14. september - Draugaborgin

 

Við nenntum ómögulega í Tha Chi í morgun, heldur snérum okkur á hina hliðina og kúrðum hálftíma lengur – ég meina við erum nú í fríi, svo skítt með stífar herðar.

Við vorum nú samt mætt í morgunverðinn kl. hálf átta svo ekki var því að skipta að maður svæfi frá sér allt vit. Morgunverðurinn var hefðbundinn og þjónustufólkið allt á þönum við að þóknast okkur og spyrja hvernig okkur líkaði maturinn. 

ghost city (7)-1Klukkan níu var síðan farið frá borði. Þau Sveinn, Gunnar, Anna Maren og Jónas ætla að fara í hellaferð ásamt kínverskum túristum en allir aðrir í Draugaborgina sem fyrirhuguð hafði verið í okkar prógrami. Til Draugaborgarinnar var hálftíma ferð með rútu og bílstjórinn keyrði hreinlega eins og vitfirringur. Hjálpi mér, það var engu líkara en að hlutverk hans væri að klessukeyra með okkur öll, til að fjölga íbúum Draugaborgarinnar. 

Þessi rútuferð lá m.a. í gegnum borg sem var mjög ólík því sem við höfum áður séð. Hún var hræðilega rykug og mikið drasl hvarvetna. Þar voru líka mjög miklar framkvæmdir í gangi, sérstaklega vegaframkvæmdir (sem hægðu þó ekkert á aksturslaginu hjá okkar manni). Ekki var að sjá að stórvirkar vinnuvélar væru mikið notaðar við þessar framkvæmdir og augljóst að hér er það fyrst og fremst mannshöndin sem vinnur verkið. 

Draugaborgin
Áður en við komum inn í sjálfa Draugaborgina gengum við eftir götu þar sem sölubásarnir stóðu hlið við hlið og sölufólkið kallaði til okkar hvatningarorð um að koma og líta á varninginn. Við eitt fremsta söluborðið stóð karl og spilaði á einhverskonar þverflautu og ég var ákveðin í að stoppa hjá honum á bakaleiðinni en okkur hafði verið lofað að þá gæfist tími til að eyða einhverjum krónum – undarleg árátta auðvitað að vilja alltaf vera að kaupa eitthvað.

Heimsóknin til Draugaborgarinnar var mjög skemmtileg. Ég hafði þó ekki verið betur að mér en það að ég hélt að Draugaborgin væri yfirgefin gömul kínversk borg Blush. Sú var þó ekki raunin heldur er nafnið til komið vegna þess að þangað koma sálir framliðinna og þar þurfa menn að svara fyrir og taka afleiðingum gjörða sinna í jarðvistinni. 

ghost city (44)Við fórum með kláfi upp bratta hlíð til borgarinnar og það var ekki alveg laust við að maður fyndi til lofthræðslu í þeirri salíbundu þótt manni tækist að kreista fram bros fyrir ljósmyndara skipsins sem fylgdi okkur hvert fótmál. 

Þegar inn í sjálfa Draugaborgina kom biðu okkar margvíslegar þrautir sem leysa þurfti samkvæmt kúnstarinnar reglum til að tryggja framtíð sína eða forðast ill örlög . Fyrst lá leiðin yfir bogabrú þar sem hjón áttu að ganga saman og máttu hvorki taka fleiri eða færri skref en níu. Nú þar sem minn ektamaki var fjarri góðu gamni reyndi ég að stika þetta ein samkvæmt forskrift en held að mér hafi samt tekist að klúðra þessu einfalda verkefni með einu aukaskrefi fram af brúnni Frown.

Syndug eða syndlaus
ghost city (5)Nú síðan lá leiðin framhjá embættismönnum sem hafa lífshlaupið allt niðurskrifað svo ekki þýðir að reyna að kjafta sig frá fornum yfirsjónum eða syndum. Síðan þurfti að komast fram hjá kynjaverum sem krækja í syndarana um leið og þeir eiga leið framhjá. Ein krækir í drykkfellda og aðrar í þá sem hafa verið lauslátir, vergjarnir, slúðurberar o.s.frv. Það kom auðvitað í ljós að við þessir Íslendingaræflar erum syndlausir með öllu enda komumst við öll í gegnum þetta nálarauga og prísuðum okkur sæl fyrir að hafa ekki lent í helvíti en örlög þeirra sem þar lenda voru auðvitað til sýnis og voru ekki öll sérlega eftirsóknarverð. 

ghost city (58)Annars staðar átti svo að klofa yfir háan þröskuld án þess að snerta hann og enn annars staðar að standa á öðrum fæti í þrjár sekúndur ofan í einskonar kassa um leið og maður horfði á fjögur kínversk tákn. Konur á hægra fæti en karlar á vinstri. Allar þessar þrautir vöktu auðvitað kátínu en þó var ljóst að enginn tók sénsinn á að gera ekki sitt besta Wink

ghost city (210)Áður en við yfirgáfum Draugaborgina völdum við síðan hvort vildum frekar ganga yfir bogabrú langlífis eða ríkidæmis. Það segir sennilega eitthvað um að árin eru að færast yfir mann hægt og sígandi að allur hópurinn, að Einari hinum unga undanskildum, kaus langlífið fram yfir ríkidæmið. 

Flautukaup
Eftir Draugaborgina og salíbunu niður með kláfnum biðu okkar svo sölubásarnir girnilegu. Einhverjir skemmtilegir smáhlutir höfnuðu í töskunni og við enda götunnar stoppaði ég svo hjá flautukarlinum sem ég hafði sigtað út áður. Ég girntist þar þverflautu úr bambus sem mig langar að gefa Katrínu tengdadóttur minni. Karlinn var afskaplega almennilegur og fús að sýna mér flauturnar og mismunandi gæði þeirra en hann var svo hræðilega andfúll að ég átti hreinlega í mestu vandræðum. Mér tókst þó fyrir rest að ljúka viðskiptunum og vona að þetta hafi verið sæmileg kaup og að Katrínu takist að nýta þverflautu námið sitt til að ná hljóði úr gripnum. 

Aftur um borð
IMG_4825Þegar í skipið kom voru hellafararnir mættir þar, alsælir með vel heppnaða ferð og ég læt hér fylgja með eina mynd af þeirri undarveröld sem fyrir augu þeirra bar. 

 

 

 

IMG_4866Við frænkur tylltum okkur hins vegar niður með saumakonunni góðu til að nema þessa list sem silkisaumurinn er og það er alveg ljóst að silkisaumur myndi ekki gefa okkur frænkum mikið í aðra hönd. Allavega ekki svona eftir fyrstu kennslustund í þeirri iðn. En við fylgdumst andaktugar með handbragðinu og fengum svo að spreyta okkur. Sú stutta þóttist óskaplega ánægð með okkur en hrædd er ég um að prufan sem við tókum sporin í hafi ekki nýst á sölubásnum hennar. 

Eftir saumaskapinn dundaði ég mér svo við að pakka niður í töskurnar á milli þess sem ég dreypti á rauðvínsglasi. Umm… er þetta ekki dásamlegt líf! 

Fræðslustund
IMG_4870Síðan var komið að fræðslustund með þeim Magnúsi og Bin. Hluti fræðslunnar átti að vera um kínverskt letur en Bin okkar blessaður, sem aldrei hefur sig sérstaklega í frammi, komst hreinlega á flug og eftir nærri tveggja tíma fyrirlestur um Kína var ákveðið að geyma leturfræðsluna til betri tíma. Það var ekki alveg laust við vonbrigði í hópnum enda sérlega áhugavert að kynnast þessum táknum nánar. 

 

 

 

Og matur – enn og aftur
IMG_4878Eftir fræðsluna var síðan tími til að skella sér í sturtuna og skvera sér í skárri gallann fyrir kveðjukvöldverð með kapteininum. IMG_4881Maturinn var, eins og í annan tíma, sérlega góður og að venju kom kokkurinn til að fá umsögn um matinn. Við ákváðum að fjölyrða ekki mikið um hann að þessu sinni heldur risum á fætur og skáluðum fyrir honum. Æ, elsku kallinn, það var ekki laust við einhvern sætan gleðiglampa í augnatillitinu. En minna mátti það nú ekki vera frá okkar hendi enda ljóst að mannskapurinn leggur sig 150% fram og sérstaklega gagnvart okkur Íslendingunum. Þeir eru á fullu að átta sig á kröfum, smekk og þörfum þessara auðmanna norðan af hjara veraldar. Og mér er orðið það ljóst að ég á eftir að sakna þessara kínversku máltíða. Hér er enginn mjólkurmatur og ekkert brauð (hvort tveggja skipar stóran sess í matarvenjum mínum heima) en hins vegar mikið um grænmeti og mér líður afskaplega vel af þessu fæði. - er meira að segja farin að borða baunir.
IMG_4888Fyrirkomulag máltíðanna er líka sérlega skemmtilegt. Snúningsdiskurinn og þessi fjöldi smárétta kallar á bæði samræður og tillitsemi og er því mjög skemmtilegt félagslegt fyrirbæri og oft er borðhaldið mjög líflegt. Reyndar er yfirleitt mjög þröngt um réttina enda diskarnir og fötin óhentug á hringinn. Beta er auðvitað með útsjónasemi sinni búin að sjá út lausn sem hún þyrfti að koma á framfæri. Gæti orðið moldrík, sú stutta, ef hún gæti selt hugmyndina.

Kvöldinu eyddum við svo í spjall við góða ferðafélaga yfir einum bjór eða tveimur og það kom í ljós að nokkrir ferðafélaganna höfðu ásælst myndina góðu sem við keyptum og fengið þær fréttir hjá saumakonunni að hún hafi staðið þarna í básnum hjá henni mánuðum saman en öllum þótt hún of dýr. Nú stóð hún skyndilega frammi fyrir því að um borð voru allavega tveir aðilar, fyrir utan okkur, sem hefðu viljað eignast myndina. En svona er þetta, fyrstur kemur fyrstur fær og myndinni hefur verið komið haganlega fyrir ofan í ferðatöskunni minni og kemur til með að fá heiðurssess í borðstofunni heima á Fróni. 

Á morgun lýkur þessari notalegu skipsferð í borginni Chongqing þar sem ætlunin er að skoða sig svolítið um og halda svo fljúgandi til Xi´an – heimaborgar Bin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Tókuð þið eftir að ég er komin með bloggvin

Það er hann Ívar Páll, frændi minn, sem fær það heiðurshlutverk að vera bloggvinurinn minn - einhvern veginn á ég ekki von á að þeir verði margir sem muni telja þann hóp en finnst ekki verra að geta skreytt mig með einum vinsælasta bloggaranum á blog.is

Takk frændi

Ingibjörg Margrét , 3.3.2007 kl. 19:28

2 identicon

Hrikalega hefur þetta verið skemmtileg ferð hjá ykkur. Takk fyrir að leyfa okkur hinum að njóta.

Særún Ármannsdóttir (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 23:46

3 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Særún mín, ég dáist nú að ykkur sem nennið að lesa þessar langlokur án þess að hafa tekið þátt. En ég er ákveðin í að klára að setja þessa dagbók inn áður en ég fer að blogga um eitthvað annað. Gæti nú verið spennandi að fara að fjalla um Bónus eða Framsókn, lnú eða eikskólalíf og kannski mataruppskriftir, sem allt í einu eru orðnar mikið áhugamál á heimilinu

Ingibjörg Margrét , 4.3.2007 kl. 09:27

4 identicon

Í gvöðanna bænum farðu nú ekki að skemma stemmninguna með Bónus eða Framsókn  Hef reyndar ekki mikla trú á því að þú nennir því en leikskólalíf og mataruppskriftir er allt annað, þá les ég áfram

Særún (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband