Helgarblogg

Jæja, þá hefur janúar runnið sitt skeið á ógnarhraða og þrenningin bollu-, sprengi, og öskudagur banka uppá alltof snemma. 

Nú, Sveinn og miðlungurinn brugðu sér í jöklaferð um helgina og við Bangsi minn höfum notað daginn í að baksa við að hylja loksins rauða litinn sem einkennt hefur eldhús/borðstofuvegginn hér á heimilinu í alltof mörg ár. Núna tekur á móti manni ljós, mildur og hlýr tónn sem heitir víst sand í málningarbæklingum. Voða mikill munur og borðstofan stækkaði held ég bara um eitt númer, sem er mjög æskilegt þegar maður er borðstofa.

Nú og svo var ég í gærkvöldi með mína kæru trukka (sem vilja ekki að vera trukkar heldur þykjast vera blúndur) í mat og huggulegheitum. Það var kínverskt þema hjá okkur því sökum anna (hehemm) lét ég þá hjá Nings bara sjá um matseldina. Nú með því fékk ég líka tækifæri til að nota matprjónana mína góðu frá Kínaferðinni.   Mikið skelfing sem mér finnst annars vænt um þessar vinkonur mínar og hvað við eigum alltaf góðar stundir saman. Takk stelpur mínar fyrir að vera nákvæmlega eins og þið eruð InLove

Nú annars ætla ég bara að nota helgina í  Himnaríki og helvíti en hún er næst í röðinni af jólabókunum. Sýnist textinn vera algert konfekt og hlakka til að sökkva mér í hana á morgun, svona meðfram bollubakstrinum. Hef annars bara náð að torga þó nokkrum bókum frá jólum og hef notið þeirra allra. Arnaldur var fyrstur og stóð alveg undir væntingum enda ávallt áreynslulaus og flæðandi lesning og akkúrat það sem ég þurfti yfir jóladagana. Nú svo tóku Þúsund bjartar sólir við og hún ætti nú bara að vera skyldulesning. Næst var það Afleggjarinn hennar Auðar Ólafs sem kom mér skemmtilega á óvart og nú er ég ákveðin í að lesa Rigningu í nóvember sem ég hef ekki komið í verk að lesa þrátt fyrir að hún hafi staðið hér í hillu frá síðustu jólum (eða kannski þar síðustu?). Jæja, svo kláraði ég Bíbí Vigdísar Gríms og hafði bara gaman af, þ.e.a.s. ef maður getur orðað það þannig, finnst eiginlega ótrúlegt að samtímafólk manns búi yfir svona bakgrunni og lífshlaupi. Nú, svo hafa Leyndarmálið og Þú ert það sem þú hugsar legið á náttborðinu frá jólum ásamt Vinamóti Bergþórs Pálssonar og það hefur verið fínt að glugga í þær svona inn á milli. Sé samt að ég á langt í land með að verða sá gestgjafi, nú eða gestur, sem hann svili minn mælir með Blush.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rakst á síðuna fyrir algjöra tilviljun og búin að setja hana í favorites. Hlakka til að heimsækja þetta skemmtilega blogg þitt. kveðja, Anna Magga

Anna Margrét (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 19:53

2 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Sæl Anna Magga mín, mikið er gaman að sjá þig hér inni - ert þú kannski með eitthvað svona pár á veraldarvefnum?

Ingibjörg Margrét , 2.2.2008 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband