Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Afmælisbörnin mín
23.11.2007 | 20:24
Eftir pirringsfærsluna hér að neðan er auðvitað upplagt að lyfta geðinu á hærra plan með góðum óskum til afmælisbarnanna minn .
Svo skemmtilega vill nefnilega til að þau Snorri miðlungurinn minn og Katrín mín dásamlega tengdadóttir eiga sama afmælisdag. Hann er 19 ára í dag og hún 22.
Til hamingju með daginn krakkar mínir!
Dagurinn hefur auðvitað einkennst af afmælisstússi. Við gömlu hjónin vorum komin fram upp úr kl 6 í morgun, til að hita brauð í ofni og baka vöfflur svo afmælisbörnin - og við hin líka - gætum notið lúxus morgunverðar áður en við mættum til vinnu kl. 8. Nú Snorri hafði svo pantað heimagert Lasagne og auðvitað var orðið við því í kvöldverðinum.
Núna bíða þau skötuhjú (og auðvitað Gunnar líka) eftir því að húsið fyllist af vinum og kunningjum sem hér ætla að gera sér glaðan dag/kvöld. Við Nenni minn erum þess vegna skriðin í okkar litla notalega verelsi til að eyða kvöldinu yfir imbanum. Nú og svo leggst maður bara á sitt græna, heyrandi eyra og snýr því heyrnarlausa upp og sefur af sér alla partýgleðina - já, ljósin mín, fátt er svo með öllu illt .
Þess má að lokum geta, fyrir ykkur sem eruð kunnug okkar heimilisháttum, að við gamla settið skiptum um síðustu helgi um herbergi við unga parið. Ég hafði hugsað það í nokkurn tíma að það væri mikið nær að við kúldruðumst í þessum átta fermetrum og eftirlétum þeim svefnherbergið til að hreiðra um sig í. Og það get ég sagt ykkur að mér finnst þetta bara voða notalegt.