Vettvangsnám og útikennsla
14.8.2007 | 18:40
Ég hef s.l. tvo daga setið stórskemmtilega námsstefnu Skólaþróunarfélagsins um vettvangsnám og útikennslu.
Fyrir hádegi var boðið upp á stórskemmtileg erindi um mörg afbragðsgóð verkefni sem verið er að vinna víðsvegar í leik- og grunnskólum og eftir hádegi var farið á vettvang.
Heldur fannst mér reyndar halla á leikskólann bæði í erindum og þátttöku á námsstefnunni en það breytir ekki því að erindin voru flest afskaplega skemmtileg og sýndu að fjölmargir eru að vinna mjög spennandi starf.
Það er erfitt að velja eitthvað úr til að nefna hér en erindi um íþróttakennslu og heimilisfræði úti undir berum himni þóttu mér mjög áhugaverð auk erindis um verkefni sem unnið var með drengjum sem áttu erfitt uppdráttar í skólanum og að lokum tvö erindi um útivist og fjallamennsku með krökkunum, þar var ég t.d stórhrifin að starfi Smáraskóla þar sem eftir markvissan undibúning frá sex ára aldri er farið með 8. bekk og Laugavegurinn genginn og 9. og 10. bekkirnir fara í hjólaferðir um fjallabaksleiðir nyrðri og svo syðri.
Við Heiða völdum okkur svo að fara á vettvang annars vegar í útikennslustofu Norðlingaskóla í Björnslundi og hins vegar í Fossvogs- og Elliðaárdal undir leiðsögn kennara úr Fossvogsskóla.
Við fórum auðvitað heim fullar af fróðleik og hugmyndum eftir þessa tvo daga - þó ekki hafi verið laust við glott út í annað þegar grunnskólafólkið lýsti verkefnum og vinnulagi sem lengi hefur verið ástundað í leikskólanum sem nýjum sannleika. Það er þó sannarlega ánægjulegt að grunnskólinn skuli í auknum mæli nota leikinn og nánasta umhverfi barnanna til náms
Athugasemdir
Kveðjur að norðan - rakst á bloggið þitt í kommenti hjá Kristínu kollegu minni. Það var önnur ráðstefna að hluta um útinám í vor, í Skagafirði á vegum Samtaka fámennra skóla. Mjög góð ráðstefna en ekki fjölmenn.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 14.8.2007 kl. 21:04
Takk fyrir ábendinguna, Ingólfur. Ég leit yfir frásögnina af henni og í fljótu bragði virðist hún ekki síður hafa verið áhugaverð.
Ingibjörg Margrét , 15.8.2007 kl. 16:30
Já það er virkilega áhugavert að heyra af grunnskólanum og nýjum leiðum þar en ég var frekar slegin í dag á mínu fína námskeiði um málþroska og læsi þegar einhver sálfræðingsdoktor lýsti hrifningu sinni yfir einhverju amrísku pals kennslukerfi sem gengur út á verkefnablöð og aftur verkefnablöð með 5 ára börnum. Mínir sessunautar virtust yfir sig hrifnir (leikskólakonur) svo ég gat ekki orða bundist og sagði að mér fyndist nú leikurinn eiga meira heima í leikskólastofunni. Og kannski fóru þær aðeins að hugsa um það, mig langar alla vega meira út í málörvunarstundir eftir að hafa verið í sama hóp og þú í gær í Fossvogsskóla. Og er agalega spæld að hafa ekki getað verið á tveimur stöðum í einu!!!
Annars takk fyrir síðast!
Særún (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 23:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.