16. september í Xi´an

The great wild goose pagoda
Út um hótelgluggannÞað var greinilegt að borgin var vöknuð til lífsins þegar við litum út um hótelgluggann áður en við héldum á vit ævintýra dagsins. Fyrst á dagskránni var að skoða The great wild goose pagoda en þar er klaustur. Í klaustrinuÞað var auðvitað margt forvitnilegt að sjá og við forvitinn lýðurinn vorum svolítið eins og gluggagægjar kíkjandi á munka og nunnur í kennslustund en þau létu okkur auðvitað ekki hagga ró sinni og einbeitingu. Við Sveinn töltum upp í pagoduna og nutum útsýnisins yfir borgina í allar áttir. PagodaEftir að niður var komið keypti ég geisladisk með samsöng munkanna og við Beta stóðumst ekki fallega blævængi með kínverskum myndum (sjá mynd í albúmi) og hugsuðum með tilhlökkun til þess að geta fengið örlítinn andvara þegar hitinn verður kæfandi (Reyndar held ég að Betu verði aldrei sérlega heitt og er farin að hallast að því að hún hafi fæðst í röngum heimshluta).Útsýni úr pagodunni

 

 

 

 

 

 

 

 

Unnið úr jadeNæst höfðum við viðkomu í verslun eða verkstæði þar sem ýmsir fallegir munir voru unnir úr jade-steininum. Vefarinn mikliVið fylgdumst með konum vinna listmuni úr steininum auk þess sem þarna var stúlka sem vann við hreint ótrúlegan myndvefnað. Ég er hrædd um að tíu þumalfingurnir mínir og takmörkuð þolinmæðin myndu henta illa í þessa vinnu.

 

 

 

Dulítið ævintýrEftir þetta stopp, þar sem buddan mín fékk að hvíla kyrr í töskunni á meðan buddur sumra samferðarmannanna voru brúkaðar af slíkum krafti að manni stóð hreinlega ekki á sama, héldum við leið okkar áfram til næsta áfangastaðar sem var matsölustaður. Leið okkar lá um þröngar götur og útimarkaði sem voru í hrópandi mótsögn við fallegan matsölustaðinn sem beið okkar. Sá var staðsettur í mjög fallegum garði við fallegt vatn. Eftir matinn höfðum við tíma til að ganga þarna um og njóta umhverfisins og það var ekki fjarri því að manni fyndist maður vera staddur í austurlensku rómantísku ævintýri.

 

Borgarmúrinn

BorgarmúrinnNæst lá leið okkar á borgarmúrinn sem er ótrúlegt mannvirki þó ég geri ráð fyrir að Kínamúrinn verði mun stórfenglegri. Við gerðum þar stuttan stans og fylgdumst með litskrúðugu mannlífinu af múrnum s.s. mönnum við tafl undir múrveggnum, deilu vegna áreksturs reiðhjóls og bifreiðar og manni sem hvíldist á hjólavagninum sínum og lét ekki eril stórborgarinnar hagga ró sinni Hér raskar ekkert ró

 

 

 

 

 

 

 

 

Múslimahverfið
obbobobbNæst á dagskránni var að heimsækja múslimahverfið hér í borg og moskuna þeirra. Þeir Magnús og Bin höfðu af því nokkrar áhyggjur að þeir myndu týna mannskapnum í þeirri för og lögðu á það ríka áherslu að annar þeirra færi fremstur en hinn aftastur. Síðan lagði hópurinn í hann um öngstræti þessa hverfis og ÓMG það var ekki vanþörf á að passa upp á liðið. Þarna þræddum við markaðsgötur sem sumar hverjar voru svo þröngar að það var rétt svo að hægt væri að mætast þar. Dæmigerð matsalaEins og venjan er á slíkum mörkuðum var auðvitað hver kaupmaðurinn ofan í öðrum og þarna ægði hreinlega öllu saman, bæði matvöru og glingri og af og til sló klóakstækjunni fyrir vitin út úr einhverjum hliðaröngstrætum. Það virtist ekkert trufla mannskapinn sem þarna aflaði sér salts í grautinn en við stormuðum í gegn á eftir íslenska fánanum hans Magnúsar og rétt gjóuðum augunum á varninginn því eins og oft áður var ætlast til að öll innkaup biðu þar til í bakaleiðinni.

 

Í moskunniÉg þekki ekki moskur og hef ekkert viðmið til að meta hvort moskan þeirra hérna er hefðbundin eða ekki, en Magnús segir okkur að svo sé í raun ekki, heldur beri hún mörg merki kínversku hofanna. Eftir stuttan stans í moskunni héldum við til baka út í hringiðu götulífsins með skýr fyrirmæli um hvar þeir Magnús og Bin yrðu staðsettir og hvar og hvenær hópurinn ætti svo að safnast saman. Það er auðvitað merki um ótrúlegan molbúahátt en við svona aðstæður er eins og ég fari hreinlega í lás. Rétt gjóa augunum á það sem til sölu er en fæ mig asskotann ekki til að sýna neinu áhuga. Endaði reyndar á að kaupa fallegt matprjónasett sem Beta benti mér á – ekki af því að ég svo sem ætlaði það heldur vegna þess að blessuð sölukonan lækkaði sig og lækkaði, án þess að ég sýndi nokkurn áhuga – var bara að reyna að potast í burtu í þvögunni – en keypti sem sagt þessa fallegu matprjóna þegar konan var farin að bjóða mér þá á 40 y. Það var einhvern veginn ekki hægt að láta þá ókeypta svona í ljósi þess að ég var ákveðin í að ná mér í svona verkfæri áður en ferðin yrði á enda og þarna kostuðu þeir hreinlega ekki neitt – og í svona skolli fallegum kassa.

 

Djásn í bakherbergiSamferðafólk mitt var ekki eins heft í kaupmennskunni og margir hurfu inn í bakherbergi og skúmaskot  til að skoða þvílíkt úrval úra og annarra gersema. Og auðvitað fór það svo að allir fundu eitthvað við sitt hæfi og sýndu hinum afraksturinn glaðir þegar haldið var til baka upp á hótel með rútunni.

 

Leikhús
Í leikhúsinuFyrir kvöldmatinn hafði verið ákveðið að bjóða þeim sem áhuga hefðu á upp á leikshúsferð þar sem boðið var upp á hefðbundna kínverska tónlist og dansa. Við Sveinn létum okkur auðvitað ekki vanta þar og sáum ekki eftir því. Sýningin var stórglæsileg og mikið augna- og eyrnakonfekt.

 

 

Dumplings
DumplingsAð sýningunni lokinni voru þeir sóttir sem ekki höfðu haft áhuga á leikhúsinu og haldið til allsérstæðs kvöldverðar Uppistaða þess sem hér var á boðstólum voru hveitikökur (dumplings), með fyllingum, sem mótaðar höfðu verið á ýmsan hátt eftir því hvers eðlis fyllingin var. Magnús reyndi samt að fullvissa okkur um að ekki væru notaðir froskar í kökurnar sem þannig voru mótaðar en hvað vitum við svo sem… Allavega voru þær alveg ágætar á bragðið og okkur varð ekki meint af.  Þessari máltíð fylgdi skemmtileg saga um keisaraynju sem kom til borgarinnar og þáði þar málsverð sem kokkarnir útbjuggu á þennan hátt og sú gamla kolféll fyrir.

 

Skemmtilegt fólkÍ lok máltíðarinnar var settur heljarinnar pottur á mitt borðið og kveikt undir. Í pottinum var súpa sem í voru settar nokkrar litlar hveitikökuhnappar og síðan ausið á diskana. Það hafði svo ákveðinn boðskap hvort maður fékk hveitihnapp á sinn disk. Ein þýddi góða heimferð, tvær góða heilsu, þrjár langlífi, fjórar auð og fimm góða uppskeru.Ég fékk auðvitað enga en Beta mín sópaði til sín kökunum (fékk örugglega fimm) sem áttu þá að tryggja henni allt þetta.Hot pot

 

Eftir þessa skemmtilegu máltíð héldum við svo aftur heim á hótel og áður en skriðið var í rúmin náðum við inn í nokkrar þrælgóðar búðir og keyptum nokkra boli og peysur á strákana. Það er heljarinnar upplifelsi að versla í þessum búðum því fyrirkomulagið er allt annað en heima. Þegar ljóst var að við ætluðum að kaupa eitthvað upphófust köll á milli afgreiðslufólksins um alla búð og skyndilega voru allir á þönum í kringum okkur. Kannski er ekki alvanalegt að fólk komi inn og kaupi eina fjóra, fimm boli eða peysur á einu bretti en ég held þó að þetta hafi verið einhvers konar skipulagsatriði þar sem einn sýndi, annar náði í inn á lager og sá þriðji tók við greiðslu. Allavega upplifði maður sig ákaflega mikilvægan, og ekki var hægt að kvarta yfir því að afgreiðsluna vantaði Smile

 

Gasp En nú er langur dagur að kveldi kominn og annar ekki síðri bíður okkar á morgun svo mál er að linni – að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er nú gaman að sjá hér nýja færslu. Ég bíð alltaf spennt eftir hverri færslu, það er svo gaman að lesa það sem þú skrifar. Minningin úr ferðinni verður svo lifandi. Maður finnur næstum því klóakstækjuna, sem er reyndar ekki mjög jákvæð minning. Mun skemmtilegri minning um allt hitt sem við fengum að upplifa, endalaust ævintýri alla daga.

Kveðja frá einni sem verður örugglega hundgömul, heilsuhraust, vellauðug og ég veit ekki hvað, þökk sé súpunni góðu.

Beta (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 12:02

2 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Já, Beta mín, þú verður örugglega allt þetta sem þú nefnir - það var bara þetta með góða heimferð sem klikkaði eitthvað - en við komum nú nánar að því þegar þar að kemur

Ingibjörg Margrét , 5.4.2007 kl. 09:48

3 identicon

Gleðilega páska Ingibjörg mín og nú segi ég við þig eins og ég skrifaði á síðu hjá Unni frænku, vertu nú dugleg að skrifa

Særún (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 01:05

4 identicon

Sælar.

Frábært að fá að lesa ferðasögu ykkar.

Knús og kram Grettla

Ingibjörg Grettis (IP-tala skráð) 15.4.2007 kl. 22:13

5 identicon

Jæja endaði ferðin þarna. Koma svo, skrifa meira!!!

Særún (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 21:44

6 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Æ, fyrirgefið þúsund sinnum.

Það er bara svo skolli margt annað að hugsa þessa dagana og svo er þetta ööörlítið meiri vinna en ég bjóst við að skella þessari dagbók inn. En lofa að klára - enda hef ég heitið því að setja ekki neitt annað hér inn fyrr en þetta er búið og mig er farið að langa svoooo til að fjalla um eitthvað annað.

Ingibjörg Margrét , 26.4.2007 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband