Færsluflokkur: Menning og listir
Til hamingju leikskólafólk, stórt og smátt
6.2.2008 | 07:53
Í dag er öskudagur og hefðbundin hátíðarhöld í leikskólanum framundan. Ég sit hér í náttfötunum, sem verður minn vinnufatnaður í dag, tilbúin að dansa og sprella með Spidermönnum, prinsessum, stirðum Sollum og án efa íþróttaálfinum í nokkrum eintökum
Það sem gerir þó þennan öskudag sérstakari en aðra slíka er að hann ber upp á Dag leikskólans sem á landsvísu hefur verið ákveðinn þann 6. febrúar ár hvert. Við í Grafarholtinu munum gera deginum hátt undir höfði, ekki bara með öskudagsskemmtun, heldur með myndlistasýningu fyrir almenning. Leikskólarnir þrír Reynisholt, Geislabaugur og Maríuborg leituðu til fyrirtækja í Holtinu og í gær voru hengd upp verk leikskólabarnanna í þessum fyrirtækjum. Verk Reynisholtsbarnanna skreyta anddyri Húsasmiðjunnar svo ef þið eigið leið þangað núna fram yfir helgi þá munu verkin þeirra taka þar á móti ykkur.
Aldrei fór það svo...
11.12.2007 | 21:27
... að mogginn birti ekki restina af þessu greinatetri mínu. Hún kom sem sagt í blaðinu í morgun - en óttalega einhvern veginn úr sambandi og fremur kjánaleg núna þegar svona langt er liðið frá tilefni hennar og að ég tali ekki um, fyrr hlutanum. En svona er þetta og ég nenni hreinlega ekki að ergja mig meira á því máli. Stóð í bréfaskrifum við ritstjórn vegna þessa en gekk bara á veggi þar á bæ og lét málið niður falla... svo ekk orð um það meir!
Mikið nær að gefa ykkur uppskrift að þessum dásamlega rétti sem minn elskulegur matreiddi handa mér i kvöld. Skollinn ef matarástin fer bara ekki að slaga hátt upp í alla hina ástina sem ég hef á honum þessum karlanga mínum
Lax með engifer
Uppskriftin er fengin af www.astamoller.is og þangað komi úr Fréttablaðinu þar sem hún birtist í janúar 2003. Hún er þrautreynd og afar einföld og góð.
- Laxflak (eða sneiðar) sem er skorið í bita, 250-300 gr á mann.
- Engiferrót 2-3 cm eða eftir smekk- sem er rifin og sett yfir laxinn.
- 2-3 msk sojasósa- sett yfir laxastykkin
- Möndluflögum er dreift yfir.
- 1/3 af ferskum mjög smátt skornum chili sáldrað yfir.
- Saltað.
- Laxinn er bakaður í 200 gráðu heitum ofni þar til hann er fallega brúnaður.
- Borið fram með kartöflum.
Ummm - nammi, namm.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Að standa í hurðinni...
2.12.2007 | 18:52
heyrði ég um daginn. Æ,æ, ó,ó ekki vildi ég standa í hurðinni né ganga í gegnum hana
Í mínum huga er þetta tvennt annars vegar dyr þ.e. þetta gat á veggjum sem við notum til að komast á milli herbergja og hins vegar hurð þ.e. viðarplankinn sem hangir á hjörunum og við notum til að loka gatinu/dyrunum.
Við getum því staðið í dyrunum þ.e.a.s. ef þær eru opnar
Meira um okkar fallega og fjölbreytilega tungumál
24.11.2007 | 19:27
Fyrir allmörgum árum skrifaði ég reglulega pistla, ásamt Ásmundi Örnólfssyni starfsfélaga mínum, um íslenskt mál í fréttabréf leikskólakennara. Þessi pistill minn birtist þar einhverju sinni:
Stundum vefst það fyrir okkur að nota töluorð með fleirtöluorðum og við freistumst til að nota frumtölurnar tveir, þrír, fjórir. Einhver kannast sennilega við að hafa talað um tvær buxur, þrjá tónleika eða fjögur verðlaun.
Rétt er hins vegar að nota með fleirtöluorðum töluorðin einir, tvennir, þrennir eða fernir en fleiri eru þessi orð nú ekki.
Ágæt regla er að ef við getum ekki sagt einn, ein eða eitt þá getum við heldur ekki sagt tveir, þrír eða fjórir.
Enginn segir t.d. ein buxur eða einn tónleikur. Við segjum því: einar buxur , tvennar dyr, þrennir skór, fern jakkaföt eða fernir tónleikar.
Blað allra landsmanna?
23.11.2007 | 19:57
Ég ætla að trúa ykkur fyrir því að ég er orðin alveg hundfúl út í Moggann - og bregður þá nýrra við.
Ég hringdi á miðvikudag og spurði einhverja konu, á ritstjórn, hvað liði síðari hluta greinarinnar minnar og reyndi að benda á að grein sem er skrifuð í tengslum við ákveðinn dag missir marks ef hluti hennar birtist ekki fyrr en eftir dúk og disk. Það verður að segjast eins og er að ekki draup nú beint af henni þjónustulundin, blessaðri . Hún benti mér á að mér hefði verið sagt að ekki væri víst að greinin gæti birst dag eftir dag. Já, já ég veit það en heil vika - Halló!!!!!
Ég fékk skýr skilaboð um að ég væri æði tilætlunarsöm að ætlast til þess að fá pláss í blaðinu tvisvar sinnum með stuttu millibili og hafði á tilfinningunni að ég ætti að biðjast fyrirgefningar á þessu ósæmilega háttarlagi mínu og þakka bara fyrir að hafa yfirleitt komist að í þessu blaði allra landsmanna.
Ég kvartaði líka yfir því að ekki var tekið fram að um fyrri hluta greinar væri að ræða - því þannig sendi ég jú greinina inn - Nei, við auglýsum ekki að um fyrri og seinni hluta er að ræða, þá er svo augljóst að þetta er löng grein sem er skipt í tvennt. Ég spyr: OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ???
Menning og listir | Breytt 24.11.2007 kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hann er alveg eins og pabbi sinn!
19.11.2007 | 21:41
Málkennd manna sem tala sama tungumál er í flestu sú sama, enda byggð á meginreglum móðurmálsins. Þó eru alltaf blæbrigði í málkennd á milli manna eftir því sem þeir hafa alist upp við, numið í áranna rás eða tileinkað sér af nýjungum sem skjóta upp kollinum.
Ég er að hugsa um að birta hér af og til hugleiðingar um einstaka atriði sem ég hef tekið eftir að fólk fer misjafnlega með. Ég mun þá fyrst og fremst byggja á minni eigin málkennd en segi ekki að hún þurfi að vera rétt eða sú sama og ykkar. Mér þætti reyndar gaman að fá viðbrögð ykkar við því hvort þið eruð á sama máli og ég eða hafið aðra tilfinningu fyrir málinu.
Það fyrsta sem mig langar að fjalla um er setning eins og þessi:
Hann er alveg eins og pabbi sinn
Ég heyri að mörgum (og sennilega flestum) finnst þetta eðlileg setning en samkvæmt minni málvitund er þetta ótæk setning.
Ég á ekki auðvelt með að segja ykkur hvers vegna en held að það sé vegna þess að afturbeygða eignarfornafnið sinn er ekki til í nefnifalli, heldur bara í aukaföllum (um sinn, frá sínum, til síns) og ætti því ekki að geta staðið með nafnorði í nefnifalli.
Hann er alveg eins og pabbi (nf) sinn
Það getur hins vegar vel staðið hér: Hann fór í bílinn (þf) sinn (þf).
Hann er líkur pabba (þgf) sínum (þgf).
Hann gekk til hestsins (ef) síns (ef).
Samkvæmt minni málvitund ætti ofangreind setning að vera:
Hann er alveg eins og pabbi hans.
Hvað segið þið?
Til hamingju með daginn kæru vinir
16.11.2007 | 16:05
Íslensk tunga hefur lengi verið mér hugleikin og mér hefur fundist það skemmtilegt verkefni að leitast við að ná sífellt betri tökum á þessu fallega og mikilfenglega tungumáli okkar. Þetta vita starfssystkin mín einhver og því var leitað til mín af stjórn Reykjavíkurdeildar leikskólakennara og ég beðin um að skrifa blaðagrein í tilefni af degi íslenskrar tungu. Mér var auðvitað ljúft að verða við því og í dag birtist í Morgunblaðinu fyrri hluti þessarar greinar. Vonandi líða svo ekki margir dagar þar til þeir Moggamenn sjá sér fært að birta síðari hlutann.
Fyrir ykkur sem kynnuð að hafa áhuga birti ég hér greinina í heild sinni og gef ykkur þar með forskot á að lesa hana alla.
Máltaka barna og áherslur í leikskólastarfi
Fyrri hluti - Máltaka barna
Öll samfélög manna eiga sér tungumál enda er tungumál mikilvægasta samskiptatæki mannsins og segja má að málhæfni sé ein meginforsenda þess að afla sér þekkingar og menntunar og njóta velgengni. Í tilefni dags íslenskrar tungu er ekki úr vegi að líta aðeins til þess hvernig börn tileinka sér móðurmálið og hvaða áherslur eru lagðar í námi ungra barna á máltökuskeiði.
Tungumál er flókið kerfi reglna sem við í bernsku virðumst tileinka okkur að mestu fyrirhafnarlaust og án sérstakrar kennslu. Það er einkar athyglisvert að það tekur flesta fullorðna mörg ár að ná valdi á erlendu tungumáli, oft með misjöfnum árangri, en börn ná á ótrúlega stuttum tíma valdi á meginatriðum málkerfisins og eru um 4 5 ára aldur flest orðin altalandi.
Máltækið, Því læra börnin málið að það er fyrir þeim haft, má sannarlega til sanns vegar færa enda tileinka börn sér aðeins mál að það sé í umhverfi þeirra. Í fljótu bragði mætti því ætla að börn læri mál með því að herma eftir því sem þau heyra. Það kemur hins vegar fljótt í ljós þegar við athugum málfar barna að þetta er mikil einföldun og segir ekki alla söguna. Börnum virðist vera eðlislægt að tileinka sér mál og þau búa þegar við fæðingu yfir ýmsum ásköpuðum eiginleikum sem gera máltökuna svo átakalausa. Það bendir einnig margt til þess að máltakan fylgi ákveðnu ferli þar sem eitt stig tekur við af öðru.
Við heyrum gjarnan ung börn segja: Þetta er fuglur eða Mamma hlaupti. Slíkar setningar segir enginn fullorðinn svo varla herma börnin þetta eftir þeim. Öll búa börnin samt til álíka setningar og virðast öll gera svipaðar villur. Málþroski barna fylgir þannig ákveðnum reglum alveg frá upphafi þar sem hvert stigið tekur við af öðru. Þessar reglur geta hins vegar verið nokkuð frábrugðnar reglum í máli fullorðinna og því tölum við um að börn geri villur í málinu. Það er samt athyglisvert að öll gera börnin sömu villurnar t.d. í beygingum orða og myndun fleirtölu en aðrar villur gera þau alls ekki svo sem í röð orða innan setningar. Það virðist því vera langt frá því tilviljanakennt á hvern hátt börnin vinna úr málumhverfi sínu.
Börn alhæfa algengar reglur s.s. um beygingu orða og fleirtölumyndun. Þannig er t.d. algengast í íslensku að karlkyns nafnorð endi á ´ur´ í nefnifalli eintölu eins og hestur og maður og því segja börn gjarnan fuglur í stað fugl eða stólur í stað stóll.
Álíka alhæfingar eiga sér stað þegar börn glíma við beygingu sagna. Veikar sagnir eru mun fleiri í íslensku en sterkar og beyging þeirra mjög regluleg. Þar er þátíðarendingin aði algengust og því yfirfæra börnin hana á sterkar sagnir og segja hlaupaði og lesaði í stað hljóp og las.
Fyrstu æviár sín vinna börnin úr þeim reglum sem málumhverfið lýtur og ná á tiltölulega stuttum tíma ótrúlegum árangri þegar þau tileinka sér flóknar reglur móðurmálsins. Flestir fullorðnir eiga mun erfiðara með að tileinka sér nýtt tungumál þrátt fyrir að hafa reglur móðurmálsins að styðjast við og kerfisbundna kennslu í málinu. Það virðist því vera sem börn séu sérstaklega næm fyrir tungumálum.
Rannsóknir styðja þetta og talað hefur verið um næmiskeið máltöku til 12 ára aldurs. Sennilegt þykir þó að aðalnæmiskeiðið sé aðeins til 5 eða 6 ára aldurs. Til að hægt sé að tala um að barn hafi móðurmál verður það að læra það á þessum aldri. Dragist máltakan til aldursbilsins 5 12 ára virðast börnin ekki ná fullum tökum á málfræði móðurmálsins.
Auðugt, vandað málumhverfi í bernsku stuðlar að því að börnin nái góðu valdi á málinu og verði færir málnotendur svo tungumálið megi verða þeim lykill til náms, þroska og samskipta við aðra alla ævina. Því víðtækari reynslu sem barn fær á einu stigi máltökunnar þeim mun betra veganesti hefur það inn á það næsta.
Það er alkunna að á aðalnæmiskeiði máltökunnar gengur meginþorri barna í leikskóla, flest daglangt. Í síðari hluta þessarar greinar verður fjallað um þær aðferðir og áherslur sem helst er unnið eftir til að styðja við málþroska barna í leikskólastarfi. Þar verður fyrst og fremst fjallað um talmálsþroska barna en að þessu sinni horft framhjá því starfi sem unnið er til að byggja undir læsi og ritmálsþjálfun barnanna, enda ekki unnt að gera hvoru tveggja skil í stuttri blaðagrein.
Síðari hluti - Áherslur í leikskólastarfi
Aðalnámskrá leikskóla birtir hina opinberu stefnu um áherslur í leikskólastarfi og þar segir að málrækt skuli flétta inn í flesta þætti starfsins. Þar er enn fremur lögð áhersla á að leikskólafræði séu fremur þroskamiðuð en fagmiðuð með áherslu á leik barna sem náms- og þroskaleið. Í leikskólum er því unnið að samþættingu námssviða í gegnum leik og daglegar athafnir. Málörvun er þar engin undantekning enda einkennir það mál ungra barna að vera bundið stund og stað og í samhengi við þær athafnir sem framkvæmdar eru hverju sinni.
Lögð er rík áhersla á að leikskólakennarar tileinki sér auðugt málfar og setji mál sitt fram á þann hátt að það kalli á virkni barnsins; noti t.d. opnar spurningar s.s: Hvers vegna ætli..? Hvað gætir þú...?. Slíkt kallar á samræður og gerir kröfur um að barnið svari með setningu, taki afstöðu eða setji fram tilgátu. Mikil áhersla er lögð á talmálsþjálfun í margs konar skipulögðu starfi og frjálsum leik barnanna þar sem markvisst er stutt við fjölbreytta málþjálfun og vaxandi málkennd barnanna. Við slíkar aðstæður reynir á marga eiginleika málsins s.s. málfræði, orðaforða, merkingu hugtaka og að byggja upp atburðarás í frásögn.
Myndaðir eru hópar með börnum sem þurfa hvatningu og stuðning þar sem markvisst er unnið með spil, bækur, samræður og æfingar talfæranna. Fyrir utan hinar skipulögðu stundir eru tækifærin í daglegri umönnum barnanna nýtt til að leggja inn margvísleg heiti, hugtök og blæbrigðamun einstakra fyrirbæra.
Matmálstímar nýtast einstaklega vel til samræðna og mikil áhersla er lögð á daglegar sögustundir þar sem umræða um efni bókanna er ekki síður mikilvæg en sögurnar sjálfar auk þess sem börnin eru oft hvött til að koma fram fyrir hópinn og segja frá einhverju sem þeim er hugleikið.
Lestur vandaðra bóka, vísna og þula eflir mjög málvitund og -skilning barnanna og verður aldrei ofbrýnt mikilvægi þessa bæði heima fyrir og í skólum.
Söngur, rím og taktleikir eru mikið notaðir en þeir auka næmi barnanna fyrir eiginleikum málsins og auðvelda þeim að skynja einstök atkvæði orða.
Ýmis spil nýtast til að þjálfa myndun fleirtölu, greina kyn hluta eða skýra frá atburðarás og hreyfileikir eru notaðir til að tengja saman virkni barnsins og hugtök um afstöðu og hreyfingu.
Svonefndir hlutverkaleikir skipa stóran sess í starfinu og eru taldir ein af öflugustu leiðunum fyrir barn til að nota málið sem sjálfstætt táknkerfi. Stór hluti leiksins felst í samræðum barnanna þar sem þau ráða ráðum sínum og skipuleggja um leið og leikið er.
Skilningur leikskólakennara á uppeldishlutverki sínu og ábyrgð hvað móðurmálið varðar er samofinn öðrum þáttum starfsins. Það má segja að þegar tækifæri líðandi stundar eru gripin verði málræktin eins og rauður þráður í gegnum allt starfið. Það er hins vegar háð því að kennarar hafi næmt auga fyrir tækifærunum, hafi sjálfir sterka málvitund og í valdi sínu að nýta tækifærin sem gefast. Aðeins þá verður leikskólinn það styðjandi málumhverfi sem honum ber að vera og gefur börnum næg tækifæri til að byggja upp sterka málkennd.
Þau vinnubrögð sem hér er lýst gera oft á tíðum mun meiri kröfur á kennara en hefðbundnar kennsluaðferðir enda kristallast hér áherslur einstaklingsmiðaðs náms þar sem hverju barni er mætt þar sem það er statt hverju sinni.
Í leikskólanum er frekar horft til þess hvað barn segir en hvernig það er sagt. Það þýðir þó ekki að börnin séu ekki leiðrétt. Leiðréttingar eru þó settar fram á mjög varfærinn hátt í ljósi þess að börnin eru bundin alhæfingum um einstaka málfræðireglur og ráða ekki við að leiðrétta mál sitt. Því er lögð áhersla á að veita því athygli sem barnið segir en koma að málfarsleiðréttingum með því að endurtaka setninguna rétta. Barn segir t.d. Þarna er fuglur. Þá segir sá fullorðni gjarnan Já, alveg rétt, þarna er fugl. Barnið fær þau skilaboð að það sem það sagði sé sannarlega allrar athygli vert um leið og endurtekningin gefur því rétta orðmynd sem það tileinkar sér smám saman til að losna undan klafa alhæfingarinnar.
Með því að leggja áherslu á þjálfun barna í tjáningu og hlustun sýnir leikskólinn þroskaferli barnsins virðingu og styrkir um leið sjálfsmynd þess og trú á eigin getu. Börnin verða óhrædd við að tjá sig og öðlast færni í að hlusta á aðra.
Áherslur Aðalnámskrár leikskóla eru í fullu samræmi við hugmyndir um það ferli sem málþroski barna fylgir. Ekki er lagt upp úr beinni kennslu enda viðurkennt að máltakan fylgi sínu eigin ferli þar sem börnin hafa meðfædda eiginleika til vinna úr málumhverfinu. Þótt við getum ekki haft áhrif á feril máltökunnar þá hafa gæði málumhverfisins áhrif á þá færni sem börnin ná á þessu mikilvægasta skeiði málþroskans. Það er því mikils virði að kennarar hafi sjálfir góð tök á tungumálinu og færni til að miðla því til barnanna um leið og þeir sýna þroska þeirra virðingu og skilning.
Takist okkur að byggja sterkan grunn málkenndar; sá fræjum virðingar og áhuga á móðurmálinu hjá börnunum og styrkja trú þeirra á eigin getu til að nota það í samskiptum við aðra höfum við gefið þeim ómetanlegt veganesti fyrir allt það nám og starf sem bíður þeirra á lífsleiðinni.Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)