Umhyggja

Sit hérna svolítið eins og undin tuska eftir erilsama viku. Sennilega ákveðið spennufall. 

Sat í gær og í dag afar áhugavert málþing Kennaraháskólans: Maður brýnir mann - Samskipti, umhyggja, samábyrgð, þar sem kynnt voru fjölmörg spennandi verkefni og rannsóknir sem verið er að vinna allt frá leikskóla til háskóla.

Vilborg Dagbjartsdóttir flutti hugvekju við opnum málþingsins og var hreint dásamleg. Ég varð að laumast til að þurrka tár úr augnkrókunum af og til - ekki það að hún væri á þeim buxunum að koma út á manni tárunum enda mikill húmor í erindinu - en það var einhvern veginn svo áhrifaríkt að mér vöknaði um augu. ---- Já, já, já, veit að þetta er þekkt vandamál í minni ætt - en asskoti óheppilegt á stóru faglegu málþingi.

Ég hlustaði svo á mörg áhugaverð erindi en uppúr stóð opnunarerindi Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar um umhyggjuhugtakið enda er ég ákaflega upptekin af því þessa dagana í tengslum við verkefnið okkar í Reynisholti, þar sem við höfum verið að nota þetta hugtak og leitast við að skilgreina hvað greinir faglega eða siðferðilega umhyggju (ethical care) sem grundvallast á þeim tengslum sem er á milli kennara og nemanda/barns, frá eðlislægri umhyggju fyrir þeim sem tengjast manni nánum fjölskylduböndum.

Ég fékk svo tækifæri til að kynna verkefnið okkar, sem einn þriggja frummælenda, í málstofu sem bar yfirskriftina: Lífsleikni, upplýsingatækni og umhverfi. Þar var ég í góðum félagsskap þeirra Sæunnar og Ernu Magnúsdóttur sem hafa unnið frábært lífsleikniverkefni í leikskólanum Jörfa og Fannýjar vinkonu minnar sem er að skoða umhverfið sem þriðja kennarann. Afar áhugavert enda Fanný einkar fagleg og fróð kona.

Ekki veit ég svo sem hvernig mín kynningin gekk enda finnst manni þetta ósköp yfirborðskennt þegar maður rétt stiklar á stóru um svo stórt verkefni. En allavega var nokkur hópur mættur til að leggja við hlustir og nokkrar umræður sköpuðust í kjölfarið og það verður að teljast gott þar sem það mun hafa gerst í gær í einhverri málstofunni að enginn mætti til að hlusta og frummælendur héldu kynningu hver fyrir annan. 

Núna hefur hins vega minn einkakokkur töfrað fram dásamlegt Risotto svo nóg af bloggi í bili. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband