Færsluflokkur: Bloggar

Smá skýrsla

Jæja, kallinn að hressast eftir þessa pest sem helltist yfir hann með þvílíku trukki á mánudag að manni varð um og ó.

Nú og ég með harðlæst og lokað eyra þannig að það örlar ekki á svo mikið sem votti af són í símanum frekar en ef ég bæri banana upp að eyranu Frown. Skollinn og ég á leið í æfingabúðir - veit ekki alveg hvernig það kemur til með að ganga!

Þetta byrjaði á sunnudaginn - var skolli slæmt á æfingu á þriðjudag - og verst í dag - . Samt jók ég sjálf lyfið mitt um helming á þriðjudaginn þar sem ég fæ ekki tíma hjá doksanum fyrr en á næsta þriðjudag.

Þetta er svo sem léttvægt vandamál miðað við það sem margur annar er að glíma við - en skolli er það óþægilegt samt - maður er svolítið svona eins og út á þekju - Fúnkera ekki alveg inni á deild og verð hrikalega þreytt í svona klið og við að reyna að halda þræði við blessuð börnin.

Veit ekki heldur hvað foreldrar halda þegar ég hvái sí og æ þegar þeir reyna að tala við mig. Sussu sussu, hvað hann er tregur þessi aðstoðarleikskólastjóri!


Gleðidagur

Mikið sem mitt miðaldra móðurhjarta er glatt í dag Smile

Ástæðan er sú að þetta frábæra unga fólk hefur nú sett upp hringa!

 

 

Innilega til hamingju, elsku krakkarnir mínir. 

 


Kaffiprófið

 
Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Espresso!
30 ml af mikið brenndu eðalkaffi.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?
 

Espresso!

Þú ert með eindæmum sjálfsöruggur einstaklingur. Þú ert vandvirkur og samviskusamur en lætur það þó stundum eftir þér að fresta verkefnum til morguns. Þú ert á sífelldri hraðferð án þess þó að það hái þér á nokkurn hátt.

Þú ert 30 ml af mikið brenndu eðalkaffi.

 

Jahá, þá veit ég það! 

 

Formaðurinn

20070812 Hlöðufell 037

Þessi kappi gegnir nú eingöngu nafninu, Björn formaður.

Flottur!

 


Góð spurning

Ég var að segja mínum ekta maka frá því að nú hefði Léttsveitin mín tekið að sér að klappa í nýjum sjónvarpsþætti og að því miður næði ég því ekki að  taka þátt . Þá spurði þessi elska svo skynsamlega eins og oft áður:

Hvað eruð þið að gefa ykkur út fyrir að klappa þegar þið getið sungið?


Frjór barnshugur

Ég snæddi í dag miðdegishressingu í góðum félagsskap nokkurra ungra drengja.

Á borðum var m.a. heimabakað brauð. Einn drengjanna plokkaði korn úr brauðinu, svona eins og títt er að börn geri, hann horfði íbygginn á kornið og sagði: "Hmm.. fræ! Ef ég set það í jörðina vex kannski tré með brauðum!"


Ljós í myrkri

Nú hafa handverksmenn Yoko blessaðrar Ono verið að prófa friðarsúluna í Viðey, bæði í gær og í kvöld, og mikið finnst mér þetta fallegt.

Ljósgeislinn blasir auðvitað við okkur hér út um gluggana og áðan teygði hann sig upp í himinhvolfið þar sem við lágum í pottinum. 

Mér finnst þetta einstaklega fallegt og táknrænt listaverk sem sýnir að máttur ljóssins er mikill; lítið ljós í myrkri, boðberi þess að alltaf er von og að ekki þarf mikið til að rjúfa svartnættið. 


Verkaskipting kynjanna

Hér á heimilinu, eins og víða annarsstaðar, er greinileg verkaskipting kynjanna og hallar þar æði mikið á annað okkar hjóna. 

Við vinnum t.d. bæði fulla vinnu utan heimilis en annað okkar hugsar nánast alla daga fyrir staðgóðum kvöldverði fyrir þessa sex einstaklinga sem hér búa, finnur spennandi uppskriftir á netinu, fer að vinnudegi loknum til að kaupa í matinn og eyðir svo löngum tíma í eldhúsinu við matargerð. 

Hitt okkar lýkur sínum vinnudegi og fer iðulega í einhver dekurverkefni en sest síðan að dýrindis kvöldverði án þess að hafa nokkuð þurft fyrir honum að hafa. 

Þetta er auðvitað hróplegt misrétti – en mikið hrikalega nýt ég þess!


Sagnir

Nýi veðurfréttamaðurinn hjá Ríkissjónvarpinu, sem ég veit ekki hvað heitir en gerir mig alltaf svolítið stressaða, hamaðist að vanda á skjánum áðan.

Ég reyndi að horfa ekki á hann - enda slök og fín eftir nudd dagsins - komst þó ekki hjá því að heyra hann boða það að í einhverjum landshlutum gæri farið að snjóa eða slydda

Hef ekki áður heyrt sögnina að slydda! Hún er þó ekki verri en sögnin að jólaskreyta sem ég hef heyrt nokkrum sinnum á síðustu árum. 


Lét verkinn tala

Ég fór í mitt reglulega nudd núna eftir vinnu. Dásamlegt og endurnærandi að venju og eins og venjulega spjölluðum við Jóna eitt og annað á meðan hún fór um mig sínum græðandi höndum. Vorum að ræða mikilvægt málefni sem Jóna sagði best að hafa ekki stór orð um heldur láta verkin tala.

Og það get ég svarið ykkur að hún náði því að láta verkinn tala - ææ, óó aumingja ég!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband