Fyrirlestraskór og fleira góðra frétta.
15.2.2008 | 19:24
Ein enn annasöm en skemmtileg vika á enda og kjörið að skella inn nokkrum línum á meðan bóndinn mallar nautakjöt í rjómasveppasósu ofan í fraukuna sína.
Þetta hefur eiginlega verið alveg óskaplega fræðileg vika, ef það má orða það svo. Við Reynisholtsstöllur vorum með fyrirlestra um okkar góða leikskólastarf bæði á mánudags- og þriðjudagskvöld. Fyrst fyrir foreldrahópinn okkar og svo fyrir Bugðuskólana fjóra og ég held að ég skrökvi engu þegar ég segi að við höfum hlotið góðan hljómgrunn Enda ekki annað hægt þegar maður er að tala fyrir umhyggju og vellíðan í náms- og vinnuumhverfi. Nú og svo var hringt í okkur frá 24 stundum og þar fengum við þessa fínu umfjöllun sem finna má hér með því að skrolla niður á blaðsíðu 21.
Nú svo græddi ég nýja skó vegna þessara fyrirlestra . Ætlaði á þriðjudagskvöld að skarta mínum ágætu hanskaskinnsskóm sem ég LÉT Nennna minn gefa mér fyrir einum fjórum eða fimm árum og hafa sannarlega staðið fyrir sínu hingað til, en komst þá að því að á þeim var stórt gat! Obbobobb.. ekki mætir maður nú til að messa yfir 70 manns í þrjá klukkutíma á götóttum skóm! Algerlega augljóst að mannskapurinn hefur alltof langan tíma til að mæla mann út og leita að hnökrum. Mín varð þess vegna að halda messuna á skóm sem eru bara ekki alveg nógu smart og huggulegir fyrir svona uppákomu en arkaði daginn eftir niður í Glæsibæ og fjárfesti í þessum líka gasalega fínu fyrirlestraskóm. Svo ef þið viljið fyrirlestur þá ábyrgist ég allavega að skótauið verður boðlegt
Nú svo var auðvitað leikskólaráðsfundur og ráðsmenn stóðu sig voða vel í stólaleiknum. Allir fundu nýju stólana sína eftir síðustu sviptingar í borgarmálunum - enda um vant fólk að ræða.
Ég heimsótti svo Ólaf blessaðan háls, nef og eyrna og fékk þann úrskurð, sem ég svo sem vissi, að heyrnin væri afleit á hægra eyra og að sú heyrnarskerðing yrði varanleg. Svo nú er bara að prófa hvort heyrnartæki geti eitthvað hjálpað sem er ekki víst þar sem vinstra eyrað er sem betur fer í sæmilegu standi - nú og ef heyrnartækið gagnast ekki þá verður mannskapurinn bara að venjast nýja kjæknum mínum, sem er að skjóta vinstri hliðinni framan í viðmælendur mína.
Annars stendur það uppúr í vikunni að erfið aðgerð sem kær kórsystir fór í á miðvikudag gekk eins og best verður á kosið og hetjan sú er aftur orðin söm við sig sem gleðigjafi númer eitt, tvö og þrjú.
Athugasemdir
Gvöð hvað ég hlakka til að sjá skóna, ég var sem betur fer í þokkalegum skóm í gær þegar ég hélt fyrirlestur um þróunarverkefni Hofs. En þessar þrjár sem mættu auk ráðgjafa þjónustumiðstöðvar höfðu bara engin tækifæri til að skoða þá þar sem fyrirlesarinn sat við fundarborðið með gestunum.
Góða helgi vinkona og hlakka til að hitta þig á kóræfingu
Særún (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 19:29
Það er auðvitað mikil synd að fela fallega skó undir borðum Þú passar upp á það næst.
Góða helgi!
Ingibjörg Margrét , 16.2.2008 kl. 08:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.