Jóladagur
25.12.2007 | 17:53
Umm. rumska snemma og gjóa augunum á klukkuna. Man: Jóladagur! Umm, sný mér á hina hliðina og sofna aftur. Rumska aftur - man enn að það er jóladagur - horfi smá stund upp í stjörnubjartan himininn á milli rimlagluggatjaldanna og nýt þess svo að loka augunum enn á ný - steinsofna.
Vakna og lít á klukkuna: Hálf tíu! Hvenær eiginlega svaf ég síðast til kl. hálf tíu? Fæ skyldubundið samviskubit rétt nokkur sekúndubrot á meðan ég átta mig á að eina skyldverkið sem bíður mín er að draga fánann að húni.
Sé þegar ég kem fram og laumast út í frostið og alhvíta jörð að orðspor okkar hjóna sem yfirflaggara hverfisins hefur ekki beðið skipsbrot. Nágrannarnir steinsofa enn.
Eyði megninu af deginum í félagsskap spennandi karlpenings. Heitt súkkulaði, kræsingar og skemmtilegt spjall með eiginmanni og sonum - en megnið af deginum undir sæng með Erlendi Átti þá ósk heitasta að í einhverjum jólapakkanum leyndist spennandi lesning og auðvitað rættist sú ósk og nú mun ég aðstoða Erlend við að leysa spennandi sakamál í nótt eða á morgun.
Gærkvöldið auðvitað yndislegt og eftir því sem mér skilst fjölskyldan meira og minna í mynd í sjónvarpsútsendingu frá aftansöng í Grafarvogskirkju, minna kirkjuræknum löndum okkar til fyrirmyndar
En nú er það hangikjötið og konunni ekki til bloggsetunnar boðið. Set að lokum inn þessa fjölskyldumynd sem tekin var við jólatréð í gær.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.