13. september - Wusan

 

IMG_4715

Við áttum næturstað í bænum Wusan sem táknar Nornafjall. Þetta er 80.000 manna kaupstaður og hér hefur verið reist alveg glæný byggð. Húsið sem var efst í gamla bænum stendur enn en mun fara undir vatn í október.

 

taiji (6)Við vorum árrisul í morgun hjónin og vorum mætt upp á þilfar kl. 7 í Tai Chi undir stjórn nuddmeistarans. Maður getur ekki látið hjá líða að prófa þessar aldagömlu æfingar hér í upprunalandinu. Það kom mér nokkuð á óvart hvað hratt hann fór í gegnum æfingarnar en ímynda mér að það hafi nú eitthvað með vanhæfni okkar að gera. Sennilega er erfiðara að gera þetta löturhægt eins og hún Dunna, Tai Chi meistari Léttsveitarinnar, gerir.

 

Eftir hálftíma Tai Chi-iðkun var maður vel upplagður í morgunverðinn. Æ, það er dásamlegt að sjá doktorinn hella tei í bollana til jafns við þjónustustúlkuna. Hér um borð er markmiðið greinilega bara eitt þ.e. að farþegarnir séu ánægðir og fái bestu hugsanlega þjónustu. Við gætum trúlega lært margt af þeim hérna – í það minnsta finnst mér óþolandi þegar mannskapurinn heima dettur í að velta sér uppúr hvað sé í hvers verkahring – Hver á að sópa gólfin eða þurrka úr gluggunum? Stundum hef ég unnið með fólki sem gerir svona smáhluti að stórmáli – ótrúlegt að nenna því.

 

IMG_4714Jæja, en eftir morgunmatinn beið okkar skoðunarferð um „litlu gljúfrin þrjú“ hér í Yangtse ánni. Við færðum okkur yfir í minni fljótabát og þegar við sigldum af stað um kl. 9 var starfslið skipsins okkar á fullu við að skúra og skrúbba skipið hátt og lágt. Sennilega hafa bæði læknirinn og kokkurinn tekið til hendinni í þrifunum ef marka má þátttöku mannskapsins í skemmtidagskránni í gærkvöldi og við morgunverðinn áðan.

 

 

 

Kl. 9.50 Betu er heitt – fer úr peysunni

Kl. 9.52 Beta kvartar undan golunni – fer í peysuna Smile

 

IMG_4728Siglingin er sérlega skemmtileg og náttúrufegurðin mikil. Víða má sjá fjölda manna, eins og maura, við vinnu í hlíðunum. Þar virðist handaflið vera helsta vinnutækið og sannleikur orðatiltækisins „margar hendur vinna létt verk“ verður kristaltær.IMG_4719

 

Eftir nokkuð langa siglingu þar sem náttúrufegurðin gladdi bæði auga og anda, færðum við okkur í litla báta sem sigldu með okkur um enn minni og þrengri gljúfur. IMG_4736Bátsmennirnir tveir sem stýrðu för sýndu auðvitað gestrisni sína og tóku hvor um sig fyrir okkur lagið. Það virðist tíðkast hér að syngja fyrir gesti því sumir staðarfararstjóranna hafa einnig tekið fyrir okkur lagið í rútunum. Það er ekki vegna mikillar söngkunnáttu sem þetta fólk tekur lagið fyrir okkur heldur frekar til að segja okkur sögu (sem við auðvitað skiljum ekki) og til að gefa okkur sýnishorn af þeirri tónlist og menningu sem hér ríkir og alltaf er einhver barnsleg einlægni í söngnum - ekki síst hér. IMG_4733Leiðsögumennirnir segja okkur líka að hér uppi í fjöllunum, sem gnæfa yfir okkur, séu þorp og þegar ungur maður varð t.d. ástfanginn af stúlku í öðru þorpi þá hafi hann getað sungið til hennar yfir fjöllinn. Við þær aðstæður hefur auðvitað verið mikils virði að vera góður söngmaður svo söngurinn hljómaði sem lengst og víðast. Æ, finnst ykkur þetta ekki dásamlegt – svolítið eins og sms þess tíma.

 

mini three gorge (134)Fleiri tónlistarmenn og söngvarar glöddu okkur þegar við sigldum framhjá. Tvisvar sigldum við framhjá söngvurum sem stóðu í litlum bátum og sungu og einu sinni fórum við framhjá flautuleikara sem sat á klettasylla og spilaði á flautuna sína.

 

Við áttum svo rólega siglingu til baka að skipinu okkar þar sem auðvitað var framreiddur þessi líka fíni matur. Það stóð á endum að við Sveinn kláruðum að næra okkur og síðan tók við mikil og góð dekurdagskrá. Fyrst á dagskránni var nudd sem við höfðum pantað í gær. Sveinn fór í body-nudd hjá þeirri litlu nettu sem sýndi það að margur er knár þótt hann sé smár því hún tók hressilega á kallinum. Sjálf fór ég í þvílíkt flott baknudd hjá Thi Chi meistaranum. Við fengum auðvitað vitnisburð um að velmegunarstreitunnar sæjust greinileg merki í herðum og fengum fyrirmæli um að sofa með háan kodda og mæta í Tha Chi. Eftir nuddið beið mín andlitsbað, á snyrtistofunni um borð. Umm, ótrúlegt andlitsnudd – alveg niður á tær – og ekki skemmir nú fyrir að þetta kostar aðeins brot af því sem maður myndi borga heima. Nuddið mitt kostaði 150 y og Sveins 180 y og andlitsbaðið eitthvað svipað en þetta eru svona 1400 – 1700 ísl. Kr. Ef þetta er ekki tækifærið til að leyfa sér þennan lúxus þá veit ég ekki hvenær það er.

 

Eftir þetta dekur steinsofnuðum við auðvitað þangað til tímabært var að hafa sig til fyrir kvöldverðinn. Fyrir matinn litum við í sölubásana um borð en við höfum verið að skanna þá af og til frá því að við komum um borð. Þar er t.d. bás með útsaumuðum silkimyndum og saumakonan (stúlkan) situr þar löngum stundum við þessa fínlegu vinnu. Margar myndanna eru ótrúlega fallegar en ein sker sig þó nokkuð úr því hún er saumuð á svart silki með gylltum silkiþræði og víða er saumurinn fylltur eða upphleyptur. Myndin er af dreka og fönixfugli og Dexter, skemmtanastjórinn um borð segir okkur að drekinn sé tákn eiginmanns og fönixinn tákn eiginkonu. Þessi mynd er auk þess sérstök fyrir það að drekinn hefur fimm klær og er því keisararlegur. IMG_4892Aðspurð segist saumakonana hafa verið allavega einn og hálfan mánuð að vinna hana. Eftir nokkrar vangaveltur ákváðum við að láta það eftir okkur að fjárfesta í þessari mynd sem verður þá minjagripur okkar úr þessari ferð. Við þökkum þó fyrir að keisaraveldið er liðið undir lok því það hefði verið dauðasök að hafa slíkan keisaralegan dreka uppi á vegg hjá sér. Saumakonan varð ægilega glöð með viðskiptin – gaf óumbeðin afslátt af myndinni og færði mér litla fallega málaða teskeið í kaupbæti og auðvitað létum við mynda okkur með listakonunni.

 

game (60)Kvöldverðurinn var svo eins og aðrar máltíðir um borð, rosalega góður. Tveir kínversku gestanna um borð áttu afmæli og eftir að borðhaldið hófst voru þau kölluð upp, ljósin slökkt og starfsfólkið kom inn í röð með afmælistertu m/kerti á – ekki bara handa afmælisbörnunum heldur á hvert einasta borð og auðvitað var afmælissöngurinn sunginn. Eftir matinn var svo kvöldvaka með leikjum og happdrætti undir dyggri stjórn þessa kostulega drengsins með biðukollinn -  Dexters.

 

En nú er mál að slökkva ljósin, á morgun bíður mín Draugaborgin en Sveinn ætlar í hellaferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dásamlegt. Ég væri sko alveg til í að komast aftur í þetta hlýja góða verður, jafnvel þó ég þurfi að vera í peysu. Sumir eru og verða alltaf kuldaskræfur

Það verður sko bara að hafa það.

Kveðja, Beta

Beta (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 08:28

2 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Ég mátti til með að láta þetta flakka - svona úr því að ég hafði punktað það hjá mér. Annars sé ég á myndum að þú hefur nú bara verið töluvert peysulaus á þessari ferð - enda æði heitt á köflum - allavega á mælikvarða okkar hinna

Ingibjörg Margrét , 26.2.2007 kl. 20:53

3 identicon

Frábært hjá þér Ingibjörg.  Bestu kveðjur að austan, 

Anna Maren

Anna Maren (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband