Minning
23.12.2007 | 21:59
Lítil stúlka sendur í sparikjólnum sínum á ganginum í lítilli kjallaraíbúð. Hún er full eftirvæntingar og tilhlökkunar, enda jólin á næsta leiti. Það er lokað inn í stofu og hefur verið í allan dag. Hún fær ekki að ganga inn í þann helgidóm fyrr en rétt áður en kirkjuklukkurnar í útvarpinu hringja jólin inn.
Allan daginn hefur hún skottast á ganginum. Mamma sýslar í eldhúsinu við að elda jólagæsina og möndlugrautinn. Frændur og vinir hafa bankað upp á af og til með pakka og annað hvort pabbi eða stóri bróðir hafa smeygt sér inn í stofu til að koma þeim fyrir undir jólatrénu. Hún passar sig að kíkja ekki inn enda er það forboðið. Henni verður hleypt inn á réttu andartaki.
Og svo rennur það upp og pabbi, mamma og stóri bróðir fylgjast með hvað hún verður undrandi og heltekinn hátíðleikanum sem umvefur litlu niðurgröfnu stofuna. Það er rökkvað inni, aðeins logar á kertaljósum og jólatrénu. Já, auðvitað jólatrénu. Á litlu rauðgrenistré sem komið hefur verið fyrir á pappakassa þöktum bómull, lýsa hvítar kertaperur svo glampar á kúlur og skraut og bjarma slær á gjafirnar undir trénu. Dýrðin fangar barnshugann.
Framundan er yndislegt kvöld; hátíð sem hún skilur að er haldin af því að einu sinni fæddist drengur sem seinna varð svo góður við alla menn að um gervallan heim halda menn upp á fæðingardag hans með því að gera allt svo undurfallegt, vera saman og gleðja hvert annað með gjöfum.
Rúmum fjörutíu árum seinna finnur hún enn fyrir helgi jólanna. Það er hún sjálf sem hefur skreytt jólatréð að þessu sinni en samt er ljómi þess sá sami. Þó tréð standi ekki á uppi á kassa núna þá er það sem fyrr lítið rauðgreni. Ekki af því að hún hafi ekki efni á dýrara tré og ekki af því að henni finnist ekki innfluttu jólatrén falleg og ekki af því að henni finnist gaman að ryksuga upp barrnálar þegar líða fer á jólahátíðina. Nei, hún hefur valið litla rauðgrenið í minningu bernskujólanna.
Gleðileg jól!
Athugasemdir
Gleðileg jól vinkona og hafðu það got:)
Særún (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 14:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.