Þorláksmessa

Jæja, þá er Þorláksmessa runnin upp og ég sit hérna við gluggann og horfist í augu við fullt tunglið sem berar sig á dimmum himninum, beint yfir þeim stað sem friðarsúlan er á kvöldin. Svolítið eins og það segi: Ég er hérna enn - hvar er þessi ljósspíra nú sem derrar sig á mínum himni?

Og húsið svo fullt af matvælum að hér mætti opna útibú frá Bónus. Ótrúlegt magn sem ég hef áætlað ofan í þessa sex einstaklinga sem hér búa - reyndar fjórir stæltir karlmenn sem taka hraustlega til matar síns og þó annar kvenkosturinn sé ekki þurftamikill þá getur hinn gúffað í sig af áfergju þegar því er að skipta. Ég rogaðist með innkaupapokana hér inn í gær - í það minnsta einn á hvern fjölskyldumeðlim - og þar sem ég burðaðist með rjóma og kræsingar, sem sigu hressilega í, hugsaði ég - Guð minn góður, ætli þetta sé sá skammtur sem ég kem til með að bæta á mig um jólin - úfff...

Úr því að almættið var svo rausnarlegt að sella á okkur svolitlu frosti og snjóföl fyrir þá sem byggja sína jólastemningu á því, útbjó ég í gær fuglakornshring sem nú hangir í rauðum borða á trjágrein úti í garði. Minna má það ekki vera, fyrir blessaða smáfuglana, fyrir utan hús sem er við það að springa utan af matvælunum.

Þórhildi Helgu finnst ég sparsöm að befa ykkur ekki uppskriftina að nostalgíu-kökunni minni góðu - og auðvitað deili ég henni með ykkur og vona að þið lærið að njóta hennar eins og við á þessum bænum:

Jólakaka - Súkkulaðikaka með smjörkremi 

3 egg

125 gr smjörlíki (ég nota alltaf smjör)

180 gr sykur

2 dl mjólk

250 gr hveiti

1 tsk vanilla

1/2 tsk kanill

2 tsk lyftiduft

80 gr suðusúkkulaði (má líka nota 50 gr kakó hrært út í heitri mjólk - en það gerir maður auðvitað ekki - súkkulaði skal það vera)

 

Leysið súkkulaðið upp í heitir mjólkinni og látið svo kólna - þetta er sett síðast út í deigið.

Þeyta egg og sykur vel saman. Lina smjörlíkið og hræra með þurrefnunum út í.

Bakað í formkökuformi við 175°C í ca klukkustund

 

Smjörkrem:

U.þ.b. 150 gr smjör í skál, flórsykur og eggjarauða 

Allt hrært saman.

 

Kakan er skorin eftir endilöngu í nokkrar sneiðar. Sett saman með vænu lagi af smjörkremi á milli.

að lokum hjúpuð með súkkulaðiglassúr: Flórsykur, kakó og sjóðandi vatn. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Takk fyrir þetta.  Nú verður lagst í bakstur,- þó ekki fyrr en milli hátíða ;)

Gleðilega jólahátíð til þín og þinna.

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 24.12.2007 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband