Ungarnir taka flugið

Jæja þá fer að koma að því að ábúendum hér á bæ fækki um þriðjung. Turdildúfurnar á heimilinu eru nefnilega að kaupa sér íbúð og fengu hana afhenta í hádeginu í dag. Þau voru svo heppin að festa kaup í afar góðri þriggja herbergja íbúð á sanngjörnu verði – Já, sanngjörnu verði, Eigandinn sá sem var að ásett verð var alltof, alltof hátt og sættist á viðráðanlegt verð. 

Okkur sem sagt fækkar nokkuð í heimili og ég held að allir séu bara afar sáttir við það þrátt fyrir að sambúðin hafi gengið mjög vel fram til þessa – það er jú gangur lífsins að ungarnir fljúgi úr hreiðrinu. Nú og ef söknuðurinn verður mjög mikill þá er nú ekki langt að fara á milli Grafarvogs og Breiðholts. 

Því er heldur ekki að neita að það er orðið ööörlítið þröngt um okkur og ég verð ekkert leið yfir því að flytja aftur í svefnherbergið mitt góða. Ég hef svo sem verið fyllilega sátt við að klöngrast yfir minn betri helming til að skríða í bælið mitt upp við vegginn í átta fermetrunum sem hafa verið okkar verelsi síðustu misseri. Enda var það  algerlega að mínu frumkvæði að við gengum úr herbergi fyrir unga fólkið – nú og svo er kallinn svo ansi mjúkur og tekur mínum klifurtilburðum af miklu æðruleysi Whistling

En gott verður það að geta bara gengið að rúmstokknum og smeygt sé uppí, nú eða risið úr rekkju án þess að þurfa , í orðsins fyllstu merkingu, að skríða fram úr. Svona geta einföldustu hlutir orðið mikils virði og hluti lífsgæða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innilega til hamingju með ungana þína. Stór dagur!

Ég mæti þeim bræðrum (alla vegana Snorra) í dag á leiðinni niður Kóngsbakka götuna, með kerru í eftirdragi á bílnum hans pabba. Tilbúnir í niðurrif. Spennandi.

Kveðja Grettla

Grettla (IP-tala skráð) 16.8.2008 kl. 21:30

2 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Takk Grettla mín. Já, það gekk ótrúlega vel í gær; öll gólfefni voru rifin af og eldhúsinnréttingin sömuleiðis - enda allt komið vel til ára sinna og flest frá 1968. Verkefni dagsins verður svo að rífa niður smá veggstubb og opna með því meira inn í eldhúsið.

En hvernig ganga þínar framkvæmdir - ertu að komast upp úr jörðinni með þinn framtíðar bústað? 

Ingibjörg Margrét , 17.8.2008 kl. 09:26

3 identicon

Bestu hamingjuóskir til þeirra Gunnars og Katrínar. Ég sé núna að við Katrín eigum ýmislegt sameiginlegt. Ég keypti líka mína fyrstu íbúð, með mínum Gunnari, í þessum sama stigagangi. Skemmtilegt!

Beta (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 12:05

4 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Takk Beta mín. Já, skemmtilegt og gefur unga fólkinu sannarlega góð fyrirheit.

Ingibjörg Margrét , 17.8.2008 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband