Enn meiri skýrslugerð

Ég byrjaði þennan góða dag á heimsókn í LaserSjón þar sem örlítið vandamál kom upp seinnihluta fimmtudags þegar augnlokið losaði um flipann sem skorinn var í hægra augað í aðgerðinni. Elskurnar mínar, þetta er þó ekki eins agalegt og það hljómar, eingöngu tilfinning eins og aðskotahlutur sé í auganu. Í gærmorgun setti Þórður augnlæknir linsu yfir augað, svona eins og plástur, sem kom alveg í veg fyrir þessi óþægindi og sendi mig heim með augdropa til að nota á meðan þetta væri að gróa. Nú í morgun var svo sárið gróið og hægt að taka linsuna Smile og óþægindin ekkert til að gera veður útaf.

Mér var því ekkert að vanbúnaði að skella mér í fimmtugsafmælishóf Gerðar kórsystur minnar sem tók á móti tugum kórkvenna á heimili sínu í hádeginu og virtist ekki hafa meira fyrir því en að drekka vatn. Ótrúlega notalegt að fara í slíkar veislur þar sem húsráðendur eru afslappaðir og virðast ekkert hafa fyrir hlutunum þó veisluborðin svigni undan kræsingunum og ekki sjái högg á vatni þrátt fyrir tíðar ferðir að veisluborðinu - ummm.

Þetta er eiginleiki sem mig vantar alveg, því ég verð alltaf svolítið stressuð sem gestgjafi og það veit ég að afar óþægilegt fyrir gestina. Kannski læri ég þetta fyrir fimmtugt - hver veit! Óska allavega hér með eftir þeirri góðu bók svila míns, Bergþórs, Vinamót, í einhvern jólapakkann í ár. Hef trú á að þar megi finna góða leiðsögn enda hefur hann örugglega séð eitt og annað sem betur mátti fara í þeim fjölskylduboðum sem við höfum setið saman Blush.

En sem sagt, gott hóf í hádeginu, svolítið í móðu eins og lög gera ráð fyrir svona skömmu eftir aðgerð en það kom ekki að sök. Verra var að eyrað er jafn blokkerað og áður og konan því svolítið eins og álfur út úr hól. Undarlegt að heyra ekki orðaskil, jafnvel þó fólk brýni raustina, þegar kliðurinn er sem mestur. Ég reyndi bara að líta tiltölulega gáfulega út og brosti mínu blíðasta í gegnum móðuna þegar ég hélt að það ætti við Whistling Átti þó ágætis spjall við konur sem nenntu að hafa fyrir því að tala skilmerkilega beint inn í vinstri hlustina. Alltaf gott að eiga svona miskunsama samverja í hverju horni.

Nú en framundan er svo viðburðarík og skemmtileg vika. Þarf á morgun að ljúka við grein sem ég ætla að fá birta í tengslum við dag íslenskrar tungu og koma henni frá mér í byrjun viku því á miðvikudaginn ætlum við, þrjár úr vinnunni, að bregða undir okkur betri fætinum yfir í Danaveldi til að sækja þar námskeið um nudd í leikskólastarfi og skoða tvo leikskóla þar í landi. 

Föstudaginn níunda ætla svo þeir Sveinn og Bangsi minn að koma út til mín og við ætlum að vera saman fram yfir helgi í Kaupmannahöfn. Gaman. gaman!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Ingibjörg! mikið saknaði ég þín í kvöld og vona bara að þú fáir heyrnina í flugvélinni á morgun. Hafðu það gott á afmælisdaginn og njóttu helgarinnar. Vonandi eru frænkur þínar búnar að lesa óskalistann og geta því keypt bókina á dekur og djammdegi og fengið hana áritaða fyrir þig.

Hafðu það gott kella og láttu þér batna

Særún

Særún (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband