Obbobobb
20.1.2008 | 21:50
Árið bara þýtur áfram með fjölbreyttum verkefnum og skemmtunum og lofar sannarlega góðu skal ég segja ykkur. Ég ætla nú samt að gefa mér tíma af og til, til að pikka hér inn svona einhver brot af því besta og nú er góður tími. Ég sit reyndar hér, afar þakklát fyrir samskiptatækni nútímans - að þessu sinni NMT símann - og hef í dag reynt að fylgjast með ferðum þeirra feðga Sveins og Gunnars, ásamt Gunnari hennar Betu minnar, sem sitja í 18 jeppa halarófu á Langjökli og hafa gert frá því í gær. Ferðinni var heitið yfir jökul og á Hveravelli í gær en færðin og veðrið hefur verið alveg glórulaust svo einhvern tíma í nótt, held ég, var snúið við og haldið til baka og bílalestin mjakast áfram á tæplega gönguhraða svo kapparnir búast ekki við að komast til byggða fyrr en í fyrramálið.
Ég hafði í raun ætlað með í þessa ferð en var forðað frá því þegar boðskort um fimmtugsafmæli, sem ég endilega vildi sitja, barst inn um lúguna í upphafi árs. Reyndar er það annað fimmtugsafmælið sem ég fer í á þessu ári en eiginmenn okkar vinkvenna hamast nú við að fylla fimmta tuginn - og þvílík afmæli!! Ég held að ég hafi bara sjaldan skemmt mér eins vel - enda afmælisbörnin svo grand á því að bjóða gestum sínum upp á skemmtidagskrá sem sæmt hefði árshátíð hvaða stórfyrirtækis sem er.
Diddi, vinur minn til 30 ára og eiginmaður minnar dásamlegu vinkonu, Birnu, bauð sínum gestum upp á ekkert minna en dansleik með hljómsveitinni Mannakorn. Og þvílík stemning! Kappinn á auðvitað heiðurinn af því að hafa spilað þessi lög og sungið þau með okkur vinum sínum í öll þessi ár og þarna var samankominn 100 manna fanklúbbur. Nú og auðvitað söng afmælisbarnið með þeim nánast allt kvöldið. Það stóð reyndar bara til að hann tæki eitt eða tvö lög en þegar kapparnir sáu og heyrðu að afmælisbarnið kunni lögin og textana ekkert verr en þeir sjálfir og var í ofanálag hörkusöngvari þá stóðust þeir ekki sjálfir mátið að láta hann bara halda áfram. Og stemningin var þvílík að hafi einhver verið haldinn einhverjum hömlum þegar hann mætti á svæðið þá voru þær hömlur víðsfjarri þegar leið á kvöldið.
Nú og hitt fimmtugsafmælið var ekki síðra, enda biðu þar skemmtikraftar í röðum baksviðs. Þar komu m.a. fram snillingar eins og Magni sem hreif hjörtu allra kvenkosta í veislunni og svo sá óborganlegi drengur Björgvin Frans. Þvílíkur snillingur sem sá drengur er.
Nú og þrátt fyrir nokkra flensudaga í bælinu hefur vinnuárið farið af stað með þvílíku trukki s.s. frumraun minni í námskeiðshaldi, fundahöldum, sjónvarpsupptöku, flensumanneklu og dásamlegri samveru með þessum frábæru börnum sem eru í Reynisholti. Finn það alltaf best þegar ég þarf að leysa mikið af inni á deild hvað mér þykir óskaplega vænt um þessar frábæru litlu mannverur sem eru svo einlægar, opnar og skemmtilegar. Vildi bara að við gætum tekið mikið meira mið af þörfum þeirra svo þær fengju notið ennþá, ennþá betra atlætis en þær gera í dag.
Ég vil gjarnan hafa þau í leikskólanum en þau þarfnast mikið meiri samveru með foreldrum sínum. Það er eitthvað ekki rétt í skipulaginu og forgangsröðinni þegar yfir 90% lítilla barna er í 8 eða 9 klukkutíma á hverjum degi fjarri sínum nánustu. Ég vil vissulega faðma þau og umvefja, kenna þeim mun á réttu og röngu, leggja þeim línurnar um hvað hefur gildi í lífinu, gefa þeim margbreytileg tækifæri til að þróa samskiptafærni sína og upplifa gleðina við að uppgötva nýja þekkingu og færni, það hef ég valið mér að ævistarfi - en ég er farin að efast stórlega um að sú umgjörð sem þeim er sköpuð í þessa 8 og 9 klukkustundir sé þeim holl. Það er allt í lagi að vera í yfir 20 barna hópi í 4, 5 eða jafnvel 6 klukkustundir á dag - en í 8 eða 9 klukkustundir er bara ekki boðlegt litlum börnum!
Ohhh... ég gæti haldið áfram endalaust með þessa umræðu og það sem við í Reynisholti erum að reyna að þróa til að milda þetta háværa, erilsama umhverfi og það sem við erum að gera til að allt skólastarfið einkennist af umhyggju fyrir þessum litlu skjólstæðingum okkar, en læt þetta nægja í bili.
Nú svo er auðvitað allt farið að rúlla: Létturnar, saumaklúbburinn, jógað og svo bættum við hjón stafgöngum tvisvar í viku inn í prógramið svo það er nóg að gera. Gaman, gaman.
Alla malla - hér er mál að linni - ætlaði að skrifa tvær. þrjár línur en hef greinilega verið orðin illa haldin af bloggskorti.
Þangað til næst, yfir og út!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.