.
Við héldum niður að á sem rennur í gegnum Shanghai. Ekki get ég nú með nokkru móti munað hvað þessi á heitir en hún mun vera síðasta þverá Yangtse-fljóts sem við munum sigla á eftir nokkra daga. Við ána var mikill mannfjöldi en þarna mun vera vinsælt að koma við og rölta meðfram ánni. Sölufólkið þyrptist auðvitað eins og mý á mykjuskán utan um okkur, um leið og við stigum fæti út úr rútunni, bjóðandi forláta Lolex og shjúshjú. Lolex stendur auðvitað fyrir Rolex og það rifjaðist upp frá íslenskunáminu að Kínverjar gera ekki greinarmun á hljóðunum L og R. Shjú-shjú voru hins vegar eins konar hjólaskautar, tvo hjól sem fest eru við hælinn á skónum manns. Við féllum nú hvorki fyrir Lolex né sjú-sjú, enda fælir svona ágengni mig nú frá viðskiptum frekar en hitt.
Það vakti hins vegar athygli mína að margir nöguðu maísstöngla sem þarna voru seldir eins og hver annar skyndibiti auk þess sem kaupa mátti tálgaðar kókoshnetur með röri. Pizzur og pylsur með öllu, voru hins vegar víðsfjarri enda ekki að sjá að kínverjarnir ættu í baráttu við aukakílóin eins og við þessir framandi gestir.
Fyrir utan það að mannlífið vakti mestan áhuga minn var gaman að sjá ótrúlegar byggingarnar handan við ána. Þarna mátti sjá skýjakljúfa, turna og margvíslegar byggingar en þarna hafa Kínverjarnir fengið arkitekta víðsvegar að úr heiminum til að láta ljós sitt skína.
Eftir þessa skoðunarferð var haldið aftur upp á hótel og eftir sturtu og smá shæningu var haldið á kínverskan matsölustað. Við fengum úrvals góðan mat og tókumst í fyrsta skipti á við matprjónana sem ég er ákveðin í að nota alla ferðina. Ég sleppti reyndar öllu því sterkasta við þetta borðhald þar sem smugan er enn að hrella mig.
Eftir kvöldmatinn var síðan keyrt um borgina og Shanghai skoðuð, nú skrýdd kvöldljósunum sem voru satt að segja mikilfengleg. Við fórum m.a. upp í fjórðu hæstu byggingu heims, sem Magnús kallaði hús verslunarinnar en heitir Jinmao tower (Háhýsið rétt hægra megin við Svein á myndinni hér að ofan). Við fórum upp á 88. hæð og horfðum yfir ljósin í borginni og ég sendi kort til Reynisholts sem spennandi verður að sjá hvort kemst alla leið.
Í þessari skoðunarferð kom í ljós að okkar verður gætt eins og kornabarna í þessari ferð. Við þurftum auðvitað ekki að standa sjálf í því að kaupa okkur miða inn í háhýsið, heldur sáu fararstjórarnir um það. Þeir fylgdust síðan vel með okkur og töldu okkur eins og fé í rétt til að tryggja að enginn yrði nú eftir einhvers staðar. Til að byrja með var ég alveg við það að verða svolítið stressuð með þeim og reyndi að hafa yfirsýn yfir það hvort allir væru nú ekki á sínum stað en ákvað síðan að það væri hreinlega ekki í mínum verkahring hér, heldur eingöngu það að hlýða þeim fyrirmælum sem þessir mætu menn gæfu okkur og vera sjálf á réttum tað á réttum tíma. Sem sagt fyrirmyndar túristi í lúxus fríi.
Á morgun er spennandi dagur framundan hér í borginni - en NÚNA bíður svefninn á þessu harða rúmi iss það gerir ekkert til ég svæfi á hverju sem er eftir þetta laaaanga ferðalag.
ZZZZZzzzzzzz
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 15.2.2007 kl. 21:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.