Viðmið

Já, þau eru skrýtin þessi viðmið sem við höfum varðandi alla hluti, byggð á reynslu okkar  -  nú ef reynslan er ólík eru viðmiðin það líka.

Þegar við hjónakorn vorum að draga okkur saman hér fyrir einum 27 árum spurði hinn ungi maður mig að því hvort ég hefði ferðast mikið. Já, ég hélt það nú! Ég hafði farið í fastar ferðir með félögum mínum í Víkingsskálann hér uppi undir Hellisheiði og svo höfðum við farið nokkrar góðar ferðir í Þórsmörk. Jú, og alveg rétt ég hafði ferðast austur í Suðursveit með henni Fjólu vinkonu minni og svo skellt mér á Þjóðhátíð í Eyjum eitt árið. Cool

Jááá, sagði kappinn og dróg seiminn, en með foreldrum þínum þegar þú varst krakki, ferðurðust þið mikið? Jú, jú, það höfðum við gert og ég rifjaði upp fyrir hann þessa einu tjaldútilegu sem ég hafði farið í með þeim 6 ára gömul að Laugarvatni þegar Þormóður frændi minn og jafnaldri kallaði yfir sig geðshræringu móður minnar með því að klifra í skurðinum frá skítakamrinum. Crying Nú já, og eina ferð fórum við líka alla leið norður á Skagaströnd til hennar Margrétar ömmusystur minnar fyrir utan allnokkrar ferðir upp í Borgarfjörð, já og eina og eina ferð austur í Hrosshaga í Biskupstungunum. Jú, ég hélt það nú – ég var mikil ferðakona og leit á mig sem mikið náttúrubarn. 

Hann sagði svo sem ekki mikið – kinkaði lítillega kolli svolítið hugsi á svip - enda aldrei verið hans still að gera lítið úr fólki eða stæra sig af því að hafa gert annað og meira. Ég vissi sem sagt ekki þá að piltungurinn sem ég var að taka saman við hafði gengið á fjöll frá blautu barnsbeini og þekkti nöfn flestra fjalla og bæði sögu og staðhætti víðsvegar um landið betur en margir aðrir. Hann var ekki kallaður Sveinn fjallakus að ástæðulausu  Whistling.

Mín fjallgönguafrek einskorðuðust við að hafa gengið á Grábrók 12 ára gömul og ekki hefði ég þekkt Esjuna frá Heklu ef því var að skipta. Ég vissi ekki að þegar ég hafði farið í náttúru- og djammferðir með félögum mínum inn í Þórsmörk, þar sem gönguferðirnar mörkuðust af flandri á milli Langadals og Húsadals, hafði hann verið íklæddur föðurlandi og ullarbol, arkandi um hálendi og jökla landsins með allar sínar birgðir á bakinu dögum saman. 

Ekki veit ég svo sem hvað varð til þess að hann ákvað að rugla saman reitum sínum við þessa kvensnift sem svo fjálglega hafði lýst fátæklegum kynnum sínum af föðurlandinu. Sennilega hefur hann séð þarna tækifæri til að kynna fyrir fákunnandi stelputryppinu dásemdir þess lands sem hún var fædd til – og það hefur hann sannarlega gert. 

Hann var óþreytandi fyrstu árin að þylja upp fyrir mér nöfn fjalla og landslags á ferðum okkar. Ég hef þó sennilega ekki verið gáfuleg þar sem ég sat sljó í framsætinu og nafngiftirnar festu engar rætur í höfðinu á mér – þó rofaði til öðru hverju og glampi kom í augun: Jú, ég hafði verið hérna – Hvað heitir þetta félagsheimili? – Ég var einu sinni á sveitaballi hérna! Blush

En smám saman hafa minningarnar um sveitaböllin vikið fyrir frábærum minningum af fjölmörgum ferðum um fjöll og firnindi þessa dásamlega lands okkar. Og kappinn hefur meira að segja afrekað það oftar en einu sinni að fá mig til að axla byrgði mína og arka með hana fjarða og fjalla á milli í nokkurra daga göngum, sigla á seglskútu um firði og flóa og jafnvel setjast upp á hjólhest með það að markmiði að skoða þetta land okkar. Ekki er nú hægt að segja að þessar ferðir teljist til einhverra hetjudáða og oft hefur verið lágt risið á partýstúlkunni yfir sviða í lærum, nudduðum hælum og aumum öxlum – en alveg hefur þetta verið frábært og ekki hefði ég viljað sleppa einni einustu ferð. Með tímanum hefur mér svo orðið það betur og betur ljóst hvað ég þekki þetta land okkar í raun illa. 

Nú hef ég samt fundið minn uppáhalds ferðamáta. Jeppaferðir, það er málið – mér lætur nefnilega svo vel að sitja í mjúku sæti og láta hestöflin undir húddinu um allt erfiðið – og með jeppanum hafa líka nýjar náttúruperlur orðið aðgengilegar. Í síðustu viku lögðumst við t.d. á mikið flakk sem stóð yfir í vikutíma og þá gafst tækifæri fyrir Svein að heimsækja aftur fornar slóðir og fyrir mig að koma í fyrsta sinn í náttúrperlurnar norðan Vatnajökuls – heimsækja Herðubreiðalindir, Dreka, Öskju og Víti, Kverkfjöll, Hveralindir og Hvannalindir. Dásamleg ferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ji en sæt saga. Þið eruð svo mikil krútt.

Kv Grettla 

Grettla (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 00:08

2 identicon

Oh Ingibjörg þvílíkur snilldarpenni sem þú ert. Og ekki er ég hissa á að þú sért ánægð með kallinn þinn... svona saga er einmitt í mínum draumum....en ég er greinilega heppin því ég hef einmitt komið á flesta þessa staði sem þú telur upp í lokin og gleymi þeim aldrei

Sjáumst vonandi fljótlega... keypti einmitt færeyskan disk í dag með m.a. Besame mucho á færeysku og syng núna hástöfum með

Særún (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 21:23

3 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Ingibjörg: Krútt! Hehehe - hef einhvern veginn aldrei tengt þá lýsingu við okkur.

Særún: Já þetta eru miklar perlur sem maður verður einhvern veginn agndofa yfir. Mér þykir þú góð að vera farin að kyrja á færeyskunni - óttalega sem framburðurinn þeirra er skrýtinn - þú auðvitað tekur lagið og leyfir mér að heyra hvernig Besame hljómar á þessu tungumáli næst þegar við hittumst. Mikið hlakka ég til.

Ingibjörg Margrét , 8.8.2008 kl. 06:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband