Komin heim
1.7.2008 | 20:14
Fyrir meira en áratug spurði Nenni minn: Ingibjörg, eigum við ekki að leigja okkur skútu og sigla um suðrænar slóðir þegar ég verð fimmtugur? Jú, jú, sagði ég, af því að þegar maður er á fertugsaldri er einhvernvegin algerlega án ábyrgðar að svara einhverju játandi sem á að gerast þegar maður verður um fimmtugt.
En hugmyndin lifði, var reglulega rifjuð upp og smám saman varð ljóst að í fyllingu tímans var henni ætlað að verða að veruleika og nú er það bara búið og gert ótrúlegt!
Já, við erum sem sagt komin heim eftir þriggja vikna ævintýralega siglingu um grísku eyjarnar! Tókum við þessum dásamlega 43,5 feta báti í Aþenu þann 8. júní og áttum síðan viðkomu í víkum og höfnum, eina til þrjár nætur á hverjum stað allt til 29. júní þegar við skiluðum bátnum: Aþena Sounio Kithnos Paros Naxos Ios Santorini Foligandros Sifnos Kithnos Poros Kórfos Aþena.
Það verður að bíða betri tíma að segja ykkur meira frá siglingunni, upplifuninni, vindum og vindleysi, hita og svita, sjóböðum og sólböðum, sældarlífi, slökun og streitustundum, næturvöktum og svefni undir stjörnubjörtum himni, gestrisni Grikkja og óprúttnum leigubílstjórum.
Ég ætlaði reyndar að leyfa ykkur að sjá eina eða tvær myndir úr ferðinni en kerfið vill alls ekki taka við myndunum mínum þannig að það verður líka að bíða betri tíma.
Athugasemdir
Velkomin heim,- þetta hlýtur að hafa verið geggjað,- hlakka til að sjá myndir og lesa ferðasögu ;)
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 2.7.2008 kl. 09:30
Velkomin heim vinkona hlakka til að hitta þig og fá að lesa ferðasögu og skoða myndir sem vonandi vilja á vefinn. Já og til hamingju með bóndann
Særún (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 14:35
Takk fyrir það, báðar tvær - en það er full snemmt að taka við hamingjuóskum vegna bóndans - hann verður nefnilega ekki fimmtugur fyrr en í desember - það er bara ómögulegur tími til siglinga svo að...
Ingibjörg Margrét , 2.7.2008 kl. 16:04
Frábært að láta draumana rætast og gott hjá bóndanum að hafa svona góðan fyrirvara á þessu...hvað ætlið þið svo að gera þegar þú verður fimmtug einn góðan veðurdag?
Gróa (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 19:24
Já velkomin heim, elskan mín. Gaman að fá þig í heimsókn í gær, svona sólbrúna og sæta, með fangið fullt af vínarbrauðum og fá alla ferðasöguna og að ég tali nú ekki um að fá að sjá þessar dásamlegu myndir. Ég held að þær hafi bara næstum allar snúið rétt, það voru ekki nema rétt um 300 myndir á hlið og það er nú ekki mikið miðað við allar þessar myndir
Beta (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 11:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.