18. september 2006 – Beijing

Við komum til Peking kl. 7.00 í morgun. Nóttin hafði verið ágæt þó maður hafi auðvitað vaknað öðru hvoru við þessar óvenjulegu aðstæður, lestarskrölt og hristing en náði því alltaf að sofna aftur. Rúmin voru reyndar ansi hörð og mjaðmirnar aumar þrátt fyrir ágæta bólstrun. Einhvern tíma í nótt reyndi ég að gera jóga-rúllur fyrir hrygginn í rúminu en það gekk nú ekki vel LoL enda mikil þrengsli og niðamyrkur. Ég vaknaði svo hálf sex og í kjölfarið restin af ferðafélögunum.

 

Lestarstöðin í Peking er sú stærsta í Asíu og sú næststærsta í heimi. Borgin sjálf; borgin í norðri; Beijing (Bei merkir norður og jing merkir borgin) er heldur engin smásmíði því hún nær yfir 17000 ferkílómetra svæði og hýsir 16 milljónir íbúa, 2,5 milljónir bifreiða og ógrynni reiðhjóla sem sjá má þekja stór hjólastæði víðsvegar. Mikil uppbygging er í fullum gangi fyrir Ólympíuleikana sem hér verða haldnir 2008. Við keyrum m.a. „Götu hins langa friðar“ en á 10 ára fresti er hér mikil hersýning. Magnús fræðir okkur um ýmislegt varðandi siði og lifnaðarhætti borgarbúa og eitt af því sem okkur finnst skondið er að hvenær sem er dagsins heilsast þeir með því að spyrja: „Ertu búinn að borða?“ þetta er þeirra klisja líkt og við segjum: „Hvað segirðu?“ án þess svo sem að búast endilega við svari. 

Hitastigið svona snemma morguns er 20 gráður svo allar líkur eru á að það fari í eða yfir 30 gráðurnar í dag – úff, eins gott að gera vatninu góð skil en á dagskránni þennan daginn var að skoða Torg hins himneska friðar og Forboðnu borgina.

Torg hins himneska friðar
Torg hins himneska friðarÞetta sögufræga torg er geysilega stórt eða 800 m á breidd og 500 á lengd og í nánd eru Höll alþýðunnar, Kínverska sögusafnið og minningarhús um Maó þar sem kallinn er stundum til sýnis.

 

Pissað á torginuÁ torginu var auðvitað múgur og margmenni og sölufólk og betlarar sem vildu hafa sitt út úr ferðalöngunum. Við fikruðum okkur yfir torgið andaktug yfir allri þeirri sögu sem hér talaði til okkar og rifjaðist upp. Umhverfið er vissulega kunnuglegt vegna allra fréttamyndanna sem héðan hafa verið sýndar. Mannlífið er líka alltaf áhugavert og þarna urðum við vitni að því að barn var látið pissa á mitt hellulagt torgið – æ, já þetta er ekki svo  'nauið'.

 

Forboðna borgin
Forboðna borginHitinn var skolli mikill að sjá mátti fólk safnast í hópa hvar sem finna mátti smá skugga – jafnvel í skugga fánanna sem blöktu við hún. Við fjárfestum í forláta basthöttum og fikruðum okkur yfir torgið í gegnum Hlið hins himneska friðar og inn í Forboðnu borgina. Nokkur aðalhúsin voru sveipuð tjöldum þar sem verið var að gera við þau en samt var mjög magnað að koma á þennan stað og sannarlega margt að skoða enda telur forboðna borgin 9999 herbergi – skolli keisaraleg tala það. Forboðna borginHér eru heljarstór hellulögð torg og Magnús segir okkur að hellurnar séu í 15 lögum sem hvert lag liggur þvert á það næsta fyrir neðan. Þetta var gert til að ekki væri hægt að grafa sig undir og upp í Forboðnu borgina. Þarna eru heldur engin tré vegna hættu á að ræturnar skemmdu út frá sér. Húsin eru auðvitað öll úr timbri og því nokkur hætta á að eldur gæti grandað þeim og því má víða sjá stór gyllt ker eða potta sem í var vatn að grípa til ef slökkva þurfti elda.Vatnspottur Auðvitað gat vatnið frosið á vetrum en þeir dóu ekki ráðalausir blessaðir því undir pottunum er holrými þar sem eldi var haldið lifandi til að koma í veg fyrir að vatnið frysi. Svolítið fyndin mótsögn að halda eldinum við í því skyni að halda uppi eldvörnum Blush

Inni í þessu ´virki´ bjó svo keisarinn ásamt sinni keisaraynju, hjákonum og geldingum. Einn keisari gat átt allt að 1000 hjákonur og í allri þessari merkilegu sögu verða mér örlög þeirra hugleiknust, því þrátt fyrir snotran bakgarð sem þær gátu dvalið í hefur þetta verið mikil ánauð – eða það virðist manni í dag þó að það muni hafa verið talin upphefð að hljóta hlutskipti hjákonunnar eða geldingsins í hinni forboðnu borg. 

Frá borginni höldum við svo aftur á vit nútímans snæðum á matsölustað og förum þaðan á aðalverslunargötu Peking. Við Sveinn þræddum nokkrar búðir og m.a. keypti ég mér þarna Pumaskó á um 1400 kr. íslenskar – já, það er ekki einleikið hvað maður er alltaf að græða mikið ;) Hitinn var kominn yfir 32°C og satt að segja vorum við alveg að kafna. Meira að segja Elísabetu var heitt og þá er nú mikið sagt. 

Um völundarhús Wutong
Öngstræti WutongEftir verslunarferðina fórum við síðan í gamalt kínverskt hverfi, Wutong sem mun reyndar vera heiti þeirra húsbygginga sem þar er að finna fremur en hverfisins. Húsin eru lítil og lágreist, enda mátti enginn byggja hærra en keisarinn. Göturnar eru þröngar og líkastar völundarhúsi. Þarna fórum við á hjólavagna og litlir Kínverjar hjóluðu með okkur um þessi öngstræti. Við Sveinn sátum auðvitað saman á hjólavagninum og hjálpi mér hamingjan hvað ég skammaðist mín fyrir öll aukakílóin sem aumingja maðurinn varð nú að halast með í eftirdragi. En áfram fórum við í halarófu hinna vagnanna og ekki hefði ég getað unnið mér það til lífs að rata aftur út úr þessu hverfi hjálparlaust. Það vantaði ekki að allan tímann fylgdi hópnum sölufólk með „Lolexúrin“ góðu, töskur, klúta og ýmsan annan varning og satt að segja var það ansi aðgangshart svona á köflum. 

Heimili í WutongTvisvar var gert smá stopp á hjólatúrnum, í fyrra skiptið til að skoða heimili Kínverja. Þar komum við fyrst inn í húsagarð í miðjunni en í kringum hann bjuggu fimm fjölskyldur og skyndilega var eins og ég væri stödd í einni af bókunum hennar Pearl S. Buck sem við Beta drukkum í okkur hér á árum áður og gerast hér í Kína.

 

Einn heimilisfaðirinn bauð okkur síðan inn, skenkti öllum te og bauð upp á rósarblöð að narta í og þó ótrúlegt sé voru þau mjög góð á bragðið. Hann sýndi okkur líka heimilisdýrin sem voru annars vegar tvær engisprettur sem hann hafði í litlu búri til að skapa sveitastemningu  hér í miðri borginni Gæludýr og hins vegar bjalla sem hann geymdi í krukku með loki en ég varð aldrei svo fræg að fá að sjá hana. Eftir veitingarnar fengum við að skoða húsakyni sem voru bara nokkuð góð held ég á kínverskan mælikvarða. Allavega hafði þessi fjölskylda sitt eigið klósett sem mér skilst að sé nokkuð gott. Að heimsókninni lokinni fórum við á hjólin aftur og nú var haldið að gamalli hurð þar sem við fengum margvíslega fræðslu um slíkan inngang á heimili og satt að segja fannst mér sá pistill lítið spennandi og flest að því sem þar kom fram fór fyrir ofan garð og neðan. Til greina hafði komið að leyfa okkur að skoða barnaheimili þarna í hverfinu en þegar til kom var það ekki hægt. Það voru mér mikil vonbrigði og satt að segja lök skipti að fá í staðinn fyrirlestur um þennan inngang Frown

En eftir að hjólakarlarnir höfðu skilað okkur aftur að rútunni og hrifsað til sín þjórféð með ólundarsvip, þrátt fyrir að það hafi verið býsna vel úti látið, héldum við svo heim á hótel þar sem við borðuðum kvöldverðinn að þessu sinni. Síðan fórum við Sveinn beint upp á herbergi og létum líða úr okkur enda Sveinn hálfslappur. Kallinn fékk örugglega snert af sólsting í hitanum í dag, já, 32 gráður með glampandi sólina ofan í hausinn, geta orðið ansi heitar. Sérstaklega þegar menn drekka ekki mikið vatn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elskulega da gú gú!

Mikið er gott að sjá að ferðasagan okkur heldur áfram hér á síðunni þinni.  Það er alltaf svo gaman að lesa það sem þú skrifar.

Mér varð nú hugsað til karlsins sem hjólaði með okkur Gunnar í gegn um Wutong hverfið. Það sprakk nefnilega á öðru dekkinu á vagninu sem við sátum í, en karlinn hamaðist samt við að hjóla með okkur og pumpaði í dekkið í hvert sinn sem við stoppuðum. Þegar við fórum í heimsóknina á heimilið og fengum rósablöðin hafði á kínverski skroppið til að skipta um dekk og rétt náði til baka áður en við þurftum að halda áfram. Hann fékk þess vegna enga hvíld á meðan eins og hinir hjólakarlarnir. Það var sko ekki þurr þráður á honum þegar ferðinni lauk. Ég borgaði honum alveg extra vel fyrir þessa ferð, svona aðeins til að friða samviskuna eftir allt efriði mannsinns:(

Bestu kveður, 

tcunju           

Beta (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 12:13

2 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Kæra tcunju

Ég kunni nú ekki við að segja frá því að sprungið hefði undir ykkur en er glöð að þú skulir rifja það upp. Ætli blessaðir mennirnir hafi ekki farið með hýruna sem þeir höfðu upp úr þessum túr og fjárfest í hjálparmótorum á  hjólgarmana - ég vona það satt að segja.

Þín háæruverðug

Da gú gú

Ingibjörg Margrét , 19.7.2007 kl. 12:39

3 identicon

Ja hérna hér ef mann fer ekki bara að langa til Kína líka, ég sem hef fram að þessu verið minnst spennt fyrir því.  Frábær lesning

Særún (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband