Færsluflokkur: Dægurmál
Fiskur
25.11.2007 | 12:50
Ég má til með að mæla með þessari litlu bók sem ég var að ljúka við rétt í þessu. Fljótleg og létt lesning sem skilur mikið eftir.
Hún er kynnt sem leið til að auka vinnugleði og starfsárangur en á ekki síður við í daglegu lífi. Það er nefnilega ótrúlegt hvernig viðhorf okkar og hugarfar getur skipt sköpum í daglegu amstri.
Þegar ég hafði lokið við bókina leit ég inn á bloggsíðu sem ég les daglega þó ég þekki konuna ekkert sem þar situr við lyklaborðið. En þegar ég las færsluna hennar í dag gerði ég mér grein fyrir að það sem hún skrifar uppfyllir allt það sem þessi bók mælir með.
Sjálf hef ég sett lykilatriðin í bókinni upp á blað sem ég mun hengja upp fyrir ofan skrifborðið mitt í vinnunni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Margrét Pála og mönnunin
10.8.2007 | 20:42
Margrét Pála er sannarlega mikilhæfur leikskólakennari og hefur lagt fram fjölmargar góðar hugmyndir um leikskólastarf og vakið okkur hin til umhugsunar um fjölmarga þarfa hluti.
Ég hef ekki alltaf verið sammála Margréti Pálu í áranna rás, kannski síst hér á árum áður þegar hún var í fremstu víglínu í félaginu okkar og gat í einu vetfangi snúið stútfullum sal af leikskólakennurum með kjarnyrtum erindum úr pontu oft gapti ég af undrun yfir sannfæringamætti hennar. Henni sæmdi oft vel heitið áróðursmeistari.
Á þessum árum hefði ég þorað að hengja mig upp á það að Margrét Pála yrði síðasti leikskólakennarinn sem fengi trú á einkarekstri í skólastarfi og yrði í því tilliti bæði forgöngumaður og stórtækust okkar allra, þegar fram liðu stundir.
Þó ég hafi sjálf alla tíð unnið í leikskólum sem reknir eru af opinberum aðilum er ég mjög hlynnt margvíslegu rekstrarformi leikskóla og fagna sannarlega velgengni Hjallastefnunnar. Ég trúi því nefnilega að frelsi fagmanna til að fylgja eftir fagvitund sinni og sannfæringu skili okkur bestu skólunum. Ég vil líka að foreldrar hafi sem mest val fyrir börn sín og tel þá hæfustu aðilana til að velja með velferð barnanna í huga.
Nú hefur Margrét Pála enn og aftur kveðið sér hljóðs og vakið athygli fjölmiðla vegna nýja leik- og grunnskólans sem er í burðarliðnum á gamla varnarliðssvæðinu og það sem mesta athygli vekur er að þar komast færri að en vilja til starfa í hinum nýja skóla. Margrét Pála hefur auðvitað skýringar á reiðum höndum og selur vöruna stolt og kotroskin eins og hennar er von og vísa. Jú, hærri laun, nefndi hún, sveigjanlegan vinnutíma og skýra stefnu.
Þar sem Margrét Pála sagði launamuninn ekki vera teljandi efast ég um að hann skipti þarna sköpum. Hvað sveigjanlegum vinnutíma og skýrri stefnu líður þá bjóða fjölmargir leikskólar upp slíkt hið sama og tel ég t.d. að við í Reynisholti getum staðið undir þeirri lýsingu ekkert síður en Hjallastefnan.
Hver er þá skýringin á þessari velgengni við að manna hinn nýja skóla á gamla varnarliðssvæðinu, hmmm
Það skyldi þó ekki vera að ástæðan sé öllu einfaldari og kannski ögn ómerkilegri en Margrét Pála vill vera láta?
Mín kenning er þessi:
Þarna er á örstuttum tíma að verða til byggð töluverðs fjölda fólks, námsfólks sem þarna á kost á ódýru húsnæði. Leiða má að því líkum að í allmörgum tilfellum sé um sambúðarfólk eða hjón að ræða þar sem annað er í námi en hitt ekki, fyrir liggur því að leita sér að vinnu til að skaffa salt í grautinn. Hmmm, hverjir eru þá atvinnumöguleikar á gamla varnarliðssvæðinu? Það skyldi þó ekki vera að enn sem komið er sé helsti kosturinn og kannski nánast sá eini, að sækja um vinnu við leik- og grunnskóla hins nýja samfélags?
En hvort sem ég hef rétt fyrir mér eða ekki þá er ánægjulegt að til sé leikskóli þar sem barist er um stöðurnar. Það hlýtur að vera sérlega ánægjulegt að opna nýjan skóla við slíkar aðstæður og ég óska Margréti Pálu innilega til hamingju.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dýr myndi Hafliði allur
8.8.2007 | 18:28
Ekki veit ég með vissu hvernig synir mínir fóru að - en eftir einn bíltúrinn á bílnum MÍNUM - hafði þeim tekist að kippa baksýnisspeglinum af kúlulegunni með þeim afleiðingum að brestir komu í framrúðuna. Nú er búið að skipta um framrúðuna og svo sem engin stórútgjöld þar - en SPEGILLINN.
Þeim sem setti nýja rúðu í farartækið tókst ekki - þrátt fyrir ýmsar tilfæringar, að eigin sögn - að koma speglinum saman.
Næst var að hringja í umboðið - nei engin trikk sem þeir bjuggu yfir.
Í dag lá svo leiðin í varahlutaverslun með hinn sundurlimaða spegil í farteskinu. Viðkunnalegur útvaxinn karlpeningur á besta aldri (töluvert eldri en ég) leit spegilinn ábúðarfullur á svip og mér var samstundir ljóst að þeim gamla yrði ekki viðbjargað.
Hvað er númerið á bílnum? spurði hann og sló svo þessar persónuupplýsingar um Corolluna mína inn í tölvuna fyrir framan sig með krúttaralegum pulsuputtunum. Æ, ég fell alltaf fyrir skítugum verklegum köllum sem slá á lyklaborð með feitum pulsuputtum.
Já, þetta er upprunalegur spegill! Ég játti því og velti fyrir mér hvaða fleiri upplýsingar hann hefði eiginlega aðgang að í gegnum númerið á bílnum mínum.
Hmm, nýr kostar 8400 kr! kvað hann upp.
Ha, sagðirðu 8400 krónur? Baksýnisspegill í bílinn? spurði ég örugglega eins og hissa Ólsari á svipinn.
Er ekki hægt að fá ódýrari týpu? reyndi ég næst vongóð og brosti undurblítt.
Hann hristi hausinn - The computer says nooo... Dísös er ég komin í Little Britain hugsaði ég og skimaði eftir falinni myndavél
Með hundshaus rúllaði ég heim - orðinn skolli flink að nota bara hliðarspeglana - en spegillinn verður kominn á morgun og þá mæti ég með budduna og hið súra epli sem æði oft er eini kosturinn .
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Shaving Iceland
4.8.2007 | 19:10
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)