Vetrarfrí

Það er skondið þetta vetrarfrí sem hefur verið að festa rætur í grunnskólunum síðustu ár. Auðvitað falleg hugsun um að brjóta upp hversdaginn hjá börnunum svo þau geti notið samvista með fjölskyldum sínum - geri ég ráð fyrir - en gengur bara ekki upp.

Nú er það auðvitað svo að áhyggjum mínum vegna þessara daga er lokið og unglingurinn minn sér um það sjálfur að hafa ofan af fyrir sér þessa daga og finnst þeim fylgja kærkomin hvíld og frelsi. En ég verð óneitanlega vör við að margir foreldrar eru í vandræðum.

Það eru nefnilega ekki margir sem hafa tök á að taka sér frí frá vinnu. Í mínu starfsumhverfi eru t.d. lang flestir starfsmenn foreldrar grunnskólabarna en það gefur augaleið að þeir geta ekki allir fengið fri þessa daga. Það tíðkast nefnilega ekki að leikskólabörnin fái frí. Ég man það t.d. eitt árið stuttu eftir að vetrarfríin komust á að við vorum með nokkur börn á deildinni sem áttu grunnskólakennara sem foreldra og það verður að segjast alveg eins og er (þó það megi kannski ekki segja svona hluti) að við urðum mjög hissa og kannski örlítið sárar þegar þessi börn mættu eins og venjulega í leikskólann. Okkur langaði nefnilega mikið til að geta tekið okkur frí til að vera með okkar eigin börnum heima.

 Ef þessir dagar eiga að nýtast fjölskyldum til samveru, verður að verða einhver þjóðarsátt um að sem flestir fái svigrúm til að vera heima. Ef þeir sem eru í fríi nýta tækifærið til að nota sem mesta þjónustu annarra er ljóst að þetta gengur ekki upp. Ef reyndin er sú að við notum dagana til að fara nú loksins í klippinguna, nuddið, í líkamsræktina eða á búðarrápið sem okkur hefur svo lengi dreymt um er ljóst að fólkið sem við það vinnur hefur ekki tök á að nýta þessa daga með sínum börnum. 

Niðurstaða mín er sem sagt: Vetrarfrí eru skekkja sem bara virka ekki eins og þeim er ætlað. 

 

PS:

Eru vetrarfrí ekki dæmi um menningarlega mishröðun sem mig minnir að hafi verið hugtak í félagsfræðinni í gamla daga?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála, eins og svo oft áður.  Maður spyr sig hvert markmiðið hafi verið þegar þessi vetrarfrí voru ákveðin á sínum tíma.  Kannski hafa skólarnir talið sig vera það góðan þrýstihóp að þeir gætu komið vetrarfríum almennt á í samfélaginu...vildi að það væri svo gott.  Mér finnst góður punktur hjá þér í sambandi við að nýta sér þjónustu annarra í vetrarfríinu, hvað myndi fólk gera ef allt væri lokað (nema kannski 10-11)?  Vera búin að fylla ísskápinn þannig að enginn þurfi að svelta og eyða svo tímanum með fjölskyldu og/eða vinum.  Mér finnst það hljóma vel.

Gróa (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 11:33

2 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

En halló,- það er svosem til fullt af vinnandi fólki sem ekki á börn !!!

Mér finnst mjög margir vera farnir að nýta vetrarfríin með börnunum sínum og held að þetta sé nú bara mjög góð og þörf áminning til vinnuþjakaðra foreldra á Íslandi.

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 17.2.2008 kl. 17:58

3 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Já, Þórhildur þetta er alveg rétt hjá þér - og ég er sjálf að sigla inn í þann hóp að geta staðið vaktina til að aðrir geti tekið frí með börnunum - og hef svo sem gert það undanfarin ár.

Sem betur fer geta alltaf tvær eða þrjár (vinn því miður ekki með karlmönnum) tekið sér frí þessa daga en hinar eru mikið fleiri sem myndu vilja en geta ekki þar sem vinnustaðurinn má ekki við því að missa fleiri af vettvangi. Og ég verð að segja alveg eins og er að ég verð ekki vör við að fólk sé almennt að taka sér frí með börnunum, því miður.

Ingibjörg Margrét , 17.2.2008 kl. 18:36

4 identicon

Sammála þér Ingibjörg, þessi vetrafrí er sko ekki að virka eins og þau áttu að gera. Það er ekki nema örlítið brot af foreldrum sem hafa tök á því að taka frí með börnum sínum. Ég vil þessi vetrafrí burt og láta skóla frekar hætta fyrr á vorin. Og hana nú!

Beta (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband