Hann er alveg eins og pabbi sinn!

Málkennd manna sem tala sama tungumál er í flestu sú sama, enda byggð á meginreglum móðurmálsins. Þó eru alltaf blæbrigði í málkennd á milli manna eftir því sem þeir hafa alist upp við, numið í áranna rás eða tileinkað sér af nýjungum sem skjóta upp kollinum. 

Ég er að hugsa um að birta hér af og til hugleiðingar um einstaka atriði sem ég hef tekið eftir að fólk fer misjafnlega með. Ég mun þá fyrst og fremst byggja á minni eigin málkennd en segi ekki að hún þurfi að vera rétt eða sú sama og ykkar. Mér þætti reyndar gaman að fá viðbrögð ykkar við því hvort þið eruð á sama máli og ég eða hafið aðra tilfinningu fyrir málinu. 

Það fyrsta sem mig langar að fjalla um er setning eins og þessi:

Hann er alveg eins og pabbi sinn

Ég heyri að mörgum (og sennilega flestum) finnst þetta eðlileg setning en samkvæmt minni málvitund er þetta ótæk setning. 

Ég á ekki auðvelt með að segja ykkur hvers vegna en held að það sé vegna þess að afturbeygða eignarfornafnið sinn er ekki til í nefnifalli, heldur bara í aukaföllum (um sinn, frá sínum, til síns) og ætti því ekki að geta staðið með nafnorði í nefnifalli. 

Hann er alveg eins og pabbi (nf) sinn 

Það getur hins vegar vel staðið hér:    Hann fór í bílinn (þf) sinn (þf).

Hann er líkur pabba (þgf) sínum (þgf).

                                                Hann gekk til hestsins (ef) síns (ef).

 

Samkvæmt minni málvitund ætti ofangreind setning að vera:

Hann er alveg eins og pabbi hans.

Hvað segið þið? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er alveg sammála þér - í þetta sinn.

Sveinn (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 08:17

2 identicon

Mig langar ekkert að vera sammála þér núna. Það er eitthvað svo krúttlegt að segja: Hann er alveg eins og pabbi sinn.

En það er voða gaman að verða vitni að því að Sveinn skuli vera sammála þér

Annars verð ég að lýsa ánægju minni með þetta litla fræðsluhorn. Virkilega skemmtilegt.

Beta (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 15:11

3 identicon

Haha.

Ég veit ekki hve oft pabbi minn og amma leiðréttu mig einmitt með þetta: ..... pabbi sinn. Þessi málfræði áhugi liggur greinilega í ættinni. Verst að hann hoppaði yfir kynslóð.

Knús Grettla  

Gretta (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband